09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í D-deild Alþingistíðinda. (3893)

278. mál, félagsheimilasjóður

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að brýna nauðsyn beri til þess að bæta úr þeirri fjárþröng, sem félagsheimilasjóður hefur um langt skeið verið í og afla honum aukinna fjármuna. Það hafa verið uppi raddir um þetta öðru hverju hér á hv. Alþ. og fyrir nokkrum árum fékk hæstv. menntmrh. menn til aðstoðar við sig í leit að leiðum til þess að afla nýrra tekjustofna fyrir félagsheimilasjóð. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að þá kom fyrst og fremst til orða, að félagsheimilasjóður fengi heimild til þess að gefa út ríkistryggð skuldabréf, sem bankakerfið síðan keypti. Um þetta náðist því miður ekki samkomulag. Ég tel, að þetta hefði verið æskileg leið, ef hún hefði verið framkvæmanleg.

Ég vil í þessu sambandi minna á, að ég hef oftlega og einmitt í sambandi við þá endurskoðun, sem hæstv. menntmrh. vildi beita sér fyrir á lögum um skemmtanaskatt og félagsheimilasjóð, bent á annan tekjustofn í framhaldi af þessum, tekjustofn, sem er mjög eðlilegur. Eins og hv. þm. vita er það þannig, að aðeins nokkur hluti kvikmyndahúsarekstrar í landinu greiðir skemmtanaskatt, sem síðan rennur í félagsheimilasjóð. Ég hygg, að það muni vera um það bil helmingur af kvikmyndahúsarekstri í landinu, sem er skattskyldur. Með því að gera allan kvikmyndahúsarekstur skattskyldan, mundi vera hægt að afla félagsheimilasjóði nokkurra millj. kr. viðbótartekna á ári. Þetta hefur hvorki hv. Alþ. hæstv. menntmrh. ennþá viljað fallast á. Ég er reiðubúinn til samvinnu enn sem fyrr við hæstv. menntmrh. um þetta og legg eindregið til að allur kvikmyndahúsarekstur í landinu verði látinn greiða skemmtanaskatt, sem síðan renni til félagsheimilasjóðs.

Eins og hv. þm. vita, er það þannig að kvikmyndahús, sem rekin eru af einstaklingum eða hlutafélögum, greiða fullan skemmtanaskatt. Hins vegar eru kvikmyndahús, sem rekin eru af ýmsum félögum, sem talin eru menningarfélög og ennfremur kvikmyndahús, sem rekin eru af bæjarfélögum, háskólanum og fleiri aðilum, ekki skyld til þess að greiða þennan skatt. Ég tel þetta mjög miður farið. Að vísu má segja, að þessi skattfrjálsi kvikmyndahúsarekstur standi undir gagnlegum fyrirtækjum og miði að menningarlegri starfsemi í landinu. En hingað til hefur kvikmyndahúsarekstur verið talinn það ábatasamur, að hann ætti að geta verið rekinn af hinu opinbera og ýmsum menningarfélögum, ekki síður en einstaklingum, með allgóðum ábata án þess að njóta slíkra skattfríðinda.

Þetta vil ég benda á enn einu sinni og að lokum ítreka, að ég tel brýna nauðsyn bera til þess, að haldið verði áfram að efla félagsheimilasjóð og styðja þar með þá merkilegu starfsemi, sem hann hefur eflt, þ.e. að koma upp góðum samkomuhúsum og félagsheimilum víðs vegar um landið. Starfsemi og rekstur félagsheimila má að vísu gagnrýna eins og flest í mannlegu samfélagi. Félagsheimilin hafa jafnvel verið talin uppspretta alls konar siðspillingar og hálfgerðar Sódómur og Gómorrur. En ég fæ ekki á það fallizt, þó að félagslíf og skemmtanalíf í þessu landi mætti vera með menningarlegri blæ, en það er, að það sé ómenningarlegra í hinum nýju og glæsilegu félagsheimilum víðs vegar úti um land, en í hinum stærstu veitingahúsum og samkomuhúsum í hinu mesta þéttbýli og þá fyrst og fremst hér í Reykjavík. En það er eins og sumir menn haldi, að öll spilling sé upprunnin í þessum blessuðum félagsheimilum. Ég held, að þetta sé hin mesta fjarstæða og hafi við engin rök að styðjast. Ég þekki ósköp vel, hvernig félagslífið var í einstökum byggðarlögum í hinum gömlu og hrörlegu kumböldum, sem áttu að heita samkomuhús fólksins fyrir nokkrum áratugum. Sannleikurinn er sá, að með nýju félagsheimilunum varð allt annar og menningarlegri svipur á öllu samkomuhaldi almennings, þar sem félagsheimilin hafa risið upp. Ég vil því eindregið skora á hæstv. menntmrh., sem ég veit, að hefur áhuga fyrir umbótum í þessum efnum, að halda viðleitni sinni áfram og ég er viss um, að hann nýtur til þess ekki aðeins stuðnings okkar í stjórnarflokkunum, heldur fjölmargra góðra manna úr öllum flokkum bæði hér á þingi og utan þings.