26.11.1968
Efri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2842)

58. mál, breyting á lausaskuldum bænda í föst lán

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er á þskj. 77, er í meginatriðum samhljóða því frv., er við framsóknarþm. í þessari hv. þd. fluttum á síðasta þingi. Enda þótt þeir, sem töluðu í málinu við 1. umr., teldu, að nauðsyn bæri til að greiða götu þeirra bænda, sem illa eru staddir fjárhagslega, urðu endalok málsins þau, að það hlaut ekki afgreiðslu meiri hl. landbn., en minni hl. landbn. gaf út nál. þann 19. apríl s. l. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. þetta, en ekki orðið einhuga um afgreiðslu þess. Þann 1. febr. var frv. þetta tekið til umr. í Ed. Alþingis og vísað til landbn. þann 6. febr. Litlu síðar var málið tekið fyrir í n. og sent til umsagnar þriggja aðila, Stéttarsambands bænda, Búnaðarbanka Íslands og Seðlabanka Íslands. Umsögn hefur borizt frá Stéttarsambandi bænda, þar sem það mælir með frv. Hins vegar hafa ekki borizt umsagnir frá Búnaðarbanka Íslands né Seðlabanka Íslands. Sennilega eru þessir aðilar í meginatriðum sammála flm. um þýðingu frv. fyrir bændastéttina og telja sig þar af leiðandi ekki þurfa að gefa umsagnir. Frv. á miklum vinsældum að fagna meðal bænda, enda var því vel tekið af þeim, sem létu í ljós álit sitt við 1. umr. í Ed.

Þetta var nál., sem minni hl. gaf út þann 19. apríl, undirskrifað af Ásgeiri Bjarnasyni og Páll Þorsteinssyni. Mér þykir leiðinlegt, að hvorki hæstv. fjmrh. né hæstv. landbrh. eru í d., því að ég hefði gjarnan viljað, að einmitt þeir frekar en aðrir ráðh. væru viðstaddir, og vildi ég biðja hæstv. forseta að sjá um, að þeir yrðu hérna viðstaddir eða a. m. k. annar hvor.

Það er kunnugra manna mál, að viss hluti bænda eigi í miklum Fjárhagserfiðleikum og það svo, að ekki verði hjá því komizt að greiða götu þeirra með því að breyta lausaskuldum í föst lán og með skuldaskilum hjá öðrum. Samhliða þessu verður heldur ekki hjá því komizt að greiða úr skuldaerfiðleikum hjá fyrirtækjum bænda. Í framsöguræðu minni á s. l. vetri gerði ég ýtarlega grein fyrir þessu máli, og mun ég nú rifja upp helztu ástæðurnar fyrir skuldasöfnun og lýsa í nokkru því, sem við blasir í landbúnaðinum um þessar mundir. Þegar lögum um Ræktunarsjóð Íslands og byggingarsjóð var breytt í núgildandi lög um stofnlánadeild landbúnaðarins, fór fram samkv. sérstökum l. breyting á lausaskuldum bænda í föst lán. Það verður því að ætla, að lausaskuldir bænda hafi ekki verið ýkja miklar um það leyti, sem stofnlánadeild landbúnaðarins hóf göngu sína. Skýrslur sýna það, að aðeins þriðji hluti skulda bænda hafi þá verið lausaskuldir, en 2/3 hlutar veðbundin lán. Ég minni á þetta hér við þetta tækifæri, því að nú er þetta alveg öfugt orðið, þar sem lausaskuldirnar eru 2/3 og veðbundnar skuldir um 1/3 af heildarskuldum bænda. Hæstv. landbrh. taldi í sambandi við stofnlánadeildina, að það mundu ekki þurfa framvegis að safnast lausaskuldir, því að svo vel hefði hæstv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, séð fyrir lánaþörf landbúnaðarins. Í sama streng tók núv. hæstv. fjmrh., sem fann upp sérskattinn á bændur, stofnlánadeildarskattinn. Með leyfi hæstv. forseta vil ég rifja upp örfá atriði, sem þessir hæstv. ráðh. sögðu við það tækifæri, og þykir mér leitt, að þeir skuli ekki þora að vera viðstaddir og hlusta á það, sem þeir hafa áður sagt um þessi efni. (Forseti: Það er verið að athuga, hvort þeir eru í húsinu.) Hæstv. landbrh. sagði, með leyfi forseta:

„Sannleikurinn er sá, að yfirleitt eru heimildir til að lána til allra þeirra hluta, sem líklegt er, að þurfi að lána til á næstu árum í landbúnaði. Hin stóra breyting er hins vegar sú, að með þessu frv. er lagður grundvöllur að því, að þessar heimildir geti orðið að veruleika í náinni framtíð. Þegar uppbygging stofnlánadeildarinnar er komin vel á veg, eins og sýnt er að verður eftir stuttan tíma, má segja, að hana muni ekki mikið um það að kaupa af veðdeildinni bankavaxtabréf fyrir 10 millj. kr. árlega.“

Þetta sagði hæstv. landbrh. þá. Þáv. bankastjóri Búnaðarbankans, hæstv. fjmrh. Magnús Jónsson, sagði við sömu umræður:

„Með því frv., sem hér liggur fyrir, er leyst til frambúðar lánsfjárvandamál landbúnaðarins til stofnlána og lagður grundvöllur að því, að hægt sé að bæta úr því mikla vandamáli, sem hv. þm. réttilega benti á, að væri við að stríða í dag.“ Þetta var við umr. þá. Enn fremur sagði ráðh.: „Ég vil ákveðið halda því fram, að með þessu frv. hafi verið efnt það fyrirheit að tryggja öryggi stofnlánasjóðanna, fullkomlega efnt það fyrirheit.“

Þessar umsagnir ráðh. standa í Alþingistíðindum 1961 B, 4. hefti, ef einhverjum skyldi detta í hug að athuga, hvort rétt er með farið.

Þannig hljóðuðu þessi heilögu orð hæstv. ráðh. Síðan þetta var talað, hefur viðreisnarstjórnin ráðið lögum og lofum í landinu um margra ára skeið. En hvernig stendur þá á því, að lausaskuldir hafa safnazt í jafn ríkulegum mæli og dæmin sýna? Lengst af á þessum tíma hefur verið góðæri. Getur það verið, að stefnan hafi verið vitlaust mörkuð í upphafi, að þar hafi verið breytt um til hins verra frá því, sem áður þekktist? Allt bendir til þess, að svo hafi verið. Á sviði landbúnaðarins var tekin upp alröng stefna af núv. valdhöfum nákvæmlega eins og með aðra atvinnuvegi. Á þessum árum hefur skapazt öryggisleysi í stað öryggis og jafnt og þétt grafizt undan atvinnulífi þjóðarinnar og það, sem við blasir, eru víðtækari vanskil og greiðsluþrot en áður hafa þekkzt í sögu þjóðarinnar.

Fjórar gengisfellingar, sem hafa hækkað erlendan gjaldeyri um 441%, segja til sín. Erlendar lántökur, sem átt hafa sér stað að undanförnu og nema senn á 15. milljarð kr., segja sína sögu. Útþenslan og stjórnleysið í fjármálum þjóðarinnar koma ekki síður við bændastéttina en aðra. Hækkun vaxta af stofnlánum í tíð núv. stjórnar var í upphafi 60–70% frá því, sem áður gilti, samfara styttingu lánstíma. Þetta hvort tveggja segir sína sögu, svo að ekki sé talað um stofnlánadeildarskattinn, sem er alíslenzkt fyrirbæri og enginn landbrh. í víðri veröld hefði gerzt talsmaður fyrir nema hæstv. landbrh. á Íslandi. Þetta þrennt, hækkun vaxta, stytting lánstíma - og sérskatturinn er stór þáttur í því, að til lausaskulda hefur komið í stórum stíl hjá bændum samhliða því, sem mati á framkvæmdum hefur verið haldið niðri til þess að draga úr lánsfjárupphæðum. Þá er það vitað mál, að á þessum tíma hefur byggingarkostnaður margfaldazt og varla er hægt að koma upp einni íbúð fyrir minna en 1 millj. kr., en lán út á þessar íbúðir hefur verið um það bil 1/3 hluti af heildarkostnaði íbúðarinnar. Sama máli gegnir með vélvæðinguna. Þar eru lánin um það bil 1/3 hluti af því, sem aflvélar kosta, og ekki neitt til tækjakaupa í sambandi við vélarnar. Þá bætir það ekki úr í framtíðinni, að allar þessar vélar og öll þessi tæki hafa hækkað svo stórkostlega nú á einu einasta ári, að ein lítil heimilisdráttarvél, sem kostaði fyrir ári síðan 109 þús. 594 kr., kemur til með að kosta nú eftir síðustu gengisbreytingu 188 þús. 762 kr., eða hækkar um 72%. Sama máli gegnir með aðrar vélar og varahluti til vélvæðingarinnar. Þar eru stórfelldar hækkanir fram undan. Ef verzlunarfyrirtæki bændanna geta ekki liðið um greiðslur í bili, verða bændur að hætta við vélvæðingu, því að ekki eru bankarnir galopnir bændum, a. m. k. ekki sumum þeirra. Þar sitja aðrir jafnan innar við borðið. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur því frá öndverðu reynzt allt önnur en hún var í upphafi túlkuð, eins og stjórnarstefnan öll, enda einn anginn af viðreisninni. Því hefði hún verið rétt uppbyggð væru lausaskuldir landbúnaðarins minni en þær nú eru. Við skulum líta á reikninga stofnlánadeildarinnar fyrir árið 1967.

Þar sést, að þær tekjur, sem stofnlánadeildin hefur, eru á árinu 1967 94 millj. 262 þús. 746 kr. En af þeim tekjum koma frá bændum 62.8 millj. kr. á móti 31.4 millj. annars staðar að sem aðallega er frá ríkinu. Ég ætla, að það beri enginn á móti því, að lántökugjöldin, sem eru 1.3 millj., séu borguð af bændum og vextir til stofnlánadeildarinnar, sem eru 42 millj. 945 þús. 798 kr. Aftur á móti geri ég ráð fyrir, að 665 þús. rúml., sem er stóreignaskattur, komi annars staðar að. 1% álag á landbúnaðarvörur, þ. e. 17 millj. 101 þús. 46 kr. koma frá bændum og að sjálfsögðu kemur hluti af 0.75% álaginu líka á neyzluvörur bænda eins og annarra neytenda í landinu, þannig að það er ekki ofsögum sagt, að bændur borga 2 kr. af hverjum 3, sem stofnlánadeildin hefur í tekjur, og það er alveg öfugt við það, sem áður var, að stofnlánadeildin er uppbyggð af tekjum frá bændum í staðinn fyrir að áður fyrri voru ræktunarsjóður og byggingarsjóður byggðir upp með tekjum annars staðar að og komu því bændum til góða, en þarna verður það tæplega sagt, af því að kostnaðurinn er svo mikill, sent á bændurna sjálfa fellur, þó að þeir fái þarna að vísu sína fyrirgreiðslu.

Við skulum líka líta á annan þátt í stofnlánadeildinni, en það eru skuldir hennar. Þar stendur, að erlendar skuldir 31. des. 1967 hafi verið 234 millj. 646 þús. 922.10 kr. En hvað hafa þessar skuldir hækkað nú? Ef ekki hefði verið borgað af þessum skuldum á árinu, og ég efast um, að það hafi verið meira af þeim borgað heldur en þau nýju erlendu lán, sem tekin hafa verið, sem eru um 19 millj. kr. á árinu, þá hafa þessar erlendu skuldir hækkað í 362 millj. 294 kr. og hækka því um 127 millj. kr. rúmlega við þessa síðustu gengisbreytingu. Og árgjöldin, sem á bændur falla, hafa hækkað úr 11.6 millj. kr. í 23 millj. kr. af þessum erlendu lánum, þ. e. a. s. fyrirtæki bændanna borga þetta að vísu í bili, en að sjálfsögðu er þetta rýrnun á afurðaverði til bænda, þegar það kemur endanlega til greiðslu. Þá segir enn fremur í skýrslu Búnaðarbankans á bls. 8, að rekstrarhagnaður stofnlánadeildarinnar árið 1967 hafi verið 33.9 millj. En hins vegar var tap á eldri lánum vegna gengisákvæða 54.8 millj. kr. En þar kemur á móti það, sem kemur inn vegna útlána með gengisáhættu 23.1 millj. kr., þannig að stofnlánadeildin eða varasjóður hennar hækkar aðeins um 22 millj., enda þótt hagnaður deildarinnar hafi verið 33.9 millj. En hvert skyldi svo tapið verða í sambandi við núverandi gengisbreytingu, sem tekst af varasjóði deildarinnar? Ég skal ekkert um það fullyrða, en ég hef heyrt nefnt, að það mundi verða um 80 millj. kr.

Þarna er viðreisninni og stjórnarstefnunni kannske hvað gleggst lýst, að hún grefur undan atvinnuvegunum, grefur undan stofnlánasjóðum, eyðir eignum með hverju ári, sem líður. En hvernig er það með veðdeild Búnaðarbankans? Stofnlánadeildin átti að vera þess megnug að kaupa bankavaxtabréf fyrir 10 millj. kr. árlega af veðdeild, en útkoman í öll þessi ár er hins vegar sú, að stofnlánadeildin hefur ekki getað keypt bankavaxtabréf veðdeildarinnar nema aðeins fyrir 5 millj. kr. á öllu þessu tímabili. Hins vegar bíða nú á 2. hundrað bændur eftir lánum úr veðdeildinni, og mun heildarlánsupphæð nema allt að 20 millj. kr. og miðast þetta við hámarkslán 200 þús., sem orðinn er býsna lítill peningur, þegar keyptar eru jarðir fyrir 1 og allt upp í 3 millj. kr., eins og átt hefur sér stað á undanförnum árum. Hér vantar því tvennt, hærri lánsupphæðir til hvers og eins og meira fjármagn og að tryggja fjármagn veðdeildarinnar í framtíðinni. Það hefur ekki tekizt, enda þótt það væri talið öruggt fyrir nokkrum árum síðan, að stofnlánadeildin leysti þann vanda.

Hér í hv. þd. liggur fyrir frv. um veðdeildina frá okkur framsóknarmönnum og mundi það, ef að lögum verður, bjarga miklu í þessum efnum eins og hv. 2. þm. Austf. gerði grein fyrir í ýtarlegri framsöguræðu, þegar málið kom til 1. umr. Þá vil ég á það minna við þetta tækifæri, að hlutur bænda í fjárfestingu þeirra fer ört vaxandi með hverju ári, sem liðið hefur. Árið 1958 voru framlög ríkis vegna fjárfestingar í landbúnaði um 19% og stofnlán í sama skyni 25%, þannig að annað fjármagn, eigin vinna og önnur lán nam 56.5% 1958. Hins vegar hefur þróunin orðið sú allt til ársins 1964 og ég býst við, að það hafi snúizt á sömu sveif síðan, þó að ég hafi ekki séð endanlegar tölur um það, að þá voru 18% framlög frá ríki og 18% stofnlán eða 36% samtals, en 64% eigin vinna og önnur lán, sem komu frá bændum. Hlutur bóndans er því 64% í stað 56% áður. En á þessum verðbólgutímum nemur þetta háum upphæðum hjá umbótamönnum. Opinber framlög, miðað við heildarkostnað framkvæmdanna, hafa farið minnkandi. Sama máli gegnir um stofnlánin, sem líka eru óhagstæðari en áður var. En þetta stuðlar allt að aukinni lausaskuldasöfnun samhliða því, sem verðlag búvöru hefur ekki skilað bændum þeim tekjum, sem verðgrundvöllur gerir ráð fyrir, að bændur fái. Ég vil minna á það, að árið 1967 skilaði verðlagsgrundvöllurinn bændum í meðalárstekjur ekki nema 93 435 kr. eða 105 þús. kr. minna en grundvöllurinn gerði ráð fyrir það sama ár. Þessar tölur eru samkv. úrtaki Hagstofu Íslands fyrir s. l. ár og er meðalbú samkv. því úrtaki 317 ærgildi, og lætur mjög nærri, að það hafi verið eins og meðalbústærðin, sem verðlagið var miðað við. Verðlagsúrskurðurinn haustið 1967 á eftir að verða bændum dýr eins og öllum, er til þekktu, var ljóst þegar í upphafi, og mun hann eiga sinn þátt í skuldaaukningu bændastéttarinnar, sem talin er vera að meðaltali 60–70 þús. kr. frá árinu áður eða úr kr. 266 þús. í 320 330 þús. kr. samkv. því úrtaki, sem ég gat um hér áðan.

Í verðlagsgrundvelli fyrir sama ár eru skuldir aðeins taldar vera 132100 kr. eða 93 þús. kr. lægri en þær raunverulega eru samkv. úrtaki Hagstofunnar. Það er því fjarri öllu lagi að halda því fram, að bændur fái alla vexti inn í verðlagið og það skipti þá engu máli, hverjir vextirnir eru, eins og hæstv. landbrh. hélt mjög margar og hjartnæmar ræður um fyrir nokkrum árum síðan, að vextirnir skiptu bændur enga máli, því að þeir færu inn í verðlagið og þeir yrðu af öðrum greiddir. Það er óhætt að fullyrða, að það eru alltaf um það bil 20 þús. kr. skuldavextir af meðalbúi, sem aldrei koma inn í verðlagið, auk þess, sem ekki eru reiknaðir vextir nema að litlu leyti af því kapítali, sem bóndinn á í jörð, vélum og bústofni. Hér hefur því breikkað verulega bilið frá því, sem áður var, að því er vaxtagreiðslur snertir samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða. Árferði, sérstaklega nú 3 síðustu árin, hefur valdið bændum í vissum landshlutum miklum erfiðleikum og orsakað hækkun á lausaskuldum. Það er erfitt hjá umbótamönnum, þátt ekki séu harðindi, hvað þá hinum, þegar um er að ræða heykaup og kaup á fóðurbæti í stórum stíl eins og átt hefur sér stað í vissum landshlutum nú um þriggja ára skeið.

Frv. þetta fjallar eingöngu um það að breyta lausaskuldum bænda og fyrirtækja þeirra í föst lán með hagkvæmum kjörum. Hitt er jafnljóst, að þeir bændur munu vera til, sem ekki verður bjargað með þessu frv., ef að lögum verður, því að þeir eru í það miklum fjárhagserfiðleikum, að þeim gagnar ekki neitt nema skuldaskil. Það er eins með þá og mörg útgerðarfyrirtæki, að þar verður að grynna á skuldum, til þess að rekstrarhæfur grundvöllur skapist. Við munum síðar, framsóknarmenn, flytja till. um þessi efni.

Mér er kunnugt um það, að harðærisnefnd, en í henni eiga sæti þrír fulltrúar, einn frá ríkisstj., einn frá Stéttarsambandi bænda og einn frá Búnaðarfélagi Íslands, dætur í samráði við ríkisstj. fara fram víðtæka athugun á efnahag bænda. Fyrst mun þessi athugun hafa átt að ná einungis til bænda í þeim landshlutum, sem verst eru settir vegna árferðis hin síðari ár. En síðan hefur þessu verið breytt þannig, að nú er ákveðið, að þessi athugun nái til allra bænda í landinu. Ég vona, að út úr þessari athugun komi mjög glöggt yfirlit yfir skuldamál landbúnaðarins, svo að miklu auðveldara en annars sé að taka þessi mál raunhæfum tökum.

Mér er kunnugt um það, að sá, sem vinnur aðallega þetta starf, Árni Jónasson, fyrrv. bústjóri að Skógum í Rangárvallasýslu, tekur þessi mál skipulegum og föstum tökum. En þetta er mikil vinna, sem tekur langan tíma. Ég efast ekki um, að að þessari athugun fenginni styrkist grundvöllur þess frv., sem hér er til umr. því að allt, sem ég hef um þetta mál heyrt, virðist hníga að því.

Frv. þetta felur í sér að heimila veðdeild Búnaðarbanka Íslands að gefa út nýjan flokk bankavaxtabréfa, sem nota skal til þess að breyta lausaskuldum bænda og fyrirtækja þeirra í föst lán. Lán skal veita gegn veði í bújörðum bænda, mannvirkjum, vélum og vinnslustöðvum landbúnaðarins. Vextir skulu eigi vera hærri en 6½% og lánsupphæð takmarkast við 80% af matsverði veðsins. Gert er ráð fyrir, að Seðlabanki Íslands kaupi bankavaxtabréfin á nafnverði. Þótt hér sé gert ráð fyrir því, að frv. þetta, ef að lögum verður, nái aðeins til áranna 1960 til ársloka 1967, þá reikna ég með, að árið 1968 verði látið fylgja með, þar sem það er senn á enda og ekki horfur á því, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu ári, enda þörf á að taka með í reikninginn skuldir þessa árs, þar sem þær virðast hafa aukizt talsvert frá árinu áður. Það eru, eins og ég hef þegar komið inn á, margar samverkandi orsakir, sem valda lausaskuldaaukningunni, sem nemur nú samkv. síðustu upplýsingum í sumar 320–330 þús. kr. á meðalbóndann og hafa því aukizt á einu ári um 60–70 þús. kr. Þetta kemur illa við og ekki sízt hjá þeim, sem eru að hefja ævistarfið og fá hvergi hagstæð lán til bústofnskaupa. Það eru mjög misjafnlega miklar skuldir, sem hvíla á bændum og eru skuldirnar að verða þeim óbærilegar, sem mest skulda og vilja vera skilamenn. Verðlagsúrskurðurinn haustið 1967 var bændum afar óhagstæður, enda komið í ljós, að af 198 þús. kr., sem bændur áttu að fá í laun það ár, fengu þeir aðeins 93 þús. og eru nú sem fyrr langtekjulægsta stétt þjóðarinnar. Heildarskuldir bænda eru hátt á 2. milljarð kr., og eru þá ótaldar skuldir fyrirtækja þeirra, sem eru mjög háar. Síðustu viðreisnaraðgerðir í efnahagsmálum boða ekki góða hluti. Þar blasir við mikil hækkun á öllum rekstrarvörum landbúnaðarins, gengisbreytingin í fyrra var mjög óhagstæð bændum. Svo mun og verða um þessa gífurlegu gengisbreytingu. Það verður ekki lengi hægt að stjórna landinu með gengisbreytingum, erlendum lántökum og skattahækkunum, eins og gert hefur verið í tíð viðreisnarinnar. Hér þarf að söðla um.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir frv. þessu og þeim ástæðum, sem ég tel, að knýi á um, að það verði lögfest. Bændastéttin er stórhuga nú sem fyrr og trúir á landið. Hún hefur sýnt það í verki, að hún er þess verðug, að hennar málefnum sé vel tekið. Ég vænti því þess, að frv. þetta mæti skilningi hv. alþm. Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins eru hátt á 3. milljarð kr. Þau skaga því hátt upp í verðmæti þau, sem sjávaraflinn gefur, þegar hann berst á land. Landbúnaðurinn sparar marga milljarða í gjaldeyri fyrir þjóðina og landbúnaðurinn hefur líka lengst af fætt og klætt íslenzku þjóðina og bezt hefur henni farnazt, þegar svo hefur á málum hennar verið haldið, að innlend verðmæti eru tekin fram yfir þau erlendu. Á þann hátt hefur skapazt auður í stað eymdar. Möguleikar í landbúnaði eru miklir. Gróðurmoldin og sjóðandi hverir búa enn þá yfir miklum, ónotuðum verðmætum, sem þörf er á að beizla. Engum er þetta ljósara en bændastéttinni sjálfri. Unga kynslóðin, sem er á fjölmörgum sviðum betur undir ævistarfið búin en sú kynslóð, sem nú er að hverfa af sjónarsviðinu, bíður spennt eftir viðfangsefnum. Við eigum að búa þannig í haginn fyrir þessa kynslóð, að hún uni hag sínum bezt við það, sem íslenzkt er og líklegast er til bjargar þjóðinni í framtíðinni.

Þetta frv. er einn þáttur af mörgum til þess að setja nýtt líf í einn aðalatvinnuveg þjóðarinnar og búa betur í haginn fyrir þá, sem við taka og erfa landið.

Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til. að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.