11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3747)

270. mál, gengistap áburðarverksmiðju og áburðarverð

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, svo langt sem þau ná.

Við svar hans við fyrra liðnum hef ég engar aths. að gera, en það var aftur óljósara svarið við síðari liðnum. Í fyrsta lagi vil ég segja um það svar, að það hlýtur þó að vera augljóst, hvað áburðarverðið 1967 hækkaði vegna gengisbreytingarinnar, því að það er þekkt stærð og hefði verið auðvelt að reikna það út. Hins vegar má vera, að ekki liggi enn fyrir verð útreikningar fyrir næsta ár og þess vegna sé ekki svo auðvelt að reikna þetta út.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um skuld þá, sem var hjá Áburðareinkasölunni, þegar gengisbreytingin var gerð, vil ég leyfa mér að gera til hans viðbótarfsp., hvort það sé ekki rétt, að það hafi verið leitað til hæstv. ríkisstj. um möguleika á því að fá lán til þess að greiða þessa fjárhæð, áður en gengisbreytingin varð, því að hún mun hafa fallið í gjalddaga rétt eftir gengisbreytinguna og hvernig hafi þá staðið á því, að ríkisstj. gat ekki fengið lán hjá Seðlabankanum fyrir gengisbreytinguna eins og nokkrum dögum síðar. Er það ekki rétt, að það sé tekið fram af hálfu Seðlabankans og sé skilyrði fyrir láninu, að þessu verði dreift á áburðinn, en ekki greitt á annan hátt? Þetta langar mig að fá upplýst, vegna þess að svar hæstv. ráðh., sem kom að þessu, var mjög óljóst.