26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3344)

148. mál, kjarasamningar

Flm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 275 að flytja svo hljóðandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á því í samráði við heildarsamtök launþega og vinnuveitenda, hvaða breytingar á núverandi starfsháttum og fyrirkomulagi að því er varðar gerð kjarasamninga sé æskilegt að gera með það fyrir augum, að þeim tilgangi verði náð, að rauntekjur launafólks séu á hverjum tíma svo háar sem unnt er, þannig að samrýmanlegt sé nægri atvinnu. Skulu niðurstöður þeirrar athugunar lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem auðið er.“

Deilur um kaup og kjör eru, eins og kunnugt er, eitt þeirra eilífðarvandamála, sem við er að etja í okkar þjóðfélagi og öðrum, sem byggð eru á svipuðum grundvallarhugsjónum og vort. Ég geri mér vel ljóst, að því fer fjarri, að samþykkt lítillar þáltill., eins og þeirrar, sem ég hef leyft mér að flytja og lýst er, geti orðið nokkurt töframeðal, sem til frambúðar geti leyst þau miklu vandamál, sem hér er um að ræða. En með tilliti til þess, hve geysimiklum kröftum þjóðfélagið ver í það að heyja þessa baráttu og hverjar fórnir og tekjumissi hún oft kostar, sætir í rauninni furðu, hve lítið það hefur í rauninni verið rætt, hvaða leiðir kæmu hugsanlega til greina til þess að vinna að lausn þessara mála með einhverjum öðrum hætti en nú er gert, þannig að niðurstaða geti fengizt með minni fórnum og óþægindum en sífellt vofir yfir að óbreyttu því fyrirkomulagi, sem nú er. En það fyrirkomulag, sem nú er á þessum málum, að samtök atvinnurekenda og launþega semji um kaup og kjör án a.m.k. allrar beinnar íhlutunar ríkisvaldsins, mótaðist jafnhliða iðnvæðingunni á s.l. öld í flestum Evrópulöndum, en hér á landi þó nokkru síðar, vegna þess hve iðnvæðingin var hér seinna á ferð. En eins og rakið er í stuttu máli í grg. minni fyrir þáltill., hafa allar aðstæður vinnumarkaðarins gerbreytzt svo á þeim tíma, sem síðan er liðinn, að engin von er til þess, að það fyrirkomulag, sem eðlilegt mátti telja miðað við aðstæður um s.l. aldamót, sé í samræmi við kröfur tímans nú.

Þá var kaupgjaldsbaráttan raunverulega barátta um skiptingu framleiðsluverðmætisins milli vinnulauna og ágóða. Atvinnurekendur áttu þá ekki annars úrkosti að jafnaði, en að greiða þær kauphækkanir, sem þeir með góðu eða illu sömdu um, af ágóða sínum. Samkeppnin og stefna frjálsrar utanríkisverzlunar, sem þá var fylgt, kom í veg fyrir, að atvinnurekendur gætu velt kauphækkunum yfir í verðlagið.

Á hinn bóginn var þá sú hætta fyrir hendi í ríkara mæli en nú, að væri boginn of hátt spenntur í kaupgjaldsmálum, leiddi af því samdrátt og atvinnuleysi, því að þá var það alls ekki talið hlutverk ríkisvaldsins að sjá fyrir nægri atvinnu. Sú hugsun kom fyrst fram á heimskreppuárunum eftir 1930, þannig að þetta átti sinn þátt í, að kaupkröfum var þá stillt í hóf.

Nú eru aðstæður auðvitað gerbreyttar í þessu efni. Má þar t.d. nefna, að atvinnureksturinn er nú yfirleitt háður verðákvörðun af hálfu opinberra eða hálfopinberra aðila í einni eða annarri mynd. Þannig er búvöruverð, eins og kunnugt er, ákveðið af 6 manna n. eða sérstökum yfirdómi, ef hún kemur sér ekki saman. Fiskverð er ákveðið af sérstökum verðlagsn. sjávarútvegsins og verð á iðnaðarframleiðslu fyrir innlendan markað og verzlunarálagning af verðlagsn. og verðlagseftirliti. Þessar n. skammta atvinnurekendum þann ágóða, sem þær telja hæfilegan og af því leiðir, að vilji þær vera sjálfum sér samkvæmar, geta þær varla hjá því komizt að leyfa atvinnurekendum að hækka verð vöru sinnar, sem nemur kostnaðarhækkun, sem á sér stað, hvort sem þar er um að ræða kaupgjaldshækkanir eða annað. Annars væri viðurkennt, að atvinnureksturinn hefði áður fengið of mikið.

En hvað þýðir það, að kauphækkunum sé velt yfir í verðlagið? Það þýðir í meginatriðum, að launþegar eru látnir greiða sér kauphækkanir sjálfir. Þær eru sóttar í þeirra eigin vasa. Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að minna á skýrslu um þróun kaupmáttar launa á árabilinu frá 1945, sem meðan Einar Olgeirsson átti sæti á þingi, var að jafnaði útbýtt hér á borð hv. þm. sem fskj. með frv., sem hann flutti þing eftir þing um áætlunarráð ríkisins. Af þessu kom í ljós, að þó að mjög verulegar kauphækkanir yrðu á þessu tímabili, sem þarna var um að ræða, stóð kaupmáttur launa nokkurn veginn í stað, þrátt fyrir það, að nokkur hækkun varð þó á raunverulegum þjóðartekjum á þessu tímabili, þannig að svo sýnist, sem grundvöllur hefði verið fyrir nokkurri hækkun rauntekna. Og eins og ég áðan sagði og öllum er kunnugt, urðu verulegar kauphækkanir á tímabilinu, en þær leiddu ekki til neinna raunverulegra kjarabóta vegna þess, að þær voru eftir þeim leiðum fyrst og fremst, sem ég hef nefnt, allar sóttar í vasa launþeganna sjálfra. Og þegar svo er komið, er kaupgjaldsbaráttan ekki lengur orðin átök um skiptingu þjóðarteknanna, heldur allt annað, sem í rauninni liggur utan verkahrings hagsmunasamtakanna að stjórna og hafa áhrif á, svo sem þróun hins almenna verðlags.

Nú er það að vísu ekki þannig, að hinir víðsýnni verkalýðsleiðtogar, hvaða stjórnmálaskoðanir, sem þeir annars kunna að hafa, hafi ekki gert sér ljóst, að pottur er brotinn í þessu efni og hið svonefnda júní samkomulag, sem gert var fyrir nokkrum árum, var einmitt byggt á þeirri grundvallarathugun, sem auðvitað er mjög skynsamleg, að betra sé að láta sér nægja minni kauphækkanir og fá beztu fáanlegar tryggingar fyrir því, bæði af hálfu atvinnurekenda og ríkisvalds, að þessar kauphækkanir verði raunhæfar eða greiddar af einhverjum öðrum, en launþegunum sjálfum, heldur en að kauphækkanirnar séu meiri, en allir endar séu lausir, þannig að líklegast sé, að þær hljóti að verða eftir einhverjum leiðum sóttar í vasa launþeganna sjálfra. En því miður verður nú um júní samkomulagið að segja, þó að maður voni hið bezta, að unnið verði að málum á svipuðum grundvelli og þá, að ég hygg, að því megi frekar líkja við hláku á útmánuðum heldur en raunverulega vorkomu. Mér finnst það því ekki álitamál og fyndist furðu gegna, ef um það væri ágreiningur, að það sé þörf annars fyrirkomulags, sem betur samsvarar kröfum tímans.

Hvað snertir meðferð þessara mála í nágrannalöndum okkar, þá hafa verkalýðsleiðtogar, atvinnurekendur og stjórnvöld einnig gert sér ljóst, að þau yrði að taka öðrum tökum. Þar hefur það fyrirkomulag yfirleitt rutt sér til rúms, að stofnanir, sem segja má að nokkru leyti, að svari til hagráðs og starfsemi þess hér á landi, — en að slíkum stofnunum eiga samtök atvinnurekenda og launþega aðild auk fulltrúa ríkisvaldsins, — að þessar stofnanir hafa að vísu aðeins ráðgefandi vald, en samt mjög mikil áhrif í þessum efnum. Þar er kannað, eftir því sem mögulegt er, hvaða möguleikar séu á því að greiða kauphækkanir, án þess að þær þurfi að eyðast í verðbólgu. Slíkum stofnunum er ætlað að gera till. í þessum efnum og niðurstaðan verður að jafnaði sú, að samkomulag næst um samninga, sem gjarnan eru þá til lengri tíma, heldur en hér tíðkast.

Eins og ég sagði, hafa stofnanir sem slíkar aðeins ráðgefandi vald, þannig að það er yfirleitt ekki um það að ræða, að verkfallsréttur eða verkbannsréttur sé takmarkaður, en oft næst á þeim vettvangi samkomulag milli vinnuveitenda og launþega um að hlíta dómsúrskurði, a.m.k. hvað snertir sum þeirra atriða, sem um er deilt. Nú kæmi vissulega til athugunar, svo sem bent er á í grg. minni fyrir þessari þáltill., að auka starfsemi hins nýstofnaða hagráðs hér á landi, þannig að því væri ætlað að fjalla um þessi mál og gera um þau till. Ég hef þó takmarkaða trú á því, að í náinni framtíð sé sú leið líkleg til lausnar vandamálunum, þótt sjálfsagt sé að athuga hana. En það er annað atriði, sem ég tel, að a.m.k. mundi vera spor í rétta átt í þessu efni. En það er, að sú leið verði farin að lögfesta það, að fulltrúar vinnuveitenda, launþega og ríkisvalds setjist á rökstóla a.m.k. tveim mánuðum áður en allsherjarkjarasamningar renna út og geri á því allsherjarkönnun á grundvelli beztu fáanlegra upplýsinga um afkomu atvinnuveganna og þjóðarbúsins, hverjar séu þær hæstu rauntekjur, sem launþegar geti borið úr býtum, án þess að til almenns taprekstrar og þar af leiðandi atvinnuleysis leiði.

Nú geri ég mér ljóst, að á vettvangi, þar sem ætlazt væri til nákvæmni, mundi það vera gagnrýnt að tala um, að rauntekjur launafólks eigi að vera á hverjum tíma svo háar sem unnt sé, þannig að samrýmanlegt sé nægri atvinnu. Að ég orða það þannig, er aðeins gert til þess að fyrirbyggja misskilning, sem virðist nú vera of útbreiddur á því, að þetta séu atriði, sem séu hvort öðru óháð. En auðvitað er atvinnuöryggið einn og ekki lítilvægasti þáttur raunteknanna. Ekkert rýrir rauntekjur launþegans eins og það, ef hann fær ekki vinnu.

Þetta eru þær ábendingar, sem ég geri um fyrirkomulag málanna. En nú vaknar auðvitað sú spurning, hvað gerðist, ef samkomulag tækist ekki. Ég álít í fyrsta lagi, að reynslan gæti orðið sú sama og í nágrannalöndum okkar, að meginreglan yrði sú, ef af alvöru yrði að þessu unnið af hálfu allra þeirra aðila, sem málið snertir, þá yrði reglan sú, að samkomulag næðist. En auðvitað verður að gera ráð fyrir því, sem möguleika, að samkomulag takist ekki og hvað kemur þá til greina? Lögbinding er vissulega hugsanleg leið. Ég tel hana þó í senn óraunhæfa og óæskilega sem almenna lausn á þessum málum, þó að stundum verði ekki komizt hjá því sem neyðarúrræði að fara löggjafarleiðina, ef fámennir starfshópar og kröfur þeirra verða til þess að valda þjóðarbúinu mjög miklu tjóni eða hætta er á því, að svo verði vegna vinnustöðvana, ef ekki er gengið að kröfum, sem yrðu ákvarðandi fyrir öll launakjör og allt verðlag í landinu. Þegar slík aðstaða skapast, verður stundum ekki hjá því komizt að fara þessa leið og tel ég það þó neyðarúrræði, sem ekki eigi að beita, fyrr en samkomulagsleiðin hefur verið reynd til þrautar.

Önnur leið, sem ég sting upp á í grg. að verði a.m.k. könnuð, er sú að fara í ríkara mæli, en nú þegar er gert, inn á þá braut, að samtök launþeganna ákveði sjálf að undangengnum þessum samkomulagsumleitunum sína taxta. Eins og kunnugt er, þá er hér ekki um neina nýjung að ræða. Það er um fjölmennar launastéttir að ræða, sem veita ýmiss konar þjónustu, sem ákvarða sín laun á þennan hátt, eins og nánar er rakið í grg. minni fyrir þáltill., en taxtarnir eru þá ákvarðaðir með tilliti til mats þessara aðila á því, hvað markaðurinn þoli. Auðvitað þýðir ekki að ræða þessa leið á öðrum grundvelli, en þeim að þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir, að hafi þennan rétt, hljóta þá auðvitað sjálfir að bera ábyrgð á því að vinna fáist fyrir þá taxta, sem þarna er um að ræða. Það mundi auðvitað vera út í hött að ætlast til þess, að einhver annar aðili bæri á því ábyrgð og auðvitað er ekki hægt að skylda atvinnurekendur til þess að kaupa vinnuaflið á þeim töxtum, sem settir eru. Sumir mundu óttast, að ef út á þessa braut væri farið í ríkari mæli en nú er, þá myndu taxtarnir verða ákveðnir af fullkomnu ábyrgðarleysi. Mér finnst, að fyrir fram sé ekki hægt að ganga út frá því. Sú raunin hefur ekki orðið á hjá þeim aðilum, sem þennan rétt hafa og mér þykir það með ólíkindum, að eftir að búið væri að þrautkanna þá möguleika, sem á því eru, að tiltekið kaup sé hægt að greiða í tilteknum greinum, þá mundi vera stefnt beinlínis út í atvinnuvandræði fyrir þessa starfshópa með því að ákveða taxtana miklu hærri en grundvöllur væri fyrir og hér er auðvitað ekki um annað að ræða en till. um, að þessi leið sé könnuð.

Herra forseti, ég skal nú ekki hafa þetta lengra, en vil aðeins segja að lokum: Við stöndum frammi fyrir því, að þetta kerfi, sem við er búið, er arfur frá fortíðinni, sem samsvarar ekki lengur kröfum tímans. Það er miklum kröftum varið í lausn launadeilna, en árangurinn takmarkaður, ekki sízt fyrir launþegana. Ég geri mér ljóst, að hér er ekki um nein töfraúrræði að ræða, heldur er aðeins lagt til, að hafin sé skipuleg leit að öðru betra en því, sem nú er og slíkt hlýtur undir öllum kringumstæðum að verða fyrsta sporið í átt til einhverra umbóta.

Herra forseti. Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.