06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

30. mál, fjárfesting ríkisbankanna

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. bankamálarh. fyrir þessar upplýsingar, sem voru allmiklar að vöxtunum, en nokkuð á annan veg og ekki eins fullkomnar og ég hafði vænzt. Ég t.d. harma, að bankarnir sáu sér ekki fært að skýra frá kostnaði fjárfestingarframkvæmda sinna á núverandi verðlagi, því að mér hefur sýnzt, að flestar peningastofnanir og aðrar stofnanir í landinu eigi ósköp auðvelt með að birta skýrslur um eitt og annað, sem hafi kostað þetta og þetta á liðnum árum og breyta því í núverandi verðlag. En þarna hefur eitthvað reynzt örðugra við að fást. Til þess að menn geti gert sér nægjanlega grein fyrir þessum fjárfestingarframkvæmdum, hefði verið gleggst að fá þetta á verðlagi núverandi árs. Það kann að vera, að einhverjir geti breytt þessu hjá sér, en það er ekki eins öruggt og að fá það frá fyrstu hendi.

Hæstv. ráðh. kvartaði eiginlega undan því, að það væri mikið innifalið í þessari einu fsp., — það væri ekki hlaupið að því að svara þessu öllu á stuttum tíma. Ég hef ekki orðið þess var hingað til, að hæstv. ráðh. hafi haft neitt stuttan tíma til þess að svara. Ég varaði mig ekkert á því, að ráðh. ætluðu nú að fara að stytta mál sitt í svörum. En ég skal ekki finna frekar að því. Mér fannst þetta vera þó nokkuð, sem hér birtist, en ég sé ekki nokkra ástæðu til þess eða réttara sagt nokkra möguleika til þess á mínum 5 mínútna ræðutíma að fara að ræða þetta mikla efni núna, sem hér hefur komið fram, jafnvel þó að manni renni nú eiginlega til rifja, hvernig hefur verið komið fyrir aumingja bönkunum um húsnæði fyrir 8–9 árum. Það er ekki annað að sjá en þeir hafi eiginlega verið á götunni. Það er virðingarvert að skýra rækilega frá því, hversu mikil þörfin hefur verið, en það kom ekki við minni fsp. Ég var ekkert að spyrja um það, heldur aðeins hversu miklu fjármagni hefði verið varið í þessar framkvæmdir bankanna á undanförnum árum.

Þá drap hæstv. ráðh. á það, hvað væru margir bankar í Danmörku. Það held ég, að komi ekki mikið þessu máli við. Við höfum nokkuð marga banka, — við höfum sjálfsagt ekki kannske ýkja marga banka á við hinar og þessar aðrar þjóðir, en hvort við eigum að hafa þá eins marga tiltölulega og aðrar þjóðir er allt annað mál og liggur ekkert fyrir um það hér. Maður má ekki alltaf fara eftir höfðatölunni, ekki einu sinni á þennan veginn, en ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. og hef hugsað mér að athuga betur þetta mál í ræðu hans, þegar hún kemur á lestrarsal.