09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

183. mál, útbreiðsla sjónvarps

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það og taka skýrt fram, eins og öllum eldri þm. er kunnugt, að með dreifingu sjónvarps í alla landshluta hefur ávallt frá byrjun verið átt við það, að aðalstöðvum í landshlutunum yrði komið á fót og með landshlutunum er þá átt við landsfjórðungana fjóra og auk þess nokkrum helztu aðalstöðvum samkvæmt nánar gerðri áætlun. Sú áætlun hefur legið fyrir. Allir þm. hafa haft aðgang að henni og átt þess kost að sjá hana og þeir, sem bera hana saman við það, sem nú hefur verið ákveðið fyrir árið 1969, munu sjá, að eftir henni er nákvæmlega farið í öllum aðalatriðum. Hitt hef ég aldrei sagt og enginn forráðamaður íslenzks sjónvarps, að orðið landshluti þýddi í því sambandi hvert einstakt hérað eða hver einstök sveit í hverjum einstökum landsfjórðungi. Það hefur aldrei verið sagt af hálfu ríkisstj. eða sjónvarps í þessum málum.