12.12.1968
Sameinað þing: 27. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í D-deild Alþingistíðinda. (3778)

82. mál, olíumál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta þann misskilning, sem mér virðist koma fram hjá hæstv. ráðh., að því sölufyrirkomulagi á olíu, sem ég tók til samanburðar erlendis, sé ekki hægt að koma við hér á landi. Þetta er mesti misskilningur. Hér er ekki um meiri stórsölu að ræða en það, að sérhvert íslenzkt fiskiskip, sem kemur í þessar erlendu hafnir, — ekki aðeins eina höfn, heldur yfirleitt allar hafnirnar, sem þar er um að ræða, — getur fengið það venjulega magn, sem þau kaupa af olíu, á þessu verði. Og þau kaupa nákvæmlega sama magn úr olíukrönunum hjá olíufélögunum hér á landi og með sama hætti og erlendis, svo að hér er ekki um meiri eða öðruvísi stórsölu að ræða en svo. En hitt er svo annað mál, að það skipulag hefur verið hér á landi í mörg ár, að verðmunur á olíu til skipa hér og erlendis hefur verið miklu meiri, en verðmunur á húsaolíu eða olíu til húsakyndingar. Hér hefur farið fram ákveðin verðjöfnun eftir gamalli reglu olíufélaganna. En það er allt annað vandamál.

Það er líka misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þessi verðmunur í erlendu höfnunum til fiskiskipa og hér á landi stafi af verðjöfnunargjaldinu. Það er mikill misskilningur. Það stafar ekki af því. Víða erlendis á sér stað alveg hliðstætt verðjöfnunargjald og hjá okkur, en vitanlega nær sú verðjöfnun aðeins til skyldra greina, en er ekki milli alveg óskyldra greina, eins og á sér stað í gegnum það fyrirkomulag, sem olíufélögin hafa knúið fram hér á landi í mörg ár.

Ég vil svo aðeins segja, að ég hafði skrifað niður eftir hæstv. ráðh. úr hans upphaflega máli, að í till. þessarar n. væri að finna, að það ætti einungis að selja áfram til sömu olíufélaganna. Þau ættu að starfa áfram og reglur skyldu vera miðaðar við það, að aðeins þeim yrði seld olía, svo að það er auðvitað ekkert um það að villast, að þessar till. miðast við það að viðhalda einokunaraðstöðu þessara þriggja félaga. Þau þrjú eiga að mynda með sér nýtt félag til að hagræða eitthvað sín á milli, en að öðru leyti er gert ráð fyrir því í till., eins og ráðh. las þær upp, að það skuli aðeins selt til þeirra og þau síðan selja til annarra notenda í landinu, svo að það er auðvitað ekkert um það að villast, að þarna er verið að gera ráð fyrir því að viðhalda einokunaraðstöðu þeirra.

Þá kom ráðh. með það, að ég hefði átt sæti í ríkisstj. og þá ekki komið fram stefnu míns flokks í þeim efnum að koma hér á ríkisverzlun með olíu. Hann hlýtur að muna það mætavel, að ég lagði fram í þeirri ríkisstj. frv., sem ég hafði flutt hér og hef verið að flytja hér á undanförnum árum um það, að tekinn yrði upp sá háttur að koma hér á Olíuverzlun ríkisins. Það er rétt, það fékkst ekki samstaða um það í þeirri ríkisstj. Þar með náði það ekki fram að ganga. Ég hef aldrei ásakað hæstv. ráðh. fyrir það, að hann skuli ekki á undanförnum árum hafa getað beygt Sjálfstfl. í þessum efnum. En ég hef fulla ástæðu til að halda, að það sé þegar orðin meirihlutaaðstaða á Alþ. til þess að koma þessari skipan á og þar sem till. liggur fyrir um að koma þessu skipulagi á og yfirlýsingar eru bæði frá mínum flokki og flokki hæstv. ráðh. um skýra afstöðu í málinu, þá eigum við að láta reyna á það, hvort það er ekki þegar komin upp aðstaða hér á þingi til þess að fá þetta skipulag viðurkennt og þá þarf ekki að fara þessa undarlegu krókaleið, sem þarna er verið að leggja til af þessari n. olíufélaganna, vil ég segja, sem þarna var á ferðinni. Mér sýnist, að hennar till. leysi lítið annað en að hagræða einhverjum málum fyrir olíufélögin sjálf.