11.02.1969
Efri deild: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

130. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Árið 1938, eða fyrir röskum 3 áratugum voru sett lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Á sínum tíma ríkti mikill ágreiningur á milli manna um setningu þessarar löggjafar, en þær deilur hjöðnuðu fljótt, því almenningur áttaði sig á því, að þjóðfélaginu bar nauðsyn til að skipa svo þýðingarmiklu máli með löggjöf. Veigamestu þættir laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, sem almennt ganga undir nafninu vinnulöggjöf, fjalla um eftirfarandi atriði : 1) rétt manna til að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd; 2) rétt stéttarfélaga og vinnuveitenda til að stofna til verkfalla og verkbanna í því skyni að vinna að framgangi krafna sinna; 3) fyrirmæli um það, hvernig taka skuli ákvarðanir um vinnustöðvanir, svo lögmætt sé, og með hvað löngum fyrirvara slíkar ákvarðanir skuli boðaðar; 4) sáttameðferð; 5) skipan sérstaks dómstóls félagsdóms, til að dæma um ágreining um skilning á kjarasamningi og til að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnulöggjöfinni.

Þegar litið er til baka, verður ekki annað sagt en að vinnulöggjöfin hafi í heild gefið góða raun og markað heillarík spor í samskiptum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Hitt þarf engan að undra, þótt höfundar þessarar löggjafar, sem var frumsmíði, gætu ekki í öllum greinum séð fyrir þróun þessara mála langt fram í tímann, og sjálfsagt hefur þeim verið ljóst, að koma kynni að því, að þessa lagasetningu þyrfti að endurbæta í ljósi reynslunnar og breyttra þjóðfélagshátta. Lög um stéttarfélög og vinnudeilur hafa staðið óbreytt að heita má í 3 áratugi. Á l. hafa aðeins verið gerðar minni háttar breytingar, varðandi skipan og verkefni félagsdóms. Oft hafa verið uppi raddir um að endurskoða þessa löggjöf, en lítið orðið úr framkvæmdum. Vinstri stjórnin, sem sat að völdum á árunum 1956–1958, skipaði n. í málið, en hún hafði ekki lokið störfum, þegar stjórnin fór frá, og varð ekki meira úr þeirri athugun.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að ekki sé rétt að breyta vinnulöggjöfinni, nema um það takist samkomulag með verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum. Þessa skoðun fellst ég ekki á. Að vísu væri þessi leið æskileg, en ég hef bara enga trú á því, að slíkt samkomulag takist nokkurn tíma, og ekki er hægt að bíða endalaust með nauðsynlegar breyt. eftir samkomulagi milli þessara aðila. Einnig má á það benda, að vinnulöggjöfin var á sínum tíma ekki sett með samkomulagi verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda. Þvert á móti höfðu báðir þessir aðilar ýmislegt við hana að athuga, en hún hefur samt sem áður sannað gildi sitt. Hér kemur líka fleira til, vinnudeilur eru ekki einkamál verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. Þær snerta hagsmuni þjóðarheildarinnar allrar. Ein vinnudeila getur skaðað hagsmuni þúsunda manna, sem ekki eru aðilar að henni. Vaxandi sérhæfing í þjóðfélaginu hefur aukið á vandann í þessum efnum. T. d. gæti eitt hundrað manna hópur, sem fer í verkfall, auðveldlega skapað atvinnuleysi hjá eitt þús. manns eftir skamman tíma. Hér er því um vandarmál að tefla, sem þjóðfélagið getur ekki vísað frá sér og látið aðila vinnumarkaðarins eina um að leysa. Mér virðist sem ýmis ákvæði vinnulöggjafarinnar megi óhögguð standa um langa framtíð, en þar eru líka önnur ákvæði, sem æskilegt er að breyta án tafar. Þar á ég fyrst og fremst við ákvæði um sáttameðferð og valdsvið sáttasemjara. Þar er veikur hlekkur í vinnulöggjöfinni, sem þarf að treysta.

Frv. það, sem ég flyt hér af þskj. 242 til breyt. á l. um stéttarfélög og vinnudeilur, fjallar nær einvörðungu um þetta efni. Ég valdi þann kost að bera ekki fram brtt. við önnur ákvæði vinnulöggjafarinnar en þau, sem á einn eða annan hátt varða starf sáttasemjara og valdsvið hans. Þetta geri ég af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að á þessu sviði tel ég brýnustu þörf úrbóta og í öðru lagi af því, að ég vonast til, að breyt. á þessum ákvæðum sé unnt að fá fram án mikilla deilna eða ágreinings. Hins vegar hef ég ekki tekið inn í þetta frv. brtt., sem stundum hafa verið orðaðar, á þá lund að fyrirskipa verkalýðsfélögunum og vinnuveitendunum að taka ákvörðun um vinnustöðvun einungis með allsherjaratkvæðagreiðslu og að banna mönnum að leggja niður vinnu við varðveizlu verðmæta, sem til eru orðin áður en vinnustöðvun hefst. Þessi atriði eru mjög viðkvæm og líkleg til að valda miklum ágreiningi, og þess vegna hef ég sleppt þeim hér.

Vinnudeilur má greina sundur í 6 stig eftir tímaröð. 1. stig: uppsögn kjarasamninga. 2. stig: kröfugerð. 3. stig: upphaf samningsumleitana. 4. stig: boðun vinnustöðvunar. 5. stig: framkvæmd vinnustöðvunarinnar. 6. stig: samningsgerð. Í þessa upptalningu vantar upphaf sáttameðferðar, vegna þess að mjög er undir hælinn lagt samkvæmt gildandi l. um stéttarfélög og vinnudeilur, hvenær sáttameðferðin hefst. Samkvæmt lögunum hvílir engin skylda á deiluaðilum í því efni að vísa deilunni á einhverju tilteknu stigi til meðferðar sáttasemjara. Hefur það iðulega átt sér stað, að vinnudeilu hefur ekki verið vísað til sáttasemjara fyrr en 2–3 dögum áður en vinnustöðvun á að hefjast, og stundum hefur það jafnvel komið fyrir, að sáttasemjari hefur ekki verið til kvaddur fyrr en eftir að vinnustöðvun var skollin á. Þessu verður vissulega að breyta. Að vísu er sáttasemjara heimilt, samkv. 26. gr. l. um stéttarfélög og vinnudeilur, að taka að sér stjórn samningsumleitana og kalla aðila fyrir sig, þótt deilu hafi ekki formlega verið vísað til hans, en reynslan hefur sýnt, að á grundvelli þessarar reglu fer sjaldan fram nokkur sáttameðferð, því að sáttasemjarar telja ekki heppilegt að grípa inn í deilu nema annar hvor deiluaðila eða þeir báðir beinlínis óski þess, að sáttasemjari taki málið í sínar hendur. Sú regla 26. gr. l., að tilkynna beri sáttasemjara vinnudeilu, þegar hálfur uppsagnarfrestur er liðinn án þess að samningar hafi tekizt, hefur einnig lítið raunhæft gildi. Þetta stafar af því, að á síðustu 20 árum hefur það orðið mjög algengt, að verkalýðsfélögin hafa samninga sína lausa, sem kallað er, til þess að vera viðbúin kjarabaráttu með örstuttum fyrirvara. Félögin segja upp kjarasamningum sínum með tilskildum fyrirvara, en síðan er oft á tíðum unnið eftir þessum samningum mánuðum eða misserum saman, eftir að uppsögn gekk í gildi, án þess að meira sé aðhafzt. Svo sem þessi mál ganga fyrir sig í okkar þjóðfélagi, má segja, að vinnudeila hefjist ekki að jafnaði af nokkurri alvöru fyrr en vinnustöðvun er boðuð. Málum er nú svo komið, að eigi reynist unnt að leysa meiri háttar vinnudeilu í landinu nema að undangengnum 10–20 sáttafundum. Venjulega eru 1 eða 2 af þessum sáttafundum haldnir áður en vinnustöðvun hefst, en hinir allir eftir að vinnustöðvun er orðin að veruleika. Hér þarf breyt. að verða á. Sáttasemjari verður að flá meira tóm til starfa, áður en gripið er til þess neyðarúrræðis að stöðva vinnu og framleiðslu. Hann þarf meira vald á bak við sig, sterkari tök á deilunni, svo að hann geti skapað þrýsting á hendur deiluaðilum, er leiði til samkomulags, áður en í óefni er komið.

Að þessu er stefnt með því frv., sem ég hef borið fram á þskj. 242. Í 1. gr. frv. er kveðið svo á, að boðunarfrestur vinnustöðvunar skuli lengdur úr 7 sólahringum í 20 sólarhringa. Þetta tel ég nauðsynlega forsendu þess, að sáttasemjari fái viðunandi lágmarkstíma til að glíma við deiluefnið, áður en vinnustöðvun kemur til framkvæmda, en þessi regla myndi einnig gefa aðilum meira svigrúm og meira aðhald til viðræðna, áður en sjálft sáttastarfið hefst. Í 2. gr. frv. felast tvær meginbreytingar, annars vegar ákvæði, sem skyldar sáttasemjara til að taka vinnudeilu til meðferðar í síðasta lagi 10 sólarhringum áður en vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda, enda þótt aðilar hafi þá ekki vísað deilunni til hans. Hins vegar heimild til handa sáttasemjara til að fresta því í allt að 4 sólarhringa, að vinnustöðvun hefjist, ef hann hefur í hyggju að bera fram miðlunartill. eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi að hans dómi. Þessi heimild gæti komið að góðum notum, ef málum hefði þokað verulega í samkomulagsátt, en 10 sólarhringa fresturinn reynzt of skammur. 3. gr. frv. er nýmæli, en hún felur í sér heimild til handa sáttasemjara til að krefja Efnahagsstofnunina, Hagstofuna og aðrar opinberar stofnanir skýrslna um ýmiss konar málefni. Slík gagnasöfnun getur stundum átt drjúgan þátt í því að leysa vinnudeilur. Með 4. gr. frv. eru gerðar nokkrar breyt. á reglunum um þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögur. Gildandi reglur eru í 3. málsgr. 32. gr. l. um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segir: Miðlunartill. telst felld, ef minnst 50% af greiddum atkvæðum eru á móti henni, enda hafi minnst 35% atkvæðisbærra manna greitt atkvæði. Á móti hverjum 1 af 100, sem tala greiddra atkvæða lækkar niður fyrir 35%, þarf mótatkvæðafjöldinn að hækka um 1 af 100 til að fella tillöguna. Ef ekki hafa a. m. k. 20% atkvæðisbærra manna greitt atkvæði, telst till. samþ. Í þessum reglum felst það, að aukinn meiri hluta þarf til að fella sáttatillögu, ef þátttaka er lítil í atkvæðagreiðslunni. Ef t. d. þátttakan er 30%, þarf meiri hlutinn að nema 55% af greiddum atkvæðum, sé þátttaka aðeins 22%, þarf meiri hlutinn að nema 65% af greiddum mótatkvæðum til að till. sé felld.

Með frv. er lagt til að gera þessar reglur einfaldari og á þann hátt að falla frá forskriftinni um síaukinn meiri hluta eftir því sem þátttakan minnkar, en setja það skilyrði í staðinn, að minnst 20% atkvæðisbærra manna greiði atkvæði á móti miðlunartill., til þess að hún sé fallin. Að sjálfsögðu þarf því frumskilyrði einnig að vera fullnægt, til að tillagan sé fallin, að minnst 50% greiddra atkvæða séu á móti henni. Þessa breyt. er rétt að skýra með dæmi. Við skulum hugsa okkur stéttarfélag með 1100 meðlimi. Af þeim eru 100 veikir eða fjarverandi og sannanlega útilokaðir frá að neyta atkvæðisréttar síns. Þá eru taldir 1000 atkvæðisbærir menn í félaginu, miðlunartillaga er borin fram, 300 manns greiða atkv., 120 með, 180 á móti. Samkvæmt gildandi lögum er till. felld, því að þátttakan er 30% og mótatkvæði meira en 55% af greiddum atkvæðum. Samkvæmt frv. er till. samþ., því að mótatkvæðafjöldinn nær ekki 200, og þar með hafa færri en 20% atkvæðisbærra manna greitt atkvæði á móti till. Þessi breyt. á að verka sem mótvægi gegn afskiptaleysinu. Hún á að örva menn til þátttöku í slíkum atkvæðagreiðslum, þannig að fram komi sem skýrastur vilji stéttarfélagsins og atvinnurekendafélagsins, sem í hlut eiga. Sú lágmarkskrafa getur ekki talizt ströng, að einfaldur meiri hluti nægi ekki til að fella sáttatillögu, ef sá meiri hluti er fámennari en svo, að 5. hver félagsmaður teljist til hans. Þýðingarmestu áhrif þessarar breytingar tel ég þó vera, að staða sáttasemjara styrkist.

Í síðustu grein frv., 5. gr., segir, að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1970. Með því legg ég áherzlu á, að hér sé einvörðungu um framtíðarskipan þessara mála að ræða, en ekki tilraun til þess að hafa áhrif á gang þeirra vinnudeilna, sem framundan kunna að vera á næstu vikum og mánuðum.

Það hlýtur að vera ríkt hagsmunamál allra, launþega, vinnuveitenda og þjóðarinnar í heild, að samkomulag í deilum um kaup og kjör verði reynt til þrautar, áður en til þess kemur, að réttinum til vinnustöðvunar sé beitt, með því margháttaða tjóni, sem af vinnustöðvunum leiðir, svo sem atvinnu- og tekjumissi, gjaldeyristapi, spillingu verðmæta og viðskiptalegum áföllum. Það verður að efla vinnufriðinn í landinu, án þess að hrófla við grundvallarréttindum verkalýðsfélaga og vinnuveitenda til frjálsra samninga og vinnustöðvana. Með það í huga er frv. þetta fram borið.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.