09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í D-deild Alþingistíðinda. (3894)

278. mál, félagsheimilasjóður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þekki bæði áhuga hv. síðasta ræðumanns á málefnum félagsheimilanna frá fyrstu tíð og ennfremur þessa till. hans, sem hann lýsti, um lausn á vandamálum félagsheimilasjóðsins. Á því er enginn efi, að ef það væri gert, sem hann greindi frá og hefur margoft stungið upp á, á undanförnum árum, þá væru fjármál félagsheimilasjóðs leyst að mjög verulegu leyti eða a.m.k. mundi það auðvelda lausn vandamálanna alveg stórkostlega. En alltaf hefur farið svo, er á hefur reynt og þessi hugmynd hefur verið rædd í alvöru, að hún hefur ekki reynzt eiga fylgi á hinu háa Alþ. eða réttara sagt í þeim flokkum, sem hér skipa sess. Á það hefur að vísu aldrei reynt í opinberri atkvgr., en málefni félagsheimilasjóðs, og þar á meðal þessi hugmynd hv. þm., hafa svo oft verið rædd í öllum stjórnmálaflokkum þingsins, að í ljós hefur komið að þær eiga ekki fylgi. Og skýringin á því er ofur einföld. Hún er sú, að þær stofnanir eða þau kvikmyndahús, sem nú njóta skattfrelsis, eru allar reknar af menningarstofnunum eða heilbrigðisstofnunum, sem nota fé sitt þannig, að ef þær verða sviptar þessum tekjustofni, yrði ríkið að hlaupa undir bagga með mjög svipaða fjárhæð. Til þess að hv. þm. geri sér grein fyrir, um hvaða stofnanir hér er að ræða, skal ég nefna þær. Ég vona, að ég gleymi engri.

Það er fyrst og fremst háskólinn, sem er fyrsta stofnunin, sem fékk sér dæmd í hæstarétti þau hlunnindi að þurfa ekki að greiða skemmtanaskatt. Ég hygg, að þær raddir mundu verða uppi, ef háskólinn yrði sviptur þessum hlunnindum sínum, að það yrði að auka tekjur hans úr ríkissjóði, sem því nemur.

Í öðru lagi er um að ræða Dvalarheimili aldraðra sjómanna, sem rekur kvikmyndahús og notar tekjurnar til byggingar Dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

Í þriðja lagi er hér í Reykjavík um að ræða Tónabíó, þ.e. kvikmyndahús, sem Tónlistarfélagið rekur og notar allar tekjurnar til rekstrar Tónlistarskólans og lítill vafi er á því að óskir mundu verða uppi um það, að það yrði að bæta Tónlistarskólanum það tekjutjón, sem hann yrði fyrir, ef bann yrði sviptur þessum hlunnindum.

Þá ganga tekjur af kvikmyndahúsinu á Akranesi til sjúkrahússins þar. Tekjur af kvikmyndahúsi í Hafnarfirði ganga til elliheimilisins þar og tekjur af kvikmyndahúsi á Akureyri ganga til Góðtemplarareglunnar á Akureyri. Þetta eru þau sex kvikmyndahús, sem ég man í fljótu bragði eftir, að þessara tollfríðinda njóti, svo að ég geri ráð fyrir því, að í aðalatriðum mundi þessi till. jafngilda því, að ríkissjóður yki framlag sitt til þessara stofnana um nokkurn veginn sömu fjárhæð og félagsheimilasjóður fengi vegna þessarar lagabreytingar, sem hér yrði nauðsynleg.

Og þá má varpa fram þeirri spurningu: Því styrkir ríkissjóður félagsheimilasjóðinn ekki beint? En það strandar náttúrlega á þeim venjulegu og eðlilegu erfiðleikum, sem á ári hverju eru á því að koma heilbrigðum fjárl. heim og saman. Um hitt er ég alveg sammála hv. þm. og get raunar notað þetta tækifæri til þess að undirstrika þá skoðun alveg sérstaklega, að undantekningar í málum eins og þessum eru mjög varhugaverðar. Hér reið háskólinn á vaðið á grundvelli gamals lagaákvæðis, sem hæstiréttur túlkaði þannig, að það þýddi, að kvikmyndahús, sem háskólinn ræki, þyrfti ekki að greiða skemmtanaskatt. Þegar sá dómur var fallinn, leið ekki á löngu þar til önnur bíó sigldu í kjölfarið og í kjölfar þess komu öll hin, DAS, Tónlistarfélagið, Bæjarbíó í Hafnarfirði, Bæjarbíó á Akranesi og bíóið á Akureyri. Ef í upphafi hefði verið sett sú regla, að undanþágur væru háðar því skilyrði, að kvikmyndahúsin skiluðu eigendum sínum jafnmiklu og þau spara í skemmtanaskatti vegna undanþágunnar, þá mætti segja, að nokkurt vit hefði verið í þessu. En þetta befur ekki átt sér stað.

Það er því miður þá sögu að segja á undanförnum árum um mörg þessara kvikmyndahúsa og þá sögu er enn að segja um mörg þeirra, að þau skila eigendum sínum ekki þeim tekjum, sem svara þeim skemmtanaskatti, sem þau hefðu átt að greiða. Sumpart á þetta rót sína að rekja til þess, að m.a. í skjóli þessarar undanþáguheimildar fjölgaði kvikmyndahúsum með alveg óeðlilegum hætti og á allra síðustu árum á sjónvarpið sinn þátt í því, að aðsókn að kvikmyndahúsum hefur minnkað mjög mikið og þannig hafa tekjur þeirra rýrnað alveg stórkostlega. Og sannleikurinn er sá um afkomu kvikmyndahúsanna, að hún er mjög léleg. Hún hefur á undanförnum árum, hér í höfuðstaðnum a.m.k., verið mjög léleg, þannig að kvikmyndahúsarekstur er ekki lengur sá gróðavegur, sem hann áður var og á því er ekki nokkur vafi, að ef skemmtanaskattshlunnindi kvikmyndahúsanna yrðu afnumin, eins og hv. þm. leggur enn til, mundi það hafa í för með sér, að nokkrum kvikmyndahúsum í Reykjavík yrði lokað. Ég segi auðvitað ekki hverjum og ég segi ekki einu, heldur nokkrum húsum hér í Reykjavík yrði beinlínis lokað. Ég segi ekki, að þetta yrði nein goðgá. Ég held þvert á móti, að kvikmyndahús hér í Reykjavík séu of mörg, miðað við þá víðtæku sjónvarpsþjónustu, sem við höfum. En menn verða að gera sér grein afleiðinga þeirra ráðstafana, sem þeir gera og ég er sannfærður um, að ein af afleiðingum þeirra ráðstafana, sem hv. þm. stingur enn upp á, — ég veit, að hann gerir það af góðum hug til félagsheimilanna, — mundi verða fækkun kvikmyndahúsa í Reykjavík. Það má vel segja, að sú þróun sé æskileg, en hvort æskilegt er að gera hana á þann hátt að knýja þau til þvílíks taprekstrar, sem leiddi til lokunar, er svo annað mál. Það er ekki alveg víst, að hús í þeim bæjarhlutum lokuðu, sem bæjarbúar gætu helzt verið án, því að kvikmyndahúsaþjónusta er einu sinni þannig, að eitt atriði af þeirri starfrækslu, sem sérhvert bæjarfélag þarf að skipuleggja, er að veita fólki í hinum ýmsu bæjarhlutum skilyrði til svipaðs aðgangs að þeirri þjónustu, sem kvikmyndahúsin á annað borð veita. Þetta segi ég aðeins til þess að benda á og undirstrika, að mál þetta allt er mjög flókið í eðli sínu. En ég skal gjarnan verða við þeirri áskorun hv. þm. og raunar fyrirspyrjanda líka að halda áfram athugunum á málinu, þó að ég játi gjarnan, að reynslan af fyrri viðleitni í þá átt að leysa þennan vanda sé ekki allt of góð og gefi ekki allt of mikið tilefni til bjartsýni.