12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (2806)

247. mál, Fjárfestingarfélag Íslands hf.

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Mál það, sem ég flyt hér ásamt hv. 10. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Vestf., hefur verið alllengi í undirbúningi. Á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands s. 1. haust var gerð ályktun þess efnis, að stjórn ráðsins athugaði, hvort ekki mundi reynast unnt að koma á fót öflugu fjárfestingarfélagi til að örva íslenzkan atvinnurekstur. Síðan hafa Verzlunarráðið og Félag ísl. iðnrekenda unnið að þessu máli. Margir fundir hafa verið haldnir og einkum hafa starfað að undirbúningi málsins Haraldur Sveinsson formaður Verzlunarráðsins, Gunnar J. Friðriksson formaður Félags ísl. iðnrekenda, bankastjórar Iðnaðarbankans, Bragi Hannesson og Pétur Sæmundsen, Höskuldur Ólafsson bankastjóri Verzlunarbankans, dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, Þorvarður Alfonsson framkvstj. Félags ísl. iðnrekenda, Þorvarður J. Júlíusson framkvstj. Verzlunarráðsins og við Hjörtur Torfason lögfræðingur.

Ég hef orðið þess var, að menn hafa átt dálítið erfitt með að átta sig á því, hvaða starfrækslu hér væri um að ræða, og er það eðlilegt, því að félög eins og það, sem hér er lagt til að stofnað verði, hafa ekki verið, starfrækt áður hér á Íslandi, þótt þau séu alþekkt í öðrum lýðræðisríkjum. Ég verð þess vegna, herra forseti, að eyða nokkrum tíma til þess að skýra mál þetta, þótt ég skuli reyna að stytta mál mitt efir því sem unnt er.

Frv. gerir ráð fyrir, að Verzlunarráði Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda og öðrum þeim, sem þessir aðilar kveðja til, sé heimilt að stofna fjárfestingarfélag, enda nemi hlutafé félagsins a. m. k. 80 millj. kr. Ástæðan til þess, að þörf er sérstakrar löggjafar, er fyrst og fremst sú, að bönkum og opinberum sjóðum er yfirleitt ekki heimilt að kaupa hlutabréf, en ógerlegt mundi reynast að safna nægilega miklu hlutafé án þátttöku einkabankanna og að einhverju leyti með framlagi úr opinberum sjóðum, t. d. Framkvæmdasjóði Íslands. Enda þótt hér sé ekki um að ræða bankastofnun í venjulegum skilningi, þótti eðlilegt, að sérstök lög fjölluðu um Fjárfestingarfélag Íslands h. f., eins og er um alla íslenzka banka. Þá þótti einnig eðlilegt, að fjárfestingarstofnunin nyti ,skattfríðinda á sama hátt og bankarnir gera, a. m. k. fyrst í stað, það yrði þá einnig að gerast með sérstakri löggjöf. Þess er að vísu að gæta, að nú hefur hæstv. fjmrh. skipað sérstaka n. til að athuga ,skattgreiðslur hlutafélaga, og má vera, að unnt yrði að leysa, þennan vanda með almennri löggjöf, því að vissulega væri æskilegt, að fleiri en fjárfestingarstofnunin hefðu með höndum ýmsa þá starfrækslu, sem henni er ætluð, enda líklegt, að svo muni fara, er fram í sækir og menn kynnast því, hve mikilvæg þessi starfsemi er.

Segja má, að, meginverkefni fjárfestingarstofnunarinnar verði tvíþætt, þ. e. annars vegar að vera frumkvöðull að félagastofnunum og hins vegar óbeinn þátttakandi í hlutafélögum. Ég tel nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um hvorn þessara þátta, einkum þar sem um nýmæli er að ræða hér á landi og hugtökin ný af nálinni.

Það hefur verið sagt, að frumkvöðlar séu menn, sem taki sér fyrir hendur að mynda félagsskap. vinna að fjármagnsútvegun og heppilegasta skipulagi til að félagið nái tilætluðum árangri og koma því að fullu á fót. Frumkvöðull þarf ekki einungis að taka sér fyrir hendur að stofna félag og vinna að stofnun þess, heldur verður honum að takast stofnunin og hann verður að sjá um, að fyrirtækið hefji rekstur, til þess að hann hafi fullkomnað verk sitt. Þar með er ekki sagt, að hann þurfi einn að eiga fyrirtækið, þegar það hefur rekstur. Hann kann að hafa laðað saman fjármagnseigendur og fengið þá til að gerast þátttakendur í hinu nýja félagi, en hins vegar hefur