05.11.1968
Neðri deild: 10. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3143)

29. mál, rannsóknarnefnd vegna kaupa á Sjálfstæðishúsinu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur nú lokið máli sínu og hann tók það sérstaklega fram, að í þessari till. fælist engin skoðun um það, hvort kaupverð á lóð Sjálfstæðishússins væri of hátt eða ekki og ekki heldur það, hvort það hafi verið rangt að kaupa lóðina eða ekki. Samt sem áður sjá allir, sem lesa þessa till. og grg., sem henni fylgir, að gert er eins og hægt er til þess að vekja þá skoðun og tortryggni í þessu máli, að ráðh. sá, sem fer með mál Landssímans, hafi misnotað aðstöðu sína.

Hv. flm. ræddi um það, að óeðlilegt væri, að lög þyrfti að setja í hvert skipti, sem fasteignir ríkisins væru seldar, en ríkisstofnanir gætu keypt eignir á háu verði, án þess að skoðanir Alþ. kæmu til. En það er rétt að upplýsa, hvað Landssímann snertir, að það hefur viðgengizt, að hann hefur í hvert sinn, sem hann hefur þurft að byggja stöðvarhús eða færa út starfsemi sína, keypt lóðir í kauptúnum, kaupstöðum og jafnvel í sveitum þessa lands. En það mun ekki hægt að finna dæmi þess, að Landssíminn hafi keypt lóðir, án þess að það væri brýn nauðsyn fyrir hann til þess að geta haldið uppi þeirri þjónustu, sem óskað er. Það má vel vera, að ýmsir hv. þm. telji hæpin kaupin á Sjálfstæðishúsinu og þeirri lóð og þá er vitanlega sjálfsagt, að þeir reyni að kynna sér eftir því, sem mögulegt er, hvað hér er um að ræða.

Póst– og símamálastjórnin gerði grein fyrir þessum kaupum í dagblöðunum í sumar og hélt ég, að það væri fullnægjandi. Og ég held, að hv. alþm. yfirleitt hafi sannfærzt um, að hér var rétt að unnið. Ég held það. Og ég held einnig, að hv. flm. þessarar till. séu í hjarta sínu sammála um það, að þetta hafi verið rétt gert af Landssímanum, þótt þeir sjái ástæðu til að flytja þessa till. og gefa í skyn, að þetta gæti nú öðruvísi verið. Og fyrir mitt leyti er ég ánægður með, að þessi till. er fram komin, svo að umr. geti orðið um þetta mál og Alþ. fjalli um það og allshn., sem fær þetta mál eftir till. flm., kynni sér það. Það er að vísu farið fram á, að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd með rannsóknarheimild. Það er í till. Það er á valdi Alþ. að gera út um það, hvort nauðsyn ber til þess. En eðlilegt þætti mér, að hv. allshn. athugaði fyrst, hvort hún þyrfti rannsóknarheimild, hvort það þyrfti sérstaka rannsóknarheimild til þess að geta fengið gögnin á borðið og allar þær upplýsingar, sem þessu máli tilheyra. Ef það skyldi nú verða svo, að hv. allshn. gæti fengið allar þær upplýsingar um þetta mál, sem hún óskar, væri þá þörf á að skipa aðra n.? Ég geri ráð fyrir, að flestir alþm. teldu þess ekki þörf, nema allshn. væri neitað um upplýsingar, sem hún óskar eftir að fá varðandi þetta mál.

Ég tel eðlilegt að rekja nokkuð sögu þessa máls og ég vil þá upplýsa, að þetta mál byrjar þannig, að póst– og símamálastjóri skrifar mér sem símamálaráðh. 9. nóvember 1967, og ég tel rétt að lesa þetta bréf upp, — það er stutt, — með leyfi hæstv. forseta:

„Póst- og símamálastjórnin leyfir sér hér með að biðja ráðh. að kanna, hvort hægt væri að fá Sjálfstæðishúsið, Thorvaldsensstræti 2 keypt og með hvaða kjörum.

Eins og ráðh. er kunnugt var viðbyggingin við símahúsið stórlega minnkuð frá upphaflegri áætlun og leiddi til þess að byggja varð fyrir glugga á fjölda herbergja og hefur stofnunin orðið að taka húsrými á leigu í öðrum húsum og er það mikið óhagræði að kljúfa þannig deildir í sundur. Væri því mjög æskilegt, ef unnt yrði að bæta við húsnæði með nefndum kaupum með hagstæðum kjörum, enda náist jafnframt viðunandi samningar við borgaryfirvöld um væntanlega nýbyggingu á þessum stað.“

Þetta er í nóv. 1967. Eftir að ég fékk þetta bréf, minntist ég á það við miðstjórn Sjálfstfl., hvort það kæmi til mála, að flokkurinn vildi selja þetta hús og gæti misst það. Landssíminn hefði áhuga fyrir því og teldi sér brýna nauðsyn á að geta stækkað gamla Landssímahúsið og byggt á þessari lóð, sem liggur þar við.

Það má segja, að allan veturinn 1967—1968 hafi þetta verið til umhugsunar hjá miðstjórn Sjálfstfl. Vitað var, að flokkurinn þurfti á húsnæði að halda fyrir sínar skrifstofur og þægilegt var að hafa fundi í þessu húsi og það hafa flm. þessarar hv. till. áreiðanlega fundið, þegar þeir héldu sinn landsfund í húsinu og einhver sagði mér, — ég veit ekki, hvort það var grín eða alvara, — að flm. hefðu aldrei flutt þessa till., ef þeir hefðu verið búnir að kynna sér, hvernig þetta hús var út af fyrir sig, þó að Landssíminn kaupi ekki lóðina vegna hússins, heldur lóðina til þess að geta byggt hentugt húsnæði fyrir Landssímann. En það er svo vorið 1968 eða á s.l. vori 6. maí, sem matsgjörð hafði verið gerð á húsinu og á lóðinni af mönnum, sem miðstjórnin bað um að framkvæma. Þessir menn voru Guðlaugur Þorláksson fasteignasali og Helgi Eyjólfsson húsameistari. Það mun hafa verið í marz eða apríl, sem þeir voru beðnir um að gera athugun á því, hvers virði þetta hús væri, ef það kæmi til mála að selja það og miða þá við kaup og sölur á fasteignum og lóðum í miðbænum, sem nýlega höfðu farið fram. Og samkvæmt þessari matsgjörð er verðið 16 millj. 243 þús. Lóðarverðið er 9 millj. 403 þús. og húsverðið 6 millj. 840 þús., þegar reiknað er með 57% af brunabótamatsverði hússins, en þannig var matið framkvæmt á lóðum og húsum í Kirkjustræti, sem ríkið keypti 1957. Þetta er dagsett 6. maí. Ég tel ekki ástæðu til þess að lesa þetta upp, enda sjálfsagt, að hv. allshn. fái öll þessi bréf og gögn í hendur, sem ég er hér með og því ástæðulaust að eyða tíma í að lesa þetta allt hér upp að þessu sinni.

30. maí skrifar Gísli Halldórsson arkitekt póst– og símamálastjóra bréf, þar sem hann lætur sitt álit í ljósi um þetta nefnda verð á eigninni og telur Gísli að þetta sé hagstætt verð. Þetta sé í rauninni talsvert lægra verð, en á Kirkjustrætislóðinni, eins og seinna kemur fram og tel ég ekki heldur ástæðu til þess að lesa það bréf upp hér að þessu sinni, en minnist á það hér og n. getur fengið það einnig til aflestrar. Og 30. maí s.l. skrifar póst– og símamálastjóri mér bréf, þar sem hann lætur sitt álit í ljósi á þessu verði, sem hér hefur verið nefnt og ítrekar beiðnina um það, að af þessum kaupum geti orðið. Í þessu bréfi segir m.a.

„Póst- og símamálastjórnin hefur átt nokkrar umr. við fulltrúa eigenda Thorvaldsensstrætis 2 og töldu þeir að lokum, að lóðin með núverandi húsi mundi fást fyrir 16 millj. 250 þús. og greiðsluskilmálar gætu orðið þannig, að 2 millj. kr. yrðu greiddar, þegar salan færi fram, 2.25 millj. kr. hálfu ári síðar og 2 millj. kr. árlega í 6 ár. Vextir yrðu eins og almennir sparisjóðsvextir.“ Þá segir enn fremur: „Með tilliti til verðsins liggur fyrir, að vorið 1967 var póst– og símamálastjórninni heimilað að kaupa viðbótarlóð að Kirkjustræti sunnan við símahúsið að stærð 693 fermetrar fyrir 12 þús. 150 kr. hvern fermetra. Vegna skipulags borgarinnar var aðeins heimilt að reisa á þessari lóð fjögurra hæða byggingu ofan jarðar að samanlögðum gólffleti 781 fermetrar. Hins vegar telst, eins og framan er getið, mega byggja hús á allri hinni fyrirhuguðu lóð, þ.e. Thorvaldsensstræti 2, þar sem Sjálfstæðishúsið stendur, 600 fermetra á a.m.k. 2.000 fermetra heildargólffleti ofan jarðar, auk kjallarans, þ.e. þremur hæðum með inndreginni 4, hæð eða sem svarar 3 1/2 hæð. Enn fremur má benda á, að ekki mun þurfa að greiða gatnagerðargjald af þeirri byggingu, sem reist verður þarna síðar, en það var áætlað, að mundi nema 1 1/2 millj. kr., ef annars staðar væri byggt. Nýting hinnar fyrirhuguðu lóðar er því ólíkt betri, en á þeirri, er áður var keypt. Á lóðinni stendur hús með brunabótamati kr. 12 millj. 46 þús. og það þarf að kaupa til þess að geta byggt þarna nýtt hús, er henti þörfum Pósts og síma. Með tilliti til þess, sem að framan greinir og sérstaklega hinnar góðu nýtingar lóðarinnar, virðist póst– og símamálastjórninni ofannefnt verð, 16 millj. 250 þús., ekki óeðlilegt.“

Þegar hv. 1. flm. talar um, að fermetrinn sé 26 þús. kr., þá reiknar hann aðeins með einnar hæðar byggingu. En sé hins vegar reiknað með, að þarna megi nýta allt að 2.000 fermetra ofan jarðar, verður náttúrlega útkoman allt önnur. Og þá er það eins og seinna mun fram koma, að lóðin í Thorvaldsensstræti 2, þó að húsið sé alveg afskrifað, verður miklu ódýrara en lóðin hér, sem Alþ. keypti 1967, en að því kem ég síðar. Auk þess er það margtekið fram af póst– og símamálastjóra, verkfræðingum hans og ráðunaut, Sveinbirni Jónssyni, sem hefur verið ráðunautur Landssímans og lögfræðingur í áratugi, að það sé svo mikið hagræði fyrir Landssímann að fá þessa lóð, af því að hún er áföst við gamla Landssímahúsið, að það verði ekki reiknað í millj., heldur jafnvel í tugum millj., af því að þetta er samstætt, en annars þyrfti að byggja á sérstökum stað, kljúfa deildir og leggja í milljónakostnað með nýjum jarðstrengjum. Það er þess vegna fráleitt, þegar verið er að halda því fram, að það sé verið að leggja nýjar byrðar á viðskiptamenn Landssímans með því að fá þessa lóð og nýta, fá hana á lægra verði en lóðir, sem eru nýkeyptar hér á sama reit.

3. júlí s.l. skrifar Jón Skúlason, yfirverkfræðingur Landssímans, rn. bréf, þar sem hann vekur athygli á því, að það sé mjög hagstætt fyrir Landssímann að fá þessa lóð. Jón Skúlason var orðinn dálítið þreyttur að bíða eftir endanlegu svari frá rn. og taldi, að það væri mikið tjón fyrir Landssímann, ef ekki gæti orðið úr þessum kaupum. Hann gerir samanburð á verði lóðarinnar í Thorvaldsensstræti 2, Sjálfstæðishúsinu, og öðrum lóðum, sem seldar hafa verið. Þá kemur fram, að lóðin í Thorvaldsensstræti 2 verður 6.250 kr. á fermetra miðað við nýtingu, en lóðin í Thorvaldsensstræti 6 var 10.755 kr. fermetrinn. Lóðin aftur í Kirkjustræti, sem keypt var fyrir Alþ., var mun dýrari miðað við notagildi, því að þar má ekki byggja nema sem svarar 1 1/2 hæð,og kemur það fram í öðru bréfi.

5. júlí skrifar Sveinbjörn Jónsson, ráðunautur Landssímans, langt bréf um þetta mál, því að ég hafði sent honum þetta mál til umsagnar og vildi ekki taka ákvörðun endanlega, fyrr en ég hafði fengið hans umsögn. Það vita allir, að hann er reyndur lögfræðingur, hefur haft mikið með fasteignasölu að gera hér í bænum. Það vita líka allir, að hann hugsar um hagsmuni Landssímans. Við getum a.m.k. verið sammála um að segja, að hann væri hlutlaus í þessu máli. En það, sem hv. 1. flm. till. vildi gefa í skyn hér áðan og sagði beinlínis hér áðan, að væri ámælisvert af ráðh. að hafa ekki leitað umsagnar hlutlauss aðila. Ég leitaði umsagnar Sveinbjörns Jónssonar. Ég leitaði umsagnar yfirverkfræðinga Landssímans og fleiri aðila. Hverjum dettur í hug, að þessir aðilar þekki ekki hagsmuni Landssímans og vilji leggja til, að hlutir séu gerðir, sem ganga í berhögg við það? Það dettur engum manni í hug. Og hverjir væru dómbærari á það; hvort það væri hagur fyrir Landssímann að fá þessa lóð heldur en þessir menn? [Frh. — Ræðunni frestað vegna rafmagnsbilunar.]