18.12.1968
Sameinað þing: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3243)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Efni þessarar þál. till. er, að þar er lagt til, að umr. og ákvarðanir um uppsögn Atlantshafssamningsins af okkar hálfu verði undirbúnar með því, að utanrmn. verði falið að safna gögnum og gera grein fyrir meginröksemdum í þessu máli, svo að umr. geti orðið sem raunsæjastar og málefnalegastar, eins og segir í grg. fyrir till. Vænta flm. þess, að um þá málsmeðferð þurfi ekki að verða ágreiningur, eins og kom fram í ræðu hv. fyrri flm.

Út af fyrir sig er það sjálfsagt góðra gjalda vert, að till. eins og þessi sé flutt og málið rætt. En afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins hefur verið og er lýðum ljós. Yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar styður aðild Íslands að bandalaginu. Hafi nokkur breyting orðið þar á að undanförnu, þá er hún helzt sú, að nokkrir, sem áður voru á móti, hafa látið sannfærast og eru nú með aðild okkar að NATO.

Öll utanríkispólitík okkar Íslendinga byggist á fjórum hornsteinum.

Í fyrsta lagi viljum við fara með friði og eiga vinsamleg samskipti við allar þjóðir heims, enda virði þær sjálfstæði okkar og fullveldi. Af þessum ástæðum tökum við virkan þátt í Sameinuðu þjóðunum.

Í annan stað viljum við hafa sem nánast samstarf við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum og þess vegna treystum við böndin við þær þjóðir, m.a. með þátttöku í Norðurlandaráði og norrænni samvinnu á fjölmörgum sviðum, ekki hvað sízt í menningar– og félagsmálum.

Í þriðja lagi lærðist okkur það í síðari heimsstyrjöldinni, að okkur var ekki stoð í hlutleysi og það kom fljótlega í ljós eftir styrjöldina, að Sameinuðu þjóðirnar voru engan veginn færar um að tryggja frið og öryggi í heiminum. Vegna þess gengum við í varnarbandalag vestrænna þjóða og gerðumst stofnaðilar að NATO vorið 1949. Síðan hefur öryggis– og varnarmálum okkar verið borgið.

Fjórði meginþátturinn í utanríkisstefnu okkar lýtur loks að efnahagsmálum. Við tökum þátt í margvíslegu alþjóðasamstarfi til þess að tryggja rétt okkar á ýmsum sviðum og til þess að afla útflutningsvörum okkar markaðs erlendis.

Innganga okkar í Atlantshafsbandalagið var þýðingarmikil ákvörðun í hæsta máta á sínum tíma, enda umdeild. En sú ákvörðun var tekin að vandlega athuguðu máli og eftir miklar umr., bæði hér á Alþ. og öðrum opinberum vettvangi. Einn liðurinn í þessari athugun voru viðræður við bandaríska ráðamenn, sem við áttum í Washington. Þrír ráðh. úr ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar, hæstv. núv. forsrh., Bjarni Benediktsson, hv. þm. Eysteinn Jónsson og ég tókum þátt í þessum viðræðum. Að lokinni þeirri ferð vestur gáfum við Alþ. skýrslu, sem er að finna í þingtíðindum. Umr. urðu einnig allmiklar hér á Alþ. á árinu 1951, þegar varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin og eins á árinu 1956, þegar samþykkt var að athuga um endurskoðun þess samnings. Þessa umr. snerust þó fyrst og fremst um dvöl bandarísks herliðs hér á landi, en ekki um aðild okkar að NATO og skal þess vegna ekki farið frekar út í þá sálma nú og hér.

Í ályktun Alþ. um stefnu Íslands í utanríkismálum og meðferð varnarsamningsins frá 28. marz 1956 er beinlínis gengið út frá því, að öryggismál okkar séu tryggð með aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þó að í þeirri till. hafi einnig verið lagt til, að herlið Bandaríkjanna yrði látið fara úr landi.

Allt liggur þetta ljóst fyrir og er skjalfest opinberlega. Við þremenningarnir, sem fórum til Washington 1949 til þess að afla upplýsinga um Atlantshafssamninginn og möguleika Íslands til að taka þátt í honum, sitjum enn allir hér á þingi, sem og allmargir aðrir þm., sem stóðu að aðild Íslands að NATO. Þessi mál öll eru okkur í fersku minni, en yngri þm. er í lófa lagið að kynna sér alla málavexti í opinberum skjölum.

Andstæðingunum, sem alltaf horfa á þessi mál úr austurátt og virðist vera sama, á hverju gengur í heiminum, hafa iðulega flutt till. á undanförnum árum um úrsögn Íslendinga úr varnarsamstarfi Vesturlanda og hafa þá spunnizt umr. um þessi mál hér á Alþ., en stefnan hefur eigi að síður verið óbreytt.

Í þessari till., sem nú liggur fyrir, er talað um breytingar á alþjóðamálum á undanförnum 20 árum og ennfremur um eitthvað, sem leysa eigi af hólmi bæði Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið, þótt þar sé raunar ólíku saman að jafna. Rétt er það, að breytingar hafa orðið á undanförnum tveimur áratugum. En mikilvægasta breytingin er sú, að á þessu tímabili hefur friður haldizt í Evrópu og til engra átaka komið, sem er mjög mikil breyting frá því, sem áður var. Og öryggi Vesturlanda hefur verið tryggt frá stofnun NATO 1949. Þetta er aðalbreytingin frá því, sem áður var. Fáum dettur í hug að leysa upp bandalag, sem gegnt hefur hlutverki sínu eins vel og raun ber vitni. NATO heldur því áfram, enda er gildistími þess ótakmarkaður, eða gildistíma samningsins eru ekki takmörk sett.

Aftur á móti get ég skilið, að flm. till. vilji fá eitthvað til þess að leysa Varsjárbandalagið af hólmi. Það bandalag hefur ekki reynzt aðildarríkjum sinum eins vel og Norður-Atlantshafsbandalagið. Þar hafa nú fimm aðildarríki bandalagsins farið með ófriði og herafla gegn einu af aðildarríkjum þess og kúgað það til þess að breyta um stefnu í innanlandsmálum, þvert ofan í vilja svo að segja allrar þjóðarinnar, sem á var ráðizt. Það er því ólíku saman að jafna um Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalagið og ekki að furða, þó að lagt sé til, að það verði lagt niður, en um það höfum við Íslendingar sjálfsagt ekki mikið að segja.

Stefnan í þessum málum hér á landi hefur verið óbreytt, enda hefur aðild að Atlantshafsbandalaginu reynzt okkur Íslendingum heillarík. Stuðningur þjóðarinnar við þessa stefnu hefur líka ótvírætt komið í ljós í hvert sinn, sem gengið hefur verið til alþingiskosninga á þessum 20 árum, því að þeir þrír flokkar, sem stóðu að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í upphafi, hafa jafnan fengið yfir 80% atkvæða í 7 alþingiskosningum frá árinu 1949. Þetta vita flm. þessarar till. mætavel, því að það verður að teljast fullkomin tjáning og fullkomið leiðarljós um vilja þjóðarinnar í þessu efni, að aðildarflokkarnir að þátttöku Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafa fengið svo yfirgnæfandi meiri hl. atkvæða allra kjósenda á landinu á þessu tímabili. En andstæðingar aðildar okkar hafa aldrei náð 20% af atkv. landsmanna, jafnvel ekki, þó að allt sé til tínt, eins og Þjóðvörn og I–listi og allt, sem þar hefur fylgt með. Raunar eru enn á ný kannske áhöld um það, hvar á að telja I–listafólkið eftir nýlega gefna yfirlýsingu hv. 9. þm. Reykv. En yfir 80% atkvæða virðast örugglega með aðild að Atlantshafsbandalaginu allt frá upphafi og þegar litið er á tímabilið í heild, hefur hlutfallstala þeirra, sem eru mótfallnir aðild að NATO, farið lækkandi. Enda er engin furða, þó að þróunin hafi verið þessi, þar sem atburðirnir út í Evrópu síðustu mánuðina sanna, svo að ekki verður um villzt, að Atlantshafsbandalagið er engu síður mikilvægt nú, en fyrir 20 árum og er þó bandalagið einkum og sér í lagi nauðsynlegt smáþjóðum, sem hafa alls ekki bolmagn til að verjast upp á eigin spýtur vopnaðri innrás. Ríkisstj. Íslands hefur þess vegna ekki uppi nein áform um að breyta til í þessu máli og sama gegnir um aðrar NATO–þjóðir, eins og skýrt kom fram á nýafstöðnum ráðherrafundi bandalagsins fyrir tveimur mánuðum í Brüssel. Allt ber þetta því að sama brunni.

Ég tel ástæðulaust að samþykkja till. þá til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 94. Allar heimildir um þróun þessara mála á undanförnum tveim áratugum eru öllum hv. alþm. nærtækar. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á afstöðu okkar til Atlantshafssamningsins. Ég skal þó fyrir mitt leyti ekki hafa á móti því, ef hv. alþm. sýnist svo, að till. verði vísað til n. En á hinn bóginn skal ég taka fram, út af orðum hv. flm., að hér verður gefið yfirlit um utanríkismál, áður en langt um líður, eins og ég hef áður lýst yfir. Ég vænti þess, að það geti orðið fljótlega eftir, að þingið kemur aftur saman og getum við þá fengið tækifæri til að ræða þetta mál, eins og önnur utanríkismál, sem nærri liggur að tala um.