02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2611)

86. mál, söluskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við erum svo vanir því, stjórnarandstæðingar, að hæstv. ráðh. lítist ekki á okkar mál, að það er ekki neitt til að kippa sér upp við, enda hefur reynslan sýnt, að svo er. Þess vegna er nú stefnubreytingar þörf. En það eru tvö atriði, sem ég vildi víkja að, sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh.

Í fyrsta lagi sagði hann, að við framsóknarmenn hefðum komið okkur hjá því að taka á vandanum í efnahagsmálunum í sambandi við umr. þær, sem fóru fram milli stjórnmálaflokkanna á s. l. hausti. Um þetta vil ég segja það, að það eru tvö atriði sem sanna betur en nokkuð annað, að hér er ekki farið með rétt mál. Fyrsta atriðið er það, að þegar hæstv. ríkisstj, mætti til viðræðnanna, þá hafði hún ekkert fram að leggja sem innlegg í málið. Það tók því nærri tvo mánuði að safna gögnum, til þess að viðræðurnar gætu raunverulega hafizt. Og þegar var búið að safna gögnum, þá var þeim lokið. En áður en þessu var fullkomlega lokið, hélt annar stjórnarflokkurinn, Alþfl., sitt flokksþing hér í Reykjavík og gerði stjórnmálaályktun, þar sem hann lýsti yfir áframhaldandi samstarfi í núv. ríkisstj., en nefndi ekki samstarf allra stjórnmálaflokka um þjóðstjórn. Þetta var yfirlýsing um það, að hverju var stefnt með þessum viðræðum, enda var þeim lokið, þegar búið var að safna þeim gögnum, sem sköpuðu grundvöllinn að viðræðunum.

Annað atriðið, sem hæstv. ráðh. vék að og ég vildi nefna, var í sambandi við, að þessi leið væri ekki öruggasta leiðin til þess að leysa vandann hjá þeim, sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Það er vitnað til þess í grg. okkar fyrir þessu frv., að í fjárlfrv. fyrir árið 1967 var talin ástæða til að auka niðurgreiðslurnar til að halda verðlagi í skefjum, og þá var því fyrst og fremst haldið fram, að það væri verið að gera það til þess að bæta um hjá þeim, sem verst eru settir. Nú skilst mér á hæstv. ráðh., að það komi ekki þeim, sem verst eru settir, að gagni, þó að verðlag lækki, það geti verið eitthvað annað, sem henti þeim betur, og það væri ánægjulegt að sjá það, þegar það fer að koma fram, en það er a. m. k. ekki séð enn þá. Ekkert kemur eins vel við hinn almenna borgara í þessu landi og lágt og skynsamlegt vöruverð á þeim tegundum, sem mest neyzla er á. Þess vegna er ég sannfærður um það, að ef hæstv. ríkisstj. sér sér ekki fært að hagnýta sér þessa leið mína, þá kemur að því, að hún verður farin. Það, að niðurgreiðslurnar, sem þóttu mikils virði fyrir þjóðfélagið 1966, eru nú ekki lengur taldar heppileg vinnuaðferð, sannar það til viðbótar því, sem áður hefur verið vitnað til, að hugsunin á bak við þá framkvæmd var fyrst og fremst sú að búa í haginn fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við kosningarnar 1967, og það er ánægjulegt, þegar viðurkenning kemur á því frá hæstv. ríkisstj., að þannig hafi málið verið hugsað.