11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3727)

267. mál, Fiskimálaráð

Fyrirspyrjandi (Jón Skaftason):

Herra forseti. Á þskj. 100 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um Fiskimálaráð. Fsp. þessi er í fjórum liðum og vil ég leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta.

A–liður er þannig:

„Hvaða till. og ábendingar hefur Fiskimálaráð, sem stofnað var með lögum nr. 35 1968, gert til ráðuneytis sjávarútvegsmála varðandi það alvarlega ástand, sem nú ríkir í sjávarútvegi og fiskiðnaði?

b. Hvað hefur Fiskimálaráð haldið marga fundi á starfstíma sínum?

c. Hvaða menn eiga sæti í Fiskimálaráði og fyrir hvaða aðila eða samtök?

d. Er ætlunin að hafa samráð við Fiskimálaráð um þá heildarstefnu, sem væntanlega verður mörkuð í sjávarútvegs– og fiskiðnaðarmálum, eftir að viðhlítandi ráðstafanir hafa verið gerðar, er tryggja þessum atvinnugreinum rekstrargrundvöll?“