18.04.1969
Sameinað þing: 41. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3107)

204. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Með till. þeirri til þál., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 427, er stefnt að því, að Alþ. álykti að fela landbrh. að láta endurskoða lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, svo og önnur þau lög og lagafyrirmæli, er varða ríkisframlög til ræktunar, bygginga og byggðaþróunar í sveitum landsins, og taka til athugunar jafnframt, hvort eigi sé ástæða til að samræma þau og fella inn í stofnlánadeildarlögin.

Lögin um Stofnlánadeild Íandbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum eru, sem kunnugt er, frá 1962 og lítillega breytt síðan. Meginbreytingin við gildistöku laganna 1962 frá því, sem áður hafði verið, var, að Stofnlánadeild landbúnaðarins var fengið í hendur hlutverk ræktunarsjóðs og byggingasjóðs sveitabæja. Það hlutverk var aukið og deildinni var gert kleift að byggja sig upp fjárhagslega. Í þáltill. er tekið fram, að ekki sé lagt til að hreyfa við þeim hluta laganna, er fjalla um þessi efni, þ.e.a.s. II. kafla stofnlánadeildarlaga. Aðrir þættir þessara laga, þ.e.a.s. þeir, er snerta landnám, ræktun og byggingar í sveitum, eru að meginefni mikið eldri. Fyrst munu hafa verið sett lög um Landnám ríkisins 1941, en áður, eða 1928, höfðu verið sett lög, er sinntu skyldum verkefnum, þ.e. lög um bygginga– og landnámssjóð. Enda þótt lagaákvæðin um Landnám ríkisins hafi verið endurskoðuð á tiltölulega fárra ára fresti, er andi þeirra og tilgangur í aðalatriðum hinn sami enn í dag og í upphafi, þ.e. að hamla gegn því, að jarðir fari í eyði, endurbygging eyðijarða og stofnun nýbýla. Hin síðustu ár hefur þó starfsemi landnámsins beinzt í vaxandi mæli að aukinni aðstoð við hin smærri býli, enda þótt þar hafi ekki verið um raunverulegt landnám að ræða. Þó að landnámið hafi enn veigamiklu hlutverki að gegna á þessum sviðum, tel ég, að tímabært sé að endurskoða ýmis þau ákvæði laganna, er þetta varða, með tilliti til breyttra búskaparhátta og þeirrar þróunar, sem ætla má, að verði í framtíðinni.

Öllum eru kunnar hinar stórfelldu framkvæmdir og framfarir í sveitum landsins á undanförnum árum. Ræktunin hefur stóraukizt, nýræktarframkvæmdir munu hafa verið um 5–6 þús. hektarar á ári hin síðustu ár og vegna hinna stórkostlegu byggingarframkvæmda eru nú bæði íbúðarhús og útihús í sveitum öll önnur, en áður var, hvað gerð og hagkvæmni snertir. Þá er og þess að minnast, að bændur hafa tekið tæknina í sína þjónustu. Þessi nýi tæknibúnaður gerir þeim kleift að nýta mun stærra ræktunarland en áður var, jafnframt því sem hann nálega krefst stærra ræktunarlands, en áður tíðkaðist. Það, sem segir því fyrst og fremst til um framtíðarmöguleika hverrar jarðar og er um leið meðal mestu verðmæta hvers býlis, er stórt og gott ræktunarhæft land. Þess vegna teldi ég nauðsynlegt, ef þáltill. þessi verður samþ., að krefjast stærra ræktunarhæfs lands við stofnun nýbýla, en nú er gert í lögum, en nú er, sem kunnugt er, gert ráð fyrir 25 hekturum. Þó gæti komið til mála að veita undanþágu frá slíku ákvæði í einstaka tilfelli, þar sem sérstakar ástæður mæltu með því. Þá er í lögunum ákvæði um aðstoð til þeirra smábýla í sveitum, sem hafa aðalatvinnu af öðru en landbúnaði og þar þarf ekki nema 6 hektara ræktunarhæfs lands. Ég tel athugandi, hvort ekki sé full ástæða til að fella þetta ákvæði niður.

Í grg. fyrir þáltill. er vikið að því, að lög hafa á síðari árum virzt ýta um of undir skiptingu á jörðum vegna mishárra ræktunarframlaga eftir stærð ræktunarlands. Landnámið hefur á undanförnum árum greitt aukaframlag til ræktunar á þeim býlum, sem hafa lítil tún. Í fyrstu var það bundið við 10 hektara túnstærð, en nú hin síðustu ár hefur markið verið hækkað í áföngum og er nú 25 hektarar. Reyndin hefur orðið sú, að þegar 25 hektara markinu hefur verið náð, hefur gætt mikillar tilhneigingar til þess hjá bændum að skipta jörðinni t.d. milli feðga, svo að við áframhaldandi ræktun verði enn notið aukaframlagsins. Slík skipting jarða getur í vissum tilfellum átt rétt á sér, einna helzt í góðsveitum, þar sem landrými er nóg. En allt of mörg dæmi eru þess, að sú ráðstöfun hefur reynzt til óþurftar og er hætt við, að þess gæti meira í framtíðinni en hingað til. Það er að mínu viti einkar óheppilegt að ýta undir þá þróun með löggjöf, enda mun ekki hafa verið til þess ætlazt, að svo væri. Við endurskoðun laganna er því nauðsynlegt að taka til athugunar, hvort ekki sé réttmætt og um leið fært að afnema hámarkið, sem bindur aukaframlagið við 25 hektara, eða a.m.k. færa það stórum ofar, en ella að jafna jarðræktarframlaginu niður, svo að ekki væri lengur um mismun að ræða eftir stærð ræktunarlanda. Sums staðar hefur jörðum verið skipt til þess að auðvelda ættliðaskiptingu í búskap og væri í mörgum tilvikum heppilegra, að yfir þau tímaskeið yrði að komast með félagsrekstri í einhverju formi.

Lögunum um stofnlánadeild o.fl. og þá ekki sízt þeim köflum þeirra, sem fjalla um Landnám ríkisins og starfsemi þess, er ætlað að hafa áhrif á viðhald og þróun byggðar í sveitum landsins, jafnhliða því, sem þau hafa átt sinn gilda þátt í að stuðla að hinum stórfelldu framkvæmdum bænda undanfarin ár. Við blasir, að á þessum sviðum hefur mjög mikill og heillaríkur árangur náðst. Eigi að síður hefur nokkuð af jörðum farið í eyði á undanförnum árum. Hefur þess mest gætt í afskekktum byggðum og svo aftur í nábýli við kauptún og kaupstaði, en þó óvíða meira, en hér í nágrenni Reykjavíkur. Hér er um tímanna tákn að ræða, sem síður en svo, er einsdæmi fyrir okkar land. Búrekstur á mjög afskekktum jörðum og jörðum, sem hafa mjög þrönga landkosti og svo stundum á þeim, sem liggja næst þéttbýlinu, stenzt illa samkeppni, þegar velmegun vex í þjóðfélaginu. Naumast þýðir að loka augunum fyrir því, að þessi þróun heldur eitthvað áfram. Enn eru nokkur býli í byggð, sem tæpast hafa framtíðarskilyrði til búrekstrar. Þær jarðir hafa, eins og ég nefndi áðan, ýmist mjög lítil ræktunarlönd, liggja sérlega afskekkt eða verða beint að víkja fyrir þéttbýlinu. Verði af þeirri endurskoðun laganna, sem hér er stefnt að, sýnist vera ástæða til að taka meira tillit til þessara staðreynda, en nú er gert og standa þá þeim mun fastar gegn niðurníðslu og auðn góðjarða um leið og stefnt er að alhliða uppbyggingu í sveitum landsins.

Í grg. er lítillega vikið að lögunum um Jarðeignasjóð ríkisins frá 1967, en hann hefur það hlutverk að hjálpa bændum til að losna við afskekktar og lítt byggilegar jarðir. Hér skal ekkert um það sagt, hvort heppilegra sé, að jarðeignasjóður sé undir yfirstjórn jarðeignadeildar landbrn. eða hann sé í tengslum við stofnlánadeild og Landnám ríkisins. En verði af endurskoðun laga um landnám og þar mörkuð skýrari ákvæði um þróun byggðar í sveitum, er eðlilegt að líta jafnframt yfir lögin um jarðeignasjóð, svo að þar rekist ekkert á, enda er ýmislegt í framkvæmd þeirra laga, sem byggjast skal á mati eða umsögn landnámsins.

Auðvitað fylgir þessari endurskoðun, ef af verður, að nauðsynlegt er að taka til athugunar fjárþörf landnámsins um Íeið og gera verður grein fyrir, hvernig fénu skuli verja. Þar þarf hvort tveggja í senn að taka tillit til þeirra verðbreytinga, sem orðið hafa og þess hlutverks, sem landnáminu verður ætlað á komandi árum. Í því sambandi er rétt að minna á frv. hv. 1. þm. Norðurl. e. á þskj. 286 um hækkun byggingarstyrks til íbúðarhúsa í sveitum. Að sjálfsögðu fellur það atriði inn í þá endurskoðun, sem hér er stefnt að og þó svo kunni að fara, að það frv. nái ekki afgreiðslu á þessu þingi vegna þess, hve liðið er á þingtímann, þá væri auðvelt að láta slík smærri atriði verka aftur fyrir sig, ef komizt verður að þeirri niðurstöðu við endurskoðun laganna, að það sé rétt, sem ég ætla, að sé eðlilegt að nokkru. Till. um breytingar á slíkum einstökum atriðum laganna krefja hins vegar fram fremur en ella, að gerð sé sú heildarendurskoðun á l., sem hér er stefnt að.

Tilgangurinn með ríkisframlögum til jarðræktar er, eins og ljóst má vera, að efla ræktunarframkvæmdir, stuðla að aukinni fóðurframleiðslu og um leið nægri fóðurframleiðslu fyrir búsmala landsmanna, að bæta landið og auka hagsæld í sveitum landsins og þar með þjóðarinnar í heild. Nú kynnu einhverjir að ætla, að doka mætti við í þessum efnum. Því fer þó víðs fjarri. Þrátt fyrir hinar stórfelldu ræktunarframkvæmdir á síðustu árum, eru enn fáar framkvæmdir brýnni fyrir landbúnaðinn en þær, sem leiða til aukinnar fóðurframleiðslu. Enn er það svo í heilum byggðarlögum og jafnvel heilum landshlutum, að heyskortur er yfirvofandi, ef verulega bregður út af með veðurfar og má jafnvel segja, að hvað eftir annað hafi undanfarna vetur brugðið til hins betra, eins og eftir pöntun á hrossasvæðunum norðanlands, þegar allt hefur verið að komast í vandræði vegna hagleysis. Vegna ónógra heyja undanfarin kuldaár hafa bændur neyðzt til mjög aukinnar kjarnfóðursnotkunar, svo að fóðurvörur hafa verið fluttar inn fyrir hundruð millj. árlega. Það er mjög stórt þjóðfélagslegt atriði, að takist að draga mjög úr hinum mikla fóðurvöruinnflutningi með aukinni fóðuröflun og bættri fóðurnýtingu innanlands. Til þess að svo megi verða, þarf að leita allra þeirra ráða, sem hagkvæm reynast. Meðal þeirra leiða, sem eru athygli verðar í því sambandi, er t.d. ræktun í stórum stíl, ýmist sem félagsræktun eða til heykögglagerðar, eins og vikið var að í þáltill. þeirri, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. mælti fyrir hér áðan. Við þess háttar verkefni er Landnám ríkisins eðlilegur framkvæmdaaðili, en aftur á móti hljóta tilraunir í því skyni að lúta yfirstjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Framleiðsla kolvetna auðugs fóðurs í formi heyköggla virðist gefa góðar vonir, eins og nú standa sakir og það er stórmerkilegt hagsmunamál bændastéttarinnar og þjóðarheildarinnar, ef með heykögglaframleiðslu á samkeppnishæfu verði mætti takast að vinna í landinu sjálfu fóðurvöru, sem leysti af hólmi meginhlutann af því kjarnfóðri, sem ella þarf að flytja inn fyrir ærinn gjaldeyri, en á síðasta ári voru fluttar inn fóðurvörur fyrir 304 millj. kr.

En það þarf jafnframt að hafa augun opin á fleiri sviðum. Taka þarf til gaumgæfilegrar athugunar, hvort eigi sé unnt með hagkvæmum hætti að nýta til fóðurs úrgang frá sláturhúsum og hið mikla magn af verðlítilli feiti, sem til fellur í landinu. Sú athugun fellur að vísu ekki undir þau lög, sem hér er lagt til að endurskoða, heldur undir rannsóknastofnun landbúnaðarins. Um leið og stuðlað er að auknu öryggi í fóðuröflun með ríkisframlögum og öðrum hætti, virðist mér eðlilegt, að framfylgt verði betur, en hingað til, lögum um fóðurbirgðir og forðagæzlu, svo að ekki verði um of fallið í þá gryfju að stækka búin jafnmikið eða meira hverju sinni, er fóðuröflun eykst.

Svo sem kunnugt er, eru ríkisframlög til ræktunar og byggingaframkvæmda í sveitum innt af hendi af tveimur aðilum, Búnaðarfélagi Íslands eftir jarðræktarlögum og Landnámi ríkisins eftir lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Í till. minni er að þessu vikið og farið fram á, að þessi skipan verði tekin til athugunar. Eðlilegra sýnist, að meðferð þessara mála sé öll hjá einni stofnun. Útdeiling þessa fjár yrði á þann veg væntanlega bæði einfaldari og hagkvæmari í framkvæmd. Eins og nú er, þarf að halda spjaldskrá yfir alla bændur í báðum stofnununum og færa inn á þær árlega jarðabætur hvers bónda. Þess utan er ósennilegt annað, en takast mætti að lækka skrifstofukostnað með því að færa þessa starfsemi á einn stað.

Um það má sjálfsagt deila, hvort eðlilegra sé að fela Búnaðarfélagi Íslands eða Landnámi ríkisins framkvæmd laga um þessi ríkisframlög, væru þau öll færð undir eina stofnun. Í því sambandi sýnist mér eðlilegt að gera sér grein fyrir þeirri skiptingu, sem verið hefur á þessum áratug að þróast í landbúnaðarlöggjöfinni, sem ölt heyrir að sjálfsögðu undir landbrn. Má í því sambandi t.d. minna á, að tilraunastarfsemin og allar vísindalegar rannsóknir á sviði landbúnaðar lúta nú yfirstjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Verkefni á sviði landgræðslu og gróðurverndar er fjallað um eftir sérstökum lögum um það efni. Framkvæmdalán til landbúnaðar og verksvið Landnáms ríkisins er, eins og fyrr er að vikið, fært undir lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. frá 1962. Mér virðist, að þessi skipan yrði markvissari, ef annar kafli jarðræktar og húsabóta í sveitum, — væri færður undir stofnlánadeildarl. og landnáminu fengin framkvæmd þeirra mála, sem þar er fjallað um. Væntanlega þyrfti að breyta nokkrum fleiri ákvæðum jarðræktarl., ef að þessu væri horfið. Búnaðarfélag Íslands hefði þá svo sem hingað til undir sinni stjórn hina félagslegu uppbyggingu á sviði landbúnaðar, búfjárræktarl., Vélasjóð ríkisins og ýmis ákvæði jarðræktarl. og svo sem höfuðviðfangsefni leiðbeiningaþjónustuna. Leiðbeiningaþjónustan hefur lengi verið þýðingarmesta verkefni Búnaðarfélagsins og er þörf á því að efla hana, ekki sízt á sviði beinnar búnaðarhagræði eða hagkvæmni í búskap. Og þó að leiðbeiningaþjónustan hafi á síðari árum færzt meira út um landið með héraðsráðunautunum, sem er til mikilla bóta, lýtur hún þó öll yfirstjórn Búnaðarfélagsins og er eðlilegt, að svo verði áfram.

Til stuðnings því, að framlög til jarðræktar og húsagerðar í sveitum væru færð undir stofnlánadeildarl., má enn nefna, að Stofnlánadeild landbúnaðarins þarf iðulega að leita umsagnar landnámsins vegna lánsumsókna, sem henni berast, jafnframt því, sem oft þarf að fá vottorð frá Búnaðarfélagi Íslands um ræktunarframkvæmdir einstakra bænda. Það má því ætla, að töluvert hagræði væri í því, að framkvæmd mála, er varðar hvort tveggja, lánveitingar og ríkisframlög til bygginga, ræktunar og tæknibúnaðar í sveitum, væri í jafnnánum tengslum hvort við annað, eins og nú er um Stofnlánadeild landbúnaðarins og Landnám ríkisins innan vébanda Búnaðarbanka Íslands og agafyrirmæli þar að lútandi væri öll að finna innan stofnlánadeildarlaganna.

Ég sé hvorki ástæðu til þess, herra forseti, að draga fram fleiri ástæður fyrir því, að þessi þáltill. er flutt né fleiri rök henni til stuðnings. Verði hún samþ. leyfi ég mér að láta þá von í ljós, að við endurskoðun laganna takist að marka með þeim skýrari framtíðarstefnu á sviði uppbyggingar og byggðaþróunar í sveitum landsins og samræma þau nýjum viðhorfum, svo að þau verði í framtíðinni ekki síður en hingað til landbúnaðinum öflug lyftistöng og þjóðarheildinni til mikilla hagsbóta.