09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

278. mál, félagsheimilasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér hafa farið fram býsna fróðlegar umr. um þetta mál. Þó að svo sé ástatt um þetta mál, að það hafi verið hér á dagskrá á hverju ári — ég veit nú ekki hve mörg ár, en varla minna en svona 6 – 8 ár. Það líður ekkert einasta þing svo, að ekki sé lögð fram fsp. til hæstv. ráðh. um það, hvað ætlað sé að gera í þessu mikla vandamáli varðandi fjárgreiðslur úr félagsheimilasjóði. Og jafnan kemur hæstv. ráðh. og les upp margar og miklar tölur um það, hvað skuldir sjóðsins séu raunverulega gífurlega miklar og þá er gengið út frá því, að hann muni greiða um 40% af stofnkostnaði félagsheimilanna, þ.e. til þeirra, sem ekki hafa verið byggð að fullu eða ekki hafa fengið greiðslu að fullu eins og til hinna, sem þegar hafa fengið sína greiðslu að fullu. Og svo kemur gjarnan upp hjá hæstv. ráðh. og öðrum, að hér sé um gífurlegt vandamál að ræða, alveg ískyggilegan vanda. Þetta er endurtekið ár eftir ár og alltaf stöndum við í sama farinu. Ég hef svo viðhaft við afgreiðslu fjárlaga, — mér liggur við að segja svo lengi sem ég man eftir, — að flytja till. um að hækka óverulegt framlag til félagsheimilasjóðs á fjárl., en alltaf er sú till. drepin. Það er engin leið að hækka þennan óverulega styrk til sjóðsins, sem raunverulega hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Og svo segir hæstv. ráðh. okkur, að í öllum þessum mikla vanda hafi hann m.a. látið sér til hugar koma, að félagsheimilasjóður gæti gefið út ríkisskuldabréf, ríkistryggð bréf og síðan yrði reynt að fá bankana til þess að breyta þessum bréfum í peninga, svo að félagsheimilin gætu fengið sitt framlag. En þrátt fyrir góðan vilja og fullan skilning hæstv. ráðh., sem jafnframt er bankamálaráðh., hefur hann ekki komizt ögn áfram á þessari braut. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðh. gæti ekki eitthvað komizt áleiðis í þessum efnum, jafnvel þó að hann fengi ekki bankana til þess að leysa út alla upphæðina á einu ári. Ég trúi því ekki. Ef hann hefur þá í raun og veru gert sér grein fyrir því, hvers konar vandi hér er á ferðum. Það er ekki hægt að skilja þennan sjóð eftir, fremur en aðra svona gersamlega í vanskilum, eins og hann er, því að ég fullyrði, að það er ekki um neinn annan sjóð að ræða, sem er neitt viðlíka eins illa settur og þessi.

Svo koma auðvitað út úr öllum vandræðunum menn með hinar furðulegustu till. um það, hvernig skuli afla fjár í þennan sjóð. Einn leggur til að fara að skattleggja með óbeinum hætti ýmiss konar mannúðarfélög, sem halda uppi sjúkrahúsarekstri eða öðru slíku. Annar kemur auðvitað með bjórskatt og sá þriðji finnur það snjallræði upp, að það megi bara leggja skemmtanaskatt á félagsheimilin sjálf og drýgja þannig tekjurnar. Það er sem sagt gamla sagan með rófuna, — að höggva hana af og gefa hana dýrinu sjálfu að éta, — ég held, að þessar till. allar komi að litlu gagni, þær leysi lítinn vanda. (Gripið fram í: Þetta er ekki þín till.) Nei, það er ekki mín till. Ég legg það til, að við greiðum af ríkisheildinni. Ég vil ekki kalla ríkisheildina rófuna, en ég legg til, að við sinnum þessu nauðsynjamáli eins og öðrum og verjum eðlilegum hluta af ríkisfjármunum, til þess að þessi sjóður geti staðið við sínar skuldbindingar eins og aðrir, en sé ekki svona hraklega settur eins og hann er. Og ég vil svo að endingu vænta þess, að þessar umr. verði til þess, að hæstv. ráðh. geri þær ráðstafanir í þessum efnum, sem verði a.m.k. til þess, að ekki sé ástæða til að endurtaka þessar umr. um sama málið aftur á næsta þingi.