12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, er það venja Alþ. að nota rökstudda dagskrá fyrst og fremst við 2. umr. og langflestar þær till. hafa komið frá nefndum. Nú koma nál. og þar með till. um rökstudda dagskrá fram, áður en 2. umr. hefst. Ef ætti að fylgja þeim starfsháttum, sem hv. 4. þm. Austf. leggur til, ætti 2. umr. aldrei að fara fram, ef n. leggur til, að málið sé afgreitt með rökstuddri dagskrá. (Gripið fram í: Það eru fordæmi um það.) Eru fordæmi um það? Það er hægt að lesa það í þingtíðindum ár eftir ár, að n. flytja till. um að afgreiða mál með rökstuddri dagskrá. Þessar till. koma fram áður en 2. umr. hefst. Síðan fer umr. öll fram og till. eru bornar upp í lok umr. Það eru svo mýmörg dæmi um þetta og þetta er svo föst venja hér, að ég undrast, að svona gamalreyndur þm. skuli tala á þennan hátt.