18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Á næsta ári eru liðnir tveir áratugir síðan stofnað var til Atlantshafsbandalagsins, en í sáttmálanum um það bandalag var ákveðið, að aðildarríki skyldu bundin um 20 ára skeið. Þegar því tímabili væri lokið, gæti hvert ríki, sem þess óskaði, sagt sig úr bandalaginu með eins árs fyrirvara. Þessi frestur er liðinn 24. ágúst á næsta ári og þá liggur fyrir Íslendingum að ákveða, hvort þeir ætla að halda áfram aðild að bandalaginu eða ekki.

Ég hef ekki séð neinn viðbúnað til þess af hálfu hæstv. ríkisstj., að þetta mál verði lagt fyrir Alþ. á málefnalegan hátt. Ég hef að vísu séð yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., þar sem þeir lýsa þeirri skoðun sinni, að þeir telji, að Ísland eigi að halda áfram aðild að bandalaginu, en sú ákvörðun hefur ekki verið borin undir Alþ. Að vísu mun aðild okkar halda áfram, ef við segjum henni ekki upp, en engu að síður tel ég, að hér sé um þau tímamót að ræða, að gera eigi ráðstafanir til þess, að Alþ. fjalli um þennan vanda á málefnalegan og raunsæjan hátt og taki síðan ákvarðanir um framtíðarstefnuna.

Till. sú, sem ég flyt hér ásamt hv. 5. þm. Reykn., fjallar einvörðungu um vinnubrögð í þessu sambandi. Þar er lagt til, að utanrmn. verði falið að semja rækilega grg. um afstöðu Íslands til Atlantshafsbandalagsins í tilefni af þessum tímamótum, sem ég var að greina frá áðan. Í þeirri grg., sem n. semji, skuli fjallað um þau vandamál, sem tengd eru aðild Íslands að bandalaginu og um breytingar á alþjóðamálum á þeim 20 árum, sem liðin eru síðan bandalagið var stofnað og um viðhorfin, eins og þau eru nú. Enn fremur er lagt til, að þar verði raktar þær hugmyndir, sem uppi eru í Evrópu og rætt hefur verið um í vaxandi mæli á undanförnum árum, að stofnað verði öryggisbandalag Evrópuríkja, sem leysi af hólmi bæði Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið.

Í till. er lagt til, að utanrmn. vinni að þessu verkefni þannig, að hún geti lagt þessa grg. fyrir Alþ., þegar það kemur saman að loknu jólaleyfi, en síðan verði almennar umr. í sambandi við þessa grg. og endanlegar ákvarðanir teknar. Hér er sem sé einvörðungu flutt till. um vinnubrögð. Í till. felst ekkert annað, og mér virðist, að alþm. ættu að geta fallizt á þessi vinnubrögð hvaða skoðanir, sem þeir kunna að hafa á því málefni, sem þarna er rætt um.

Það hafa verið allt of mikil brögð að því á Alþ. Íslendinga um langt skeið, að ekki hefur verið fjallað um utanríkismál á jafngaumgæfilegan hátt og siður er að fjalla um önnur vandamál, sem lögð eru fyrir Alþ. Umr. um utanríkismál hafa oftsinnis snúizt upp í skammarræður og aðdróttanir og gagnkvæmar hreytingar í stað þess, að reynt sé að fara ofan í vandamálin á raunsæjan hátt og fjalla um þau gaumgæfilega. Mér hefur virzt vera vilji fyrir því á seinustu árum að breyta þessum vinnubrögðum. Það gerðist t.d. í fyrra, að hæstv. utanrrh. flutti í fyrsta sinn skýrslu um utanríkismál. Hún var að vísu flutt í lok þings, þannig að lítið ráðrúm var til þess að ræða hana, sama og ekkert raunar, en engu að síður var þarna um ótvíræða framför í vinnubrögðum að ræða. Ég vænti þess, að það sé vilji hæstv. ráðh. og annarra, að haldið verði áfram á þessari braut. Utanrmn. höfum við einmitt til þess að vinna verk eins og þessi og ég teldi mjög eðlilegt, að n. tæki að sér þetta verkefni og ynni að því að safna þeim margvíslegu gögnum, sem nauðsynleg eru, til þess að þm. geti áttað sig á vandamálinu á málefnalegri hátt en oft tíðkast í umr. um það.

Það er sérstaklega eitt atriði í sambandi við þetta, sem ástæða er til að hugleiða mjög vandlega. Því var lýst yfir, þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, að það væri alger fyrirvari af okkar hálfu, að ekki yrði hér erlendur her eða erlendar herstöðvar á friðartímum. Þessi yfirlýsing var studd hliðstæðri yfirlýsingu frá þáverandi utanrrh. Bandaríkjanna. Engu að síður gerðust þau tíðindi tveimur árum síðar, að hingað kom erlendur her, sem enn situr í landinu. Ráðamenn hafa margsinnis lýst yfir því að undanförnu, að þeir líti á þetta sem tvö óskyld mál. Það sé ekki neitt órofa samhengi þarna á milli. Engu að síður óttast ég, að svo sé. Ég óttast mjög, að okkur muni ekki takast að losna við hinn erlenda her úr landinu, meðan við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ég vil minna á, að í samningnum um hernámið er vísað sérstaklega til Atlantshafsbandalagssamningsins og sagt, að önnur aðildarríki bandalagsins telji það hættulegt öryggi sínu, að eitthvert landssvæði innan bandalagsins sé óvarið. Mig grunar mjög, að jafnvel þótt ríkisstj. Íslands og Alþ. kynnu að hafa hug á því að losna við hinn bandaríska her úr landi, en vera áfram í Atlantshafsbandalaginu, þá mundi bandalagið þrýsta á eftir þeim leiðum, sem það hefur og leggja áherzlu á, að við yrðum að heimila Bandaríkjaher áfram vist í landinu. Og ég tel, að utanrmn. ætti að skoða þetta vandamál gaumgæfilega og leggja fyrir Alþ., hvernig þessum málum kann að vera háttað.

Annað atriði, sem vert er að gefa sérstakan gaum, eru þær breytingar, sem orðið hafa á alþjóðamálum á undanförnum 20 árum. Þær breytingar eru ákaflega veigamiklar. Ég held, að það dyljist engum manni, að hernaðarbandalögin tvö, Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið, hafa allt aðra afstöðu hvort til annars en þau höfðu í öndverðu. Þessi bandalög eru greinilega orðin tæki risaveldanna, annars vegar Bandaríkjanna og hins vegar Sovétríkjanna, til þess að þau geti haft þau áhrif, sem þeim duga á áhrifasvæðum sínum. Á sama tíma hefur það gerzt, að á milli þessara risavelda hefur tekizt ýmiss konar samkomulag, bæði leynt og ljóst. Þær forsendur, sem menn ímynduðu sér, að þeir væru að fallast á, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið á sínum tíma, eru allt aðrar núna. Og þess vegna tel ég, að það sé óhjákvæmilegt að kanna, hvort þær nýju aðstæður, sem nú blasa við, eru sömu röksemdirnar fyrir því, að við eigum að halda áfram aðild okkar að þessu bandalagi.

Í Evrópu eru sterkir straumar, sem ganga í gagnstæða átt, og þar eru um að ræða strauma, sem ekki eru endilega bundnir við aðgreiningu manna eftir hinum klassísku pólitísku línum, hægri og vinstri. Gegn þess ofurvaldi tveggja stórvelda rísa aðilar eins og De Gaulle Frakklandsforseti. Hugmyndin um sérstakan öryggissáttmála Evrópu, sem leysi af hólmi Atlantshafsbandalag og Varsjárbandalag, var upphaflega komin frá Eden, sem þá var forystumaður Bretaveldis. Ég hygg, að þessum hugmyndum um vaxandi sjálfstæði Evrópuríkja gegn stórveldunum og bandalögum þeirra muni vaxa mjög fiskur um hrygg á næstunni. Þess vegna tel ég, að það sé skylda okkar að glöggva okkur sem bezt á þessum aðstæðum einnig.

Störfum er þannig háttað í Sþ., að mál tefjast mjög frá því, að þau eru lögð fram og þar til þau eru tekin til umr. Ég gerði mér vonir um, að þessi till. til þál. gæti fengið formlega og endanlega afgreiðslu fyrir jólaleyfið. En nú er ljóst , að það getur ekki orðið. Samkvæmt þingsköpum mun eiga að fresta þessari umr. og vísa till. til n. Hins vegar vil ég beina því til utanrmn. og til hv. utanrrh., hvort ekki er hægt að fallast á þessi vinnubrögð, sem gerð er till. um af okkur flm., þótt ekki liggi fyrir nein formleg ákvörðun Alþ. um það. Hér er einvörðungu um að ræða vinnubrögð, eins og ég sagði áðan. Í því sambandi vil ég minna á, að á síðasta þingi fluttum við nokkrir þm. þál. till., þar sem þess var farið á leit við hæstv. utanrrh., að hann flytti Alþ. skýrslu um utanríkismál. Sú till. kom aldrei til afgreiðslu, en engu að síður flutti hæstv. ráðh. þessa skýrslu. Ef hæstv. ríkisstj. og utanrmn. sýnist, að það væru rétt vinnubrögð að hefja málatilbúnað, til þess að unnt væri að fjalla um þetta mál á málefnalegan hátt, þá teldi ég, að n. gæti sem hæglegast hafið þau störf nú. Ég vil sem sagt beina þeirri ósk mjög eindregið til n. og ráðh. að á slík vinnubrögð verði fallizt. En samkvæmt þingsköpum legg ég til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. utanrmn.