25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í C-deild Alþingistíðinda. (2859)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. 5. landsk. verður að afsaka mig, að ég hef nú ekki lært hagskýrslurnar svo utan að, að ég geti svarað fsp. í upphafi ræðu hans, enda sé ég nú sannast sagt ekki, hvað hann er að fara með henni. En eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, þá finnst mér þetta mál liggja ákaflega ljóst fyrir. Hv. 5. landsk. nefndi ýmsa staði hér við flóann og veiðar þaðan, og meðal þeirra staða var einn staður, þar sem hann sagði, að enginn bátur stundaði dragnót, og það er Garðurinn. Þetta litla svæði, þetta sveitarfélag þarna vestarlega á Reykjanesinu, hefur áreiðanlega gefið íslenzku þjóðinni fleiri fengsæla fiskimenn heldur en nokkurt annað álíka stórt svæði á þessu landi, eða álíka fjölmennt svæði. Mér væri því raunar óhætt að standa við mismælið og segja álíka „stórt svæði“, því að jafnvel þó að aðeins væri tekið tillit til flatarmáls, en ekki mannfjölda, þá hafa þeir lagt þjóðarbúinu fleiri víkinga í sjósókn heldur en nokkurt annað svæði á Íslandi í dag. En þarna eru menn svo einhuga á móti þessu veiðarfæri, að þeir líta ekki einu sinni við því sjálfir, og það er einmitt þaðan, úr því samfélagi, sem þessi aflakóngur kom, sem ég nefndi meðal flm. í fyrri ræðu minni, svo að hv. d. þarf ekki að skammast sín neitt fyrir sálufélagið, þó að hún fylgi þessum mönnum og þeirra skoðun á nytsemi dragnótarinnar. Hv. 5. landsk. nefndi til samanburðar togveiðar, en hefur hann ekki einmitt sjálfur átt þátt í samningu þessa frv., sem var verið að útbýta í dag og sem ég nefndi fyrr og sem einmitt bannar togveiðar á öllu því svæði Faxaflóa, sem getur komið til greina fyrir dragnótaveiðar? Að vísu fer það ekki fram hjá mér, að gert er ráð fyrir, að á vissum árstímum sé nokkur ferhyrningur úti á miðjum flóanum, sem leyfður sé togveiðiskipum innan vissrar stærðar, en þar er miklu meira dýpi en svo og hagar til á þann hátt, að mér er tjáð, að þar komi dragnót alls ekki til greina. Við eigum því að vera sjálfum okkur samkvæmir að banna bæði dragnótina og botnvörpuna á þessu mikilsverða svæði. Komumst við að þeirri niðurstöðu, sagði hv. þm., að rétt sé að banna dragnótina, eigum við að gera það. Þetta er akkúrat sú niðurstaða, sem við höfum komizt að, meiri hl. n., og það er þess vegna, sem við með góðri samvizku berum fram þá till., sem fram er borin í nál. okkar. Það þýðir ekki alltaf að bíða og hika með alla hluti. Við verðum að varðveita fiskstofninn, ef við ætlum að lifa í þessu landi, og það er of seint að skipta um skoðun á nytsemi dragnótarinnar, þegar hver fiskur er dauður. Þegar enginn fiskur er lengur á þessum miðum, þá þýðir ekkert að fara að breyta um skoðun. Það verður að gera Það meðan þó er von um, að einhverju verði við bjargað, og það er það, sem við erum að reyna að gera.