23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í D-deild Alþingistíðinda. (3962)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 6. þm. Reykv., hefur á þessu þingi látið allmjög að sér kveða í umr. og með málatilbúnaði. Hann mun vera höfundur þess nýmælis, sem hér hefur verið tekið upp í all auknu mæli núna síðustu vikurnar, að taka efni þáltill., sem hafa legið hér á hv. Alþ. og ekki komizt til umr., vegna þess að mikið er á dagskránni hverju sinni og breytt efni þeirra í fsp. og notað sér svo þann rétt, sem þingsköpum er samkvæmur, að fsp. skuli ræðast á undan þáltill. og á þann hátt eignað sér málefni, sem ýmsir aðrir hafa orðið löngu á undan honum að flytja. Þetta hefur komið fram núna síðustu vikurnar, m.a. minnist ég, að hv. þm. flutti fsp. um kvensjúkdómadeild nokkru eftir að þáltill. um það málefni hafði verið lögð fram í Sþ. Flokksbróðir hans einn lagði fram fsp. nokkru síðar um Heyrnleysingjaskóla, en einmitt nokkru áður hafði verið lögð fram þáltill. um sama efni. Svo gerist það, að fyrir nokkru síðan lagði hv. 6. þm. Reykv. fram fsp. um sumaratvinnu framhaldsskólanema, en einmitt um það efni hafði ég ásamt flokksbræðrum mínum flutt till. til þál. 6. marz s.l., sem enn þá hefur ekki verið tekin til umr., vegna þess að áskipað hefur verið á dagskrá í Sþ. Ég er að vísu fús til þess að þakka þann stuðning við þetta málefni, sem hv. þm. sýnir með fsp. sinni þar um. En mér finnst satt að segja, að það beri ekki vott um mikinn frumleika eða frjósemi í hugsun að þurfa þannig að vera að taka upp málefni, sem aðrir hafa flutt löngu áður en fsp. kemur fram.

Mér þykir ástæða til þess að benda á þetta, því að ef þetta á að verða vinnuaðferð hér í þinginu, að einstakir þm. tíni upp í fsp.–formi efni þingmála, sem flutt hafa verið í þáltill.–formi, og slík málefni eigi að ræðast eftir þeim reglum, sem gilda um umr. um fsp., þá erum við komnir út á nokkuð nýjar brautir og að ég tel mjög vafasamar. Það er vitað, að umr. í fsp.–tíma eru mjög takmarkaðar, bundnar við 5 mínútur og oft eru efni þeirra mála, sem flutt eru í þáltill. þess eðlis, að um þær þarf að fjalla í nokkuð löngu máli.

En ég skal sem sagt ekki fara að kíta mikið út af þessu, enda ekki tími til þess. Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli þingheims og annarra sem hér eru viðstaddir, á þessum vinnubrögðum. Ég á þáltill. á dagskrá þessa fundar, — ég held, að hún sé 4. mál dagskrárinnar, – og mun þá efnislega ræða um þetta, þegar þar að kemur.

Ég vil taka sérstaklega undir ummæli síðasta ræðumanns og hvergi draga þar úr, að ég varð hneykslaður á þeim svörum, sem hæstv. félmrh. gaf við þeirri fsp., sem borin var fram. Það kom svo greinilega fram í svörum ráðh., að ríkisstj. hefur bókstaflega ekkert gert í því að athuga þessi mál, að ég nú ekki tali um að hrinda í framkvæmd einhverjum sérstökum aðgerðum til þess að bæta úr í þessu efni. Þó er það upplýst, að í marz í fyrra lofaði hæstv. ríkisstj. að framkvæma sérstakar aðgerðir, einmitt til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi meðal framhaldsskólanema og enn í vor og á þessu sumri hefur það líka verið endurtekið og því lofað, að þessi mál skyldu fá sérstaka athugun. En efndirnar hafa bókstaflega engar orðið og hér stendur hæstv. ráðh. uppi í ræðustólnum til þess að lýsa því einu yfir, að ríkisstj. hafi ekkert gert í þessu. Ég hygg, að honum hefði farið betur að sitja sem fastast í sínu sæti og segja ekki eitt orð við þeirri fsp., sem hér er verið að ræða.