16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í D-deild Alþingistíðinda. (3929)

282. mál, málefni iðnnema

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin, svo langt sem þau náðu.

Það mátti heyra, að nemendur Iðnskólans áttu erfitt með að taka hæstv. ráðh. alvarlega, þegar hann reyndi að koma fram í gervi byltingamanns í iðnfræðslumálum, enda hygg ég, að stjórn hans á þeim málum verði ekki líkt við neitt slíkt. Hitt er svo annað mál, að þau sjónarmið, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir um það, hvernig haga ætti iðnkennslu og hvaða stefna mótaði iðnfræðslulögin, eru algerlega rétt. Hins vegar hefur mikið á það skort, að hæstv. ráðh. tryggði þá framkvæmd laganna, sem nauðsynleg hefði verið og rakti ég mörg dæmi um það í frumræðu minni áðan og mörg þau atriði hafa einnig verið rakin í samþykktum iðnnemanna. Verknámsdeildir, sem komið hefur verið upp við Landssmiðjuna, eru mjög hæpið fyrirkomulag, svo að vægilega sé til orða tekið, bæði fyrir verknámið sjálft og fyrir Landssmiðjuna. Það var ákaflega hæpin ráðstöfun að taka Landssmiðjuna til þessara nota í stað þess að leggja fjármuni í að fullgera fokhelda byggingu, sem stóð við hliðina á Iðnskólanum og var ætluð til þessara þarfa.

En ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um iðnnám á þeim 5 mínútum, sem ég hef hér til umráða, en langaði til að gera örlitla aths. við svör hæstv. ráðh. við þeim fsp., sem ég bar fram um atvinnuleysi iðnnema. Þar fór hæstv. ráðh. eins og köttur í kringum heitan graut af mikilli fimi um skeið. Hann hélt því lengi vel fram, að hann hefði ekki haft nokkra hugmynd um, að til væri atvinnuleysi í hópi iðnnema, vegna þess að engin formleg kvörtun hefði borizt, hvorki til hans rn. né til iðnfræðsluráðs. Síðan virtist ráðh. minnast þess, að ég las hér áðan bréf, sem hæstv. ráðh. var sent í febrúarmánuði frá stjórn Iðnnemasambands Íslands, þar sem hæstv. ráðh. var greint frá staðreyndum um þetta efni og hæstv. ráðh. var beðinn um viðtal. En hæstv. ráðh. gerði ekki annað en það, að hann spurði starfsmenn á skrifstofu sinni: Er nokkur formlega kæra frá einhverjum iðnnema hérna? Og hann spurði Iðnfræðsluráð um það sama: Er nokkur formleg kæra frá einhverjum iðnnema? Vegna þess að þessa formlegu kæru vantaði, svaraði hæstv. ráðh. ekki einu sinni þessu bréfi frá stjórn Iðnnemasambandsins.

Margar ástæður geta legið til þess, að iðnnemar séu tregir til að senda formlegar kærur á atvinnurekendur sína eða meistara. Hæstv. ráðh. sagði áðan, eins og rétt er, að það geti verið býsna mikið viðkvæmnismál, t.d. á litlum vinnustöðum, að iðnnemar þurfi að standa í málaferlum við þá menn, sem þeir eiga sambýli við í 3 — 4 ár á eftir. Og það er talsvert viðurhluta mikið fyrir ungan námsmann að fara að ráða sér lögfræðing og standa í málaferlum út af svo sjálfsögðum hlut sem þeim, að staðið sé við gerða samninga. Þegar hæstv. ráðh. barst þetta bréf eða þessi tvö bréf réttara sagt frá stjórn Iðnnemasambandsins þess efnis, að veruleg brögð væru að því, að iðnnemar væru atvinnulausir, þá bar honum að sjálfsögðu skylda til að kynna sér þetta mál til hlítar og beita rn. sínu til úrbóta. Hann átti ekki að bíða eftir einhverri formlegri kæru. Hann hafði alveg nægilega vitneskju í höndum með þessum bréfum frá stjórn Iðnnemasambandsins. Raunar fékk ég ekki betur heyrt, en hæstv. ráðh. væri jafnvel að tæpa á afsökunum fyrir því, að samningar væru brotnir á iðnnemum. Hann talaði um, að það væru til samningar, sem gerðir hefðu verið til málamynda og hann talaði um, að þess mundu hafa verið dæmi, að iðnnemar hefðu fengið hærra kaup, en þeim ætti að vera tryggt samkv. samningum og þess vegna væri ekki hægt að tala um brot á samningi. En þetta er alger fjarstæða. Auðvitað eru mörg dæmi um það, að iðnnemar hafa fengið hærra kaup, en gert er ráð fyrir í hinum almennu reglum. Hinar almennu reglur eru aðeins lágmarksákvæði, alveg eins og venjulegir kauptaxtar verkamanna. Þó að mönnum hafi verið greiddar yfirborganir umfram þennan lágmarkstaxta, þá skerðir það að sjálfsögðu ekki rétt þeirra á nokkurn hátt, engu frekar en það skerðir rétt verkamanna almennt, þótt þeir hafi fengið yfirborganir um eitthvert skeið. Ef þetta sjónarmið er ríkjandi hjá hæstv. ráðh., að hægt sé að brjóta samninga á iðnnemum á slíkum forsendum, þá skil ég betur aðgerðaleysi hans í þessu máli.

Ég get skýrt hæstv. ráðh. frá því, að ég er með hér fyrir framan mig lista yfir 25 menn af þeim, sem skráðir voru atvinnulausir á 4 kvöldum í vetur. Þennan lista hefði hæstv. ráðh. fengið í hendur og allar staðreyndir um hann, ef hann hefði svarað bréfum iðnnemanna. Ég skal lofa hæstv. ráðh. að heyra nokkur dæmi:

1. Iðnnemi, atvinnulaus síðan um miðjan desember, mjög slæmt ástand.

2. Iðnnemi, atvinnulaus síðan um miðjan febr., kona, tvö börn, ekki líkur á, að úr rætist.

3. Iðnnemi, vinnulaus síðan 20. des., trúlofaður og unnusta vanfær.

4. Iðnnemi, atvinnulaus síðan um áramót, kona og eitt barn.

5. Iðnnemi hefur lokið tíma, en er ekki búinn með 4. bekk iðnskóla, vegna þess að meistari sótti ekki um. Kona og tvö börn.

6. Iðnnemi, atvinnulaus síðan 27. jan., kona og 6 börn, mjög slæmt ástand.

Ég get haldið áfram að lesa fyrir hæstv. ráðh., en hitt held ég, að væri þarflegra, að hann tæki upp önnur vinnubrögð og hæfi eðlilega samvinnu við stjórn Iðnnemasambandsins um tafarlausar úrbætur til að leysa þessi mál umsvifalaust.

Hæstv. ráðh. sagði áðan, að það ætti að standa við gerða samninga og þessi fsp. mín var flutt til þess að tryggja, að það væri gert á þessu sviði. Ég hef engan áhuga á því að standa hér í einhverju pólitísku karpi við hæstv. ráðh. út af þessu máli. Það er þess eðlis, að hver grandvar ráðh. á að líta áþað sem skyldu sína að leysa það án tafar. Og það getur hæstv. ráðh. gert. Það er á valdi hans og það ber honum að gera.