19.12.1968
Neðri deild: 38. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

8. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft frv. þetta til athugunar. Eins og fram kemur á þskj. 202, mælir n. með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. N. kvaddi á sinn fund þá Hermann Jónsson, fulltrúa tollstjóra og Björn Hermannsson, deildarstjóra í fjmrn., en þeir sitja báðir í þeirri n., sem fjallar um tollskrána og endurskoðun á henni.

Eins og fram kemur í grg. með þessu frv., er hér aðeins um að ræða samræmingu á tollskránni miðað við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á Brüssel-tollskránni, en íslenzka tollskráin var samin eftir henni og samþ. hér á Alþ. Þær breytingar, sem hér er lagt til að gera, koma fram í grg. á bls. 14 í b-lið og eru aðeins 4 og mjög smávægilegar, en það er einnig gert ráð fyrir því í frv., að ef þessar breytingar hafa í för með sér einhver vandkvæði, sem fram kunna að koma, þá er heimild í frv. til þess að lækka aftur þá tolla, sem hér er gert ráð fyrir að hækka, en hækkanirnar, eins og ég gat um áðan, eru mjög smávægilegar.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. Það er þess eðlis, nánast tekniskt, en eins og fram kemur í nál., mælir n. með því, að það verði samþ. óbreytt.