09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2751)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim tveim ræðumönnum, sem töluðu hér áðan, hæstv. fjmrh. og hv. 10. landsk. þm., undirtektir í sambandi við þetta frv. Ég vil jafnframt segja það út af þeirri n., sem fjmrh. hefur skipað, að sú skýring, sem hann gaf á skipan n., er að mínum dómi mjög skiljanleg, og eins og ég gat um í framsöguræðu minni, ættu sjálfsagt eftir að ganga í gegnum hreinsunareld þær hugmyndir, sem þessir ágætu menn fengju, þannig að þeir aðilar, sem hafa með höndum atvinnurekstur og þekkja þetta hvað bezt, hefðu tækifæri til þess að leggja orð í belg, áður en lagðar væru fram till. til úrbóta í þessum efnum. Hann gat m. a. um það, að hér væri um sérstakt fyrirbrigði að ræða, þar sem er 10% frádráttur af arðsútborgun í sambandi við hagnað félaga. Ég einmitt benti í minni framsöguræðu á frv., sem liggur nú fyrir Stórþinginu í Noregi, þar sem þeir gera ráð fyrir að taka þetta upp og ganga mun lengra, heimila skattfrádrátt í arðgreiðslusjóð, þannig að það sé ævinlega tryggt, að þeir, sem eigi hlutafé, fái arðgreiðslu, enda þótt ekki sé um hagnað hjá fyrirtækinu að ræða einstakt ár, þ. e. a. s. þegar vel árar er heimilt að leggja í þennan arðgreiðslusjóð og það til frádráttar eins og 10% arðurinn, sem hér er heimilaður.

Í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. þá gat ég þess m. a. í ræðu minni, að það hefði tekið hálfan annan áratug að fá skilning á því, hvernig skattaálögum atvinnufyrirtækja væri komið. Ég minntist sérstaklega skattalaganna frá 1962, sem að mínum dómi mörkuðu spor í breytingu á skattalögunum. Hinu skal ég ekki neita, sem hann einmitt gat um, að 1958 var gerð önnur breyt. á þessum skattalögum, sem mjög var til bóta og gerði það að verkum, að skattlagning þessara fyrirtækja var mun betri eftir en áður. Við sitjum saman í þeirri hv. n., sem ég hef lagt til að fái þetta frv., svo að okkur gefst sjálfsagt tækifæri til þess að tala saman um málið, og ég sé því ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta atriði. Þó vil ég í sambandi við aðstöðugjöldin benda hv. þm. á það, að hér er um að ræða mjög misjafna þörf sveitarfélaganna, og það kemur ætíð að því sama í sambandi við fjáröflun þeirra, — hvar ætti sveitarfélag að fá fjármagnið, ef þeir aðilar, sem eru starfandi í viðkomandi sveitarfélagi, ættu ekki að greiða það, nema um væri að ræða, að allt landið væri eitt og sama skattsvæðið og skatturinn gengi, hvort sem hann er frá sveitarfélagi eða ríki, í einn og sama sjóðinn og honum síðan útdeilt? Víð tókum skattinn núna í einn og sama sjóðinn og deildum fénu hér á hv. Alþ., en hitt atriðið hafa sveitarfélögin fjallað um.

Varðandi það, sem hv. 6. landsk. þm. spurði um, gat ég þess í framsöguræðu minni, ef ég man rétt, að ég hefði ekki tekið fram, hversu há prósenta af arði yrði skattfrjáls. Ég gat þess líka, að frv. bæri með sér, að allur sá arður, sem greiddur væri, yrði skattfrjáls. En ég gerði aths. við þetta og sagði, að ég hefði ekki talið rétt að taka það fram, heldur hitt, að við afgreiðslu málsins yrði þetta atriði skoðað, vegna þess að ég sagðist ekki hafna þeirri hugmynd, að það væri greiddur hærri arður skattfrjáls en þeir vextir, sem skattfrjálsir eru af sparifé. Það var einfaldlega þess vegna, sem ég taldi rétt að láta ekki þá takmörkun koma fram í frv., heldur hugsaði mér í minni framsöguræðu að gera grein fyrir þessu.

Varðandi hitt atriðið má sjálfsagt um það deila, hvort allt hlutafé á að vera skattfrjálst. Það geta að sjálfsögðu verið um það eins og hitt uppi mörg sjónarmið. Þar verður auðvitað mat hvers og eins að ráða. Sumir mundu að sjálfsögðu segja, að það væri eðlilegt, að hlutabréf í atvinnurekstri, sjávarútvegi, iðnaði, landbúnaði, verzlun, samgöngum, í þessum atvinnurekstri væri skattfrelsi á hlutafé, en ekki í öðrum fyrirtækjum, sem minna væru nauðsynleg, eins og hann benti á, sælgætissölu, billjardstofum o. s. frv. Þetta getur að sjálfsögðu verið matsatriði, og einmitt þess vegna orðaði ég þetta líka þannig, að hægt væri að koma að öllum þeim sjónarmiðum, sem gætu komið fram í sambandi við þetta atriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en ítreka, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjhn.