11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í D-deild Alþingistíðinda. (3762)

91. mál, ráðstafanir til að bæta úr rekstrarfjárþörf atvinnuveganna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra áhuga þessa hv. þm. fyrir lausn þess vandamáls, sem hér er um að ræða og það er því frekar ánægjulegt, sem hann er einn þeirra, er getur verulega stuðlað að því með skynsamlegri ályktunargerð í því fyrirtæki, sem hann stendur fyrir, að þessi miklu vandamál leysist, sem auðvitað varða fyrst og fremst okkar útflutningsviðskipti, eins og ég sagði áðan. En auðvitað varða þau einnig innlenda framleiðslu og þá ekki sízt iðnað, vegna þess að til þess að iðnaðurinn geti notið þeirra tækifæra, sem honum gefast nú í skjóli gengislækkunarinnar, er nauðsynlegt, að hann fái fjármagn til þess að geta eflt sína starfrækslu. Þetta er okkur öllum ljóst og mér er það því meiri ánægja að heyra um áhuga hv. þm., þar sem góð samvinna fjármálastofnana, Seðlabankans og bankanna er undirstaða þess, að lausn á þessum málum verði fundin.