29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (3531)

231. mál, hafnargerð við Þjórsárós

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Suðurströnd Íslands er, svo sem menn vita, hafnlítil, svo að hún hefur oft verið kölluð hafnlaus. Rétt er það, að stærstur hluti hennar er hafnlaus. Þær hafnir, sem á suðurströndinni eru, eru bæði smáar og fáar og á útjaðri strandarinnar, annars vegar vestanvert, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri, en austanvert á suðurströnd Íslands má telja, að Hornafjörður sé eða Höfn í Hornafirði. Þar á milli eru ekki hafnir. Þetta er þeim mun bagalegra, sem á Suðurlandi, einkum á Suðurlandsundirlendinu er hvað blómlegust byggð á Íslandi, hvort heldur er til þéttbýlis eða sveitabúskapar, að öðru leyti en því, að vandkvæði mikil stafa af því, hve langt er til góðra hafna. Menn hafa líka fundið til þess arna,og Alþ. hefur haft uppi viðleitni í þá átt að styrkja hafnargerðir á þeim stöðum, sem ég hef nefnt, enda þótt vitað væri, að þar gæti ekki orðið á neitt nálægri tíð, um stórar hafnir að ræða hafnir með verulega þýðingu fyrir þjóðarbúskap Íslendinga.

Það er líka nokkur vafi á, að þessum höfnum hafi öllum verið valinn heppilegasti staðurinn. Ég verð t.d. fyrir mitt leyti hreinlega að játa, að mér datt aldrei í hug, að hafizt yrði handa um hafnargerð í stórum stíl á stað eins og t.d. Þorlákshöfn, nema það væri þá fullkannað, að þeir aðrir staðir, sem hugsanlega hefðu getað komið til greina og á ég þar fyrst og fremst við árósana á suðurströndinni, að þar væri ekki hægt að gera hafnir.

Varðandi þann stað, sem hér er flutt till. um, Þjórsárósinn, þá hygg ég, að menn hafi almennt verið haldnir þeirri hugsun, að hún mundi renna fram á Þjórsárhrauninu svonefnda, sem er mesta hraun, sem vitað er til, að runnið hafi nokkru sinni á jarðkúlunni. Þar af leiðandi mun ég ekki hafa verið einn um það að ganga með þá hugmynd, að það mundi vera svo grunnt í árósnum niður á fast, niður á klöpp, niður á hraun, að þar væri ekki tiltækt að gera höfn, nema með kostnaði, sem ekki væri viðráðanlegur fyrir okkar þjóð. En þessu er ekki þannig varið. Bent hafa mér á það menn, sem eru áhugamenn um hafnargerðir, að á síðustu sjókortum, sem gefin hafa verið út af sjókortagerðinni, sem nú er flutt hér inn í landið og er í tengslum við Vitamálaskrifstofuna, að þá verður ekki annað séð, en þarna sé mikið dýpi niður á hraun eða fastan botn, þannig að flestum, sem með skjótum hætti hafa athugað þetta mál, sýnist svo, sem áin renni alls ekki fram á Þjórsárhrauninu, heldur renni hún austan við hraunjaðarinn og þar sé ærið djúpt niður á fast og væri þess vegna hægt að gera höfn þeirra hluta vegna.

En þá kemur fleira til. Það er í fyrsta lagi vandkvæði við hafnargerð á suðurströndinni, sem ekki er í neinu náttúrlegu vari fyrir úthafsöldunni. Úthafsaldan verður af þeirri stærð, að það torveldar siglingar skipa oft á tíðum. Þegar betur er að gætt, sjáum við, að frammi fyrir ósi þessa fljóts, sem hér um ræðir, Þjórsár, er útstreymi það mikið, að það bugar úthafsölduna verulega, en alveg sérstaklega er vert að gefa gaum að því, að í þeim áformum, sem raforkumálastjórnin hefur uppi um þessar mundir, stendur til að veita saman hinum stærstu fljótum landsins, Hvítá í Árnessýslu og Þjórsá og er það þá orðið fljót af slíkri stærð, að ætla má, að það muni kæfa mjög niður úthafsöldu, þar sem það fellur til sjávar. En auðvitað verður að rannsaka allt þetta nánar og það er einmitt það, sem þessi till. gerir ráð fyrir, að gert verði. Því skyldum við ekki líta á okkar árósa sem hafnarstæði, einkum þegar þeir liggja á þeim svæðum, þar sem þjóðina vantar hvað tilfinnanlegast höfn?

Þróunin í íslenzkri hafnargerð hefur orðið sú, að almennt hafa hafnirnar hreint ekki verið byggðar við árósa. Það er í rauninni, að því er talizt getur, aðeins ein höfn á Íslandi, sem þannig er byggð, Höfn í Hornafirði og það er margt, sem bendir til, að tækniþróunin nú og í framtíðinni muni verða sú, að það sé viðráðanlegra að gera hafnir góðar á slíkum stöðum, heldur en þar, sem hafnirnar eru byggðar út í úthafið.

Ég hef þess vegna ásamt hv. 4. þm. Sunnl. leyft mér að flytja hér till. um það, að þessi hv. þd. skori á ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á Þjórsárósi sem hugsanlegu hafnarstæði. Ósinn er þannig, að það þarf ekki annað en líta hann augum til þess að láta sér detta í hug, að þar muni einmitt vera möguleiki til þess að hafa veruleg og stór hafnarmannvirki og fyrir Sunnlendingafjórðung mundi það skipta sköpum, ef einmitt á þessum stað gæti komið upp stór verzlunar– og fiskihöfn, sem flest bendir til, að ætti að geta orðið, án þess að það væri með ógurlegum kostnaði. Það bendir enn í þá átt, að við megum ekki láta þennan hlut órannsakaðan, að uppi eru raddir um það og leitað hefur verið hófanna hjá stjórnvöldum landsins um að byggja nýja álverksmiðju og þá allt eins, að hún gæti nærzt af orku þessa fljóts, eins og álverksmiðjan, sem nú er í smíðum, á að gera. Og þó að það sé kannske heldur seint athugað, þá er það þó ekki of seint að athuga einmitt möguleikana á því, að útflutningshöfn slíkrar verksmiðju gæti orðið í Þjórsárósi.

Herra forseti. Þar sem ákveðin hefur verið ein umr. um þetta mál, er fyrst og fremst litið svo á, að það muni ekki vera fjárhagslegt mál að aðalatriði og er ég því sammála, að svo sé ekki á þessu stigi. Ég legg því til, að málinu verði á einhverju stigi vísað til hv. samgmn. Ég hygg, að sú hv. n. hafi ekki ofreynt sig í vetur, því að þó að ég eigi sjálfur sæti í n., þá er mér ekki kunnugt um, að hún væri kölluð saman til sjálfstæðrar starfsemi, en að venju hefur hún átt þátt í því sem hluti af samvinnun. samgöngumála að gera till. um flóabátaframlög á fjárl., en ég held, að það væri verðugt verkefni fyrir þá n. að fjalla um þessa till. og segja þessari hv. þd. álit sitt um hana og koma því í verk á þessum vordögum, áður en þingi lýkur.