04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í D-deild Alþingistíðinda. (3701)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram sex fsp. til hæstv. fjmrh. um Vestfjarðaáætlun á þskj. 100.

Að undanförnu hefur margt verið rætt og ritað hér á landi um áætlanagerðir byggðaáætlanir og landshlutaáætlanir og fólk hefur bundið miklar og margvíslegar vonir við þær, eins og eðlilegt er og hefur áhuga á að fylgjast með gangi mála. Ástæðan fyrir þessum fsp. er sú, að með hina svokölluðu Vestfjarðaáætlun hefur verið pukrað, meira en góðu hófi gegnir. Þm. í stjórnarandstöðu hafa litið eða ekkert fengið að fylgjast með undirbúningi eða framkvæmd þessarar áætlunar. Í síðustu alþingiskosningum höfðu þm. viðreisnarinnar með sér gula bók á framboðsfundum, sem þeir veifuðu óspart og kölluðu Vestfjarðaáætlun. Þegar þeir voru spurðir, hvort leyfilegt væri að sjá þessa gulu bók, svöruðu þeir neitandi og þegar þeir voru gagnrýndir fyrir þessi vinnubrögð, svöruðu þeir aðeins: Sjáið, hvað við erum búnir að gera, byggja flugvelli, leggja vegi og reisa hafnarmannvirki. Þeir boðuðu þá aðra þætti Vestfjarðaáætlunar, eins og um atvinnumál, félagsmál og menningarmál og töluðu um, að tilbúin væri rammaáætlun um þessa þætti. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem hafa fjallað um Vestfjarðaáætlunina, eru hæstv. ríkisstj., ýmsir sérfræðingar, þm. stjórnarinnar og einstaka menn í ákveðnum stöðum. En þannig á vissulega ekki að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum heilla byggðarlaga. Auðvitað er sjálfsagt, að sem flestir fái tækifæri til að fjalla um slíkar till. og leggja eitthvað gott til málanna, því að hér er um að ræða sameiginlegt fjármagn frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, sem segja má, að öll þjóðin eigi.

Við vitum allir, hvernig Vestfjarðaáætlun var byggð í upphafi. Það voru fengnir hingað norskir sérfræðingar til þess að gera svokallaða rammaáætlun um, hvernig verkið væri bezt unnið. Og þeir bentu á, að hagkvæmast væri að hafa í Vestfjarðakjördæmi tvo byggðakjarna, þ.e. Ísafjörð og Patreksfjörð og koma góðu samgöngukerfi á milli þessara byggðakjarna. En ýmislegt virðist hafa verið í þessari rammaáætlun norsku sérfræðinganna, sem ekki hefur verið framkvæmt. Það var, eftir því sem heyrzt hefur, hugmynd þeirra, að skipað yrði heildarráð fyrir þennan landshluta, sem hefði náið samstarf við sérfræðinga og sveitarstjórnir og eftir að slíkt ráð væri komið á laggirnar, hlyti það sérstaka framkvæmdastjórn, sem ætti að sjá um allar væntanlegar framkvæmdir, en það var ábyggilega þeirra hugmynd, að sem flestir gætu kynnt sér væntanlegt verkefni, þannig að sem beztum árangri mætti ná.

Ég hef lagt fram nokkuð margar fsp. til hæstv. fjmrh., en sú fsp., sem hæst ber, er auðvitað fsp. um áætlanagerð um uppbyggingu atvinnulífsins á Vestfjörðum.

Allir vita, að á þessu ári hefur skapazt langvarandi atvinnuleysi í mörgum sjávarþorpum á Vestfjörðum vegna stöðvunar hraðfrystihúsanna, en þau eins og önnur atvinnufyrirtæki hefur skort rekstrarfé. Það er því brýnt verkefni, að þessum og öðrum atvinnufyrirtækjum verði strax skapaður öruggur rekstrargundvöllur og Vestfirðingum þar með tryggð eðlileg atvinna. Og með hliðsjón af síðustu gengisfellingu ætti þetta að takast, en þolir enga bið. Það er ekki lengra síðan en í gær, að við lásum í Vísi, að þýzkir skuttogarar, sem eru rétt fyrir utan Vestfirði, hafa haft ævintýralega veiði þar. En á sama tíma skeður það, að allt er hjá okkur í meira og minna lamasessi. Það er því kominn tími til, að við gerum raunhæfar aðgerðir og ég vil sérstaklega minna á, að Vestfirðingar hafa alltaf með sínum sjávarútvegi skilað þjóðarbúinu verðmætum í erlendum gjaldeyri, þrátt fyrir margvíslega örðugleika til sjósóknar. Þess vegna er heilbrigð uppbygging atvinnulífsins á Vestfjörðum á sinn hátt lyftistöng fyrir alla þjóðina.