12.03.1969
Sameinað þing: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (3262)

75. mál, afstaða Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé enginn að reyna að smeygja sér frá því að taka afstöðu til þessa máls alls og afgreiða það. En það er ofar mínum skilningi, hvers vegna það ætti að fara að sérstökum reglum og brjóta þær venjur, sem hér hafa ríkt í meðferð mála, bara af því að hv. 6. þm. Reykv. gerir sig að því viðundri að flytja slíka till. við sína eigin till. Það eitt út af fyrir sig mun vera nýmæli í sögu þingsins. Það ætti kannske að heiðra hann með því að hafa alveg sérstaka meðferð á öllu málinu þess vegna fyrir utan þingsköp og venjur. En ég held, að við förum að venjum. Mál þetta er þannig. Ég mæli út af fyrir sig efnislega

ekki gegn því, en það er þannig, að það er sjálfsagt, að utanrmn. fái um það að fjalla, því að þetta er till., sem gerir ráð fyrir því, að utanrmn. eigi að gefa út heila bók og hún megi ekki fjalla um það sjálf áður, það er einkennileg viðkvæmni. (Gripið fram í.) Það er hægt að fella hana auðvitað, en það er engin ástæða til þess að hafa annan hátt en hér hefur tíðkazt. Það er það, sem er aðalatriði málsins.