27.11.1968
Sameinað þing: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í D-deild Alþingistíðinda. (3658)

41. mál, heildarendurskoðun húsnæðismálalöggjafar

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Fyrir þessari fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 42 þarf ekki langa framsögu. Fsp. er á þessa leið:

„Hvað líður þeirri heildarendurskoðun húsnæðismálalöggjafar, sem húsnæðismálastjórn var falin í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstj. hinn 9. júlí 1965 um nokkra þætti þeirra mála?“

Eins og allir hv. alþm. muna, var svo um mælt í yfirlýsingum hæstv. ríkisstj., sem birt var 9. júlí 1965, að nokkrir þættir húsnæðismálanna yrðu teknir til endurskoðunar og húsnæðismálastjórn mun í framhaldi af þessu hafa verið falið að láta framkvæma þá skoðun, sem yrði þá heildarendurskoðun allra lagaákvæða um byggingarmál. Það er og mála sannast, að slíkrar endurskoðunar var full þörf. Tímarnir breytast og þá er ekki nema eðlilegt, að svo mikilvægur málaflokkur, sem er opinber aðstoð til að koma upp húsnæði, þurfi einnig að skoðast, án þess að mjög langt líði á milli, með því þá jafnframt, að opinber lagasetning um slíka aðstoð er tiltölulega ný hér á landi.

Það er margt, sem kemur til athugunar, þegar leiddur er hugurinn að því, sem helzt þarf að taka til athugunar í sambandi við slíka endurskoðun. Ég hygg, að það sé ekki ástæða til að nefna það allt hér, en mjög hefur þó verið á dagskrá t.d. framhald þeirra byggingarframkvæmda, sem farið hafa fram á vegum ríkisins í Breiðholti, sérstaklega þá, ef framhald verður á þeim byggingum, hvernig hugsað sé að afla fjármagns til þeirra bygginga, hvort ætlað sé að koma upp slíkum byggingum annars staðar en hér í Reykjavík o.s.frv. Þá er það kunnara, en rekja þurfi, hversu afgreiðslufrestur er orðinn óhæfilega langur á húsnæðislánum úr almenna veðlánakerfinu. Ég fer ekki nánar út í þetta. En með hlíðsjón af þessu er, að flestra dómi, vel ráðið, að hæstv. ríkisstj. skyldi vilja beita sér fyrir slíkri heildarendurskoðun húsnæðismálalöggjafarinnar. En það verður jafnframt að segja, að síðan 9. júlí 1965, í bráðum 31/2 ár, hefur næsta lítið af þessari endurskoðun spurzt. Satt að segja finnst mér, að þessi endurskoðun hafi helzt verið nefnd af hálfu hæstv. ráðh., þegar þeir hafa af einhverjum ástæðum viljað drepa á dreif till. stjórnarandstæðinga til úrbóta í þessum efnum. Þá hefur verið munað eftir því, að húsnæðismálalöggjöfin öll væri í heildarendurskoðun og þess vegna væri ekki hægt að taka einstaka þætti húsnæðismálanna fyrir og breyta lögum um þá. Þannig var t.d. í fyrra, að ég bar fram frv. um nokkrar breytingar á lögum um byggingarsamvinnufélög. En þau lög munu vera það eina, sem eftir stendur af upphaflegri löggjöf um opinbera aðstoð til bygginga í kaupstöðum. Þessi lög eru orðin gömul, þau eru orðin úrelt. Afleiðing af því er m.a. sú, að byggingarsamvinnufélögin hafa ekki getað gegnt því hlutverki, sem þeim var ætlað og þau eru alveg áreiðanlega mjög vel til fallin að gegna, ef sæmilega er að þeim búið, því að ég tel og það eru margir aðrir, sem telja það, að enn þá hafi a.m.k. ekki fundizt form, sem heppilegra sé til þess að aðstoða einstaklinga við að koma upp eigin húsnæði en sú leið, sem byggingarsamvinnufélögin benda á, þar sem saman fer framlag einstaklinganna og hin opinbera aðstoð, eins og þar er nánar skilgreint. Það vil ég líka gjarnan upplýsa, að þessu máli var ekki illa tekið. Því var heldur vel tekið af hv. stjórnarliðum í Ed., þar sem frv. var borið fram, en vegna margnefndrar heildarendurskoðunar á húsnæðismálalöggjöfinni þótti ekki fært að samþykkja frv., hvorki í þeirri mynd, sem ég bar það fram, né í neinni annarri mynd, sem hugsanlega hefði fallið hv. stjórnarliðum eitthvað betur í geð. Örlög þessa frv. urðu því þau, að því var vísað til hæstv. ríkisstj. og átti að koma þar sem einn af liðunum í þessari heildarendurskoðun. Og nú vil ég sem sagt ítreka þessa fsp. til hæstv. félmrh. og bið hann að svara því, hvað líði þessari heildarendurskoðun og hvort það megi ekki fara að búast við því, að einhver árangur af henni sjáist.