20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

54. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. um sjónvarpsmál til hæstv. menntmrh. á þskj. 64. Í fyrsta lagi, hvenær íbúar á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra megi búast við eðlilegum sjónvarpssendingum og í öðru lagi, hvenær sé mögulegt, bæði tæknilega og fjárhagslega, að dreifa sjónvarpinu til allra íbúa á þessu svæði.

Það er vitað, að fólk á þessum landssvæðum hefur sérstakan áhuga á að fá upplýsingar um, hvenær það megi búast við reglulegum sjónvarpssendingum, því að nú á næstunni verða þessir nýju sendar í Stykkishólmi og á Skálafelli tilbúnir og þá hefst strax endurvarp á sjónvarpi um þessi svæði. En það er enn þá óljóst til hvaða svæða sjónvarpið kemur til með að ná. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um þetta mál hjá starfsmönnum tæknideildar sjónvarpsins eða starfsmönnum landssímans og hef fengið hjá þeim góð og greið svör um margvísleg atriði og þeir hafa sagt mér, að þeir væru töluvert á undan áætlun í sambandi við dreifingu á sjónvarpinu. En þegar þeir hafa verið spurðir að því, hvenær eitthvert ákveðið byggðarlag mætti búast við sjónvarpi, geta þeir ekki eða mega ekki segja neitt ákveðið, vegna þess að það virðist ekki vera búið að ganga frá endanlegri ákvörðun um byggingu endurvarpsstöðva. Við vitum þó, að það er búið að reisa allmargar endurvarpsstöðvar á Vestfjörðum í sumar, en það er nokkurn veginn öruggt, að mörg byggðarlög verða samt útundan. Ég held, án þess að ég viti, að ekki verði komið endurvarp í Arnarfjörð og ekki verði komið endurvarp í Strandasýslu og ekki heldur á ýmis svæði í Vestur— og Austur—Húnavatnssýslum. Þegar Skálafellsstöðin tekur til starfa, mun geisli hennar beinast norður í land, endinn á geislanum mun skera miðjan Hrútafjörð. Það þýðir, að Húnvetningar að austanverðu í Hrútafirði koma til með að sjá allskýrar myndir, en aftur Strandamenn, vestan til í Hrútafirði, koma ekki til með að sjá myndir. Þetta er sem sagt tæknilegt atriði, en það er í áætlun að byggja endurvarpsstöð á Blönduósi og á svokölluðum Hvítabjarnarhóli í Hrútafirði, en ekki er byrjað að byggja þessar endurvarpsstöðvar og þá hlýtur dæmið að líta þannig út, að Strandamenn koma ekki til með að fá sjónvarpið strax. En einmitt þetta dæmi sannar okkur, að þetta getur skapað óánægju, þegar svona stendur á. Þess vegna væri fróðlegt að fá um það upplýsingar, hvort hér er um fjárhagslegt eða tæknilegt atriði að ræða. Það eru allir orðnir sammála um og það er almenn skoðun, að frá beinu fjárhagssjónarmiði ber að hraða dreifingu sjónvarpsins um allt land, því að rekstrarkostnaður í sambandi við dagskrá sjónvarpsins hækkar ekkert, þótt sjónvarpsnotendum fjölgi, enda er það skoðun flestra, að með tilkomu sjónvarpsins út í dreifbýlið skapist fyrst jafnvægi í byggð landsins.