09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í D-deild Alþingistíðinda. (3892)

278. mál, félagsheimilasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna tvenns. Annars vegar vegna þess, að það kann vel að vera mín sök, að tölur skolast til hjá hv. þm. varðandi væntanleg útgjöld félagsheimilasjóðs, ef hann ætti að greiða 40% byggingarkostnaðar þeirra bygginga, sem nú eru í byggingu og 40% þess, sem kostar að fullgera byggingarnar. En tölurnar eru svona í heild, svo að ekki fari á milli mála um, hvað rétt er í þessu, en ég held, að það sé öllum þjónað með því að vita um þetta nákvæmlega réttar tölur. Ef gert er ráð fyrir 40% greiðslukostnaðar af þeim kostnaði, sem þegar er á fallinn vegna þeirra 73 bygginga, sem nú eru í smíðum, eru það 99 millj. kr., þ.e.a.s., ef menn vilja láta félagsheimilasjóð borga 40% þess, sem þegar er búið að leggja í öll félagsheimili, sem nú eru í smíðum, eru það 99 millj. kr. Ef tekið er tillit til þess, sem þegar er búið að borga upp í þetta, verða afgangs 46.7 millj. kr. m.ö.o., ef menn vilja tala um vangreiðslu í þessu sambandi, sem ég tek ekki undir og það þarf ekki að skýra frekar, nemur vangreiðsla af þessari upphæð 46.7 millj. kr. — Nei, nú bið ég afsökunar. Ég hef eflaust ruglað hv. þm. á þessu og þeim mun nauðsynlegra var, að ég kæmi með réttar tölur í því sambandi vegna þess að þetta er uppstillt hér fyrir mér. Það, sem er þegar búið að greiða upp í þessar 99 millj., eru 46.7 millj. Það, sem þegar er búið að greiða upp í þessar 99, eru 46.7. Okkur er öllum þjónað með því að hafa það, sem rétt er í málinu. Eftir er því að greiða miðað við 40% þátttöku 52.3 millj. kr. Þetta er eftir af því, sem þegar er búið að festa í húsunum. Við þetta þarf síðan að bæta hugsanlegum 40% af því, sem eftir er, miðað við núverandi byggingarkostnað, en það eru 68 millj. kr. og summan af þessu tvennu, 52 og 68, er talan, sem nefnd er réttilega, 120 millj. kr. Það mundi verða hlutur félagsheimilasjóðs í byggingu þessara húsa, því, sem búið er að byggja og því sem eftir er að byggja, miðað við 40% greiðslu. Þess vegna er þetta sú tala, sem ég ávallt miða við, þegar ég ræði við mína kollega og við bankakerfið um fjárþörf félagsheimilasjóðs. Ég tel hana núna í dag vera 120 millj. kr., sumpart vegna þess, sem búið er, sumpart vegna þess, sem væntanlegt er og nú vona ég, að ekkert fari á milli mála um þetta efni og bið afsökunar á því, ef ég hef látið þá uppsetningu, sem hér er fyrir framan mig, villa mig í svari mínu áðan.

Svo að síðustu varðandi frv., sem hv. þm. talaði um, að rætt hefði verið um að flytja hér á sínum tíma, þá var það einmitt frv. um útgáfu ríkisskuldabréfa, sem bankakerfið skyldi kaupa eftir ákveðnum reglum. Félagsheimilasjóður getur ekki gefið út skuldabréf og ríkissjóður getur ekki ábyrgzt skuldabréf, nema samkv. sérstökum lögum og þess vegna var það kjarni þess frv., sem í nokkur ár var á döfinni í ríkisstj. og ég hygg, að þingflokkarnir hafi fengið meiri og minni kynni af. Auk þess var í þessu frv. gert ráð fyrir því, að viss hluti tekna félagsheimilasjóðs, 10% skyldi ganga til styrktar menningarstarfsemi í félagsheimilunum og mundu það vera núna, miðað við núv. tekjur, um 800 þús. kr. En ástæðan til þess, að þetta frv. var aldrei flutt, var sú, að ekki tókst að ná nauðsynlegum samningum við bankakerfið um kaup á skuldabréfunum, vegna þess að það er auðvitað þýðingarlaust að hafa lagabókstaf, sem heimilar útgáfu skuldabréfa, sem ekki hefur þegar verið tryggð sala á. Með því móti hefði enn verra verið gert, en gert var fyrir 25 árum, þegar lögin frá 1947 voru samþ. með 40% styrktarheimildarákvæðinu, sem á sama degi og lögin voru samþ., var augljóst, að ekki mundi vera hægt að standa við á næstu árum og næstu áratugum.