19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í D-deild Alþingistíðinda. (3860)

277. mál, stækkun áburðarverksmiðjunnar

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. svörin. Við viljum allir stuðla að auknum íslenzkum iðnaði og allra helzt þeim, sem er líklegur til að auka aðrar greinar innlendrar framleiðslu og gera þær hagkvæmar. En til þess er ódýr innlend áburðarframleiðsla einmitt líkleg, en leggja verður áherzlu á það, m.a. vegna fenginnar reynslu, að með stækkun Áburðarverksmiðjunnar, þannig að hún fullnægi eða meira en það innlendum þörfum, eru bændur bundnir við að nota framleiðslu hennar og verða að sæta því verði og gæðum, sem hún getur boðið hverju sinni.

Áburðarverksmiðjan hlýtur alltaf að byggjast að mestu leyti eða framleiðsla hennar á innlendum markaði. Það getur oft hent, að við verðum að styrkja ýmsa innlenda framleiðslu, sem ekki stenzt samkeppni við samsvarandi erlenda framleiðslu og það getur vissulega verið þjóðhagslega rétt, en það verður ætíð að gæta þess, að þessi stuðningur við innlenda iðnaðarframleiðslu verði ekki kallaður stuðningur við landbúnaðarframleiðslu.

Landbúnaðurinn stendur í samkeppni við erlenda landbúnaðarframleiðslu, sem býr við miklu ódýrari rekstrarvörur, t.d. áburð og svo hefur verið lengi. Það kom t.d. í ljós í athugunum, sem landbrn. gerði á aðstöðu landbúnaðar hér og í nokkrum nágrannalöndum, að þar var áburðurinn einn af þeim rekstrarliðum, sem var miklu hærri hér, en annars staðar. Og við vitum allir, að landbúnaðurinn hefur víða undir bögg að sækja. Það er því raunar réttlætiskrafa, að áburður verði aldrei seldur hér hærra verði, en innfluttur áburður fæst ódýrastur.

Þá vil ég vekja athygli á því, hve miklu það munar og hve miklu skiptir fyrir rekstrarafkomu búanna, að áburðarverðið sé ekki hátt. Hann er annar stærsti liðurinn í rekstrarvörum búsins, sem er eftir niðurstöðum 61 búreiknings frá árinu 1967 17,12% af útlögðum rekstrarkostnaði, en snöggtum meira mundi þetta vera eftir gengisfellinguna, sem var í fyrra. Og hvað verður nú á næsta ári? Freistandi væri að bæta við þeirri spurningu til hæstv. landbrh., hvað áburðarverðið muni hækka mikið í vor og hvaða líkur hann telji á því, að hægt verði að gera bændum kleift að leysa áburðinn út í vor, án þess að þeir eigi á hættu að fá tvær gengisfellingar á sama áburð, eins og raunar gerðist með áburðarkaup síðasta árs, eins og mönnum er kunnugt um.

Það skiptir svo auðvitað neytendur mjög miklu máli, hvert áburðarverðið er, þar sem hann er svo stór liður í rekstrarvörum búanna og kemur þar fram í verðlaginu. Einnig má segja, að það skipti atvinnurekendur þar með miklu máli, þar sem þetta hefur svo mikil áhrif á verðlag í landinu. Og það skiptir ekki aðeins miklu máli, hvert áburðarverðið er og hve hár liður hann er í útgjöldum búsins. Það hefur líka áhrif á það, að hve miklu leyti landbúnaðarframleiðslan er innlend, því að hátt verð á áburði dregur úr framleiðslu heimaaflaðs fóðurs, en eykur þátt erlends fóðurbætis í framleiðslunni. Ég vil mega benda á, að áburðurinn er einn stærsti liðurinn í hinni mikilvægu framleiðslu, þar sem landbúnaðarvörurnar eru og ef hægt er að hafa þann lið sem lægstan, sparar það mikinn vaxtakostnað allt að því í 11/2 ár t.d. hvað viðkemur sauðfjárafurðum og því má benda á með rökum, að mikið má til þess vinna að gera hann sem lægstan, t.d. með niðurgreiðslu.

Ég vil svo aftur þakka ráðh. fyrir svörin.