06.11.1968
Sameinað þing: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

35. mál, vegabætur við Skeiðhól í Hvalfirði

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. ráðh. fyrir svar við fsp., svo langt sem það náði. Að vísu vantaði nokkuð á það, en ég ætla ekki að fara að hefja deilur út af því.

Hann kom með ein rök fyrir því, að í þessu verki var farið að vinna á s.l. sumri, og sé ég þá, að fsp. hefur haft þann tilgang, að þeir, sem ekki átta sig á því, fá nokkurt svar við þessu, þó að mér finnist nú, að meira hefði þurft að gera í þessari vegagerð, ef það hefði átt að tryggja, að jarðraskið yrði ekki gert á því sama ári og vegurinn væri settur í samband við aðalveginn, því að mér sýnist erfiðasti hlutinn vera eftir. Ég held, að hyggilegra hefði verið að safna fé í þessa framkvæmd, en um það ætla ég ekki að ræða frekar og endurtek þakklæti mitt.