14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í D-deild Alþingistíðinda. (4028)

289. mál, gjaldeyristekjur í sambandi við starfsemi varnarliðsins

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég gat um það í þingræðu í vetur, að við Íslendingar hefðum misst svo skiptir millj. dollara í gjaldeyri við að fella gengi krónunnar 1967 og 1968 í sambandi við starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og íslenzkra verktaka, sem vinna á þeirra vegum og á vegum álfélagsins í Straumsvík. Síðan hafa verið lagðar fyrir mig margar spurningar í þessu sambandi, sem erfitt er að gefa við tæmandi svör, nema kanna þetta mál all ýtarlega, sem ég hef að vísu reynt að gera, a.m.k. suma þætti þeirra. En þar sem yfir þessu máli hefur ríkt mikil þögn, hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi spurningar til hæstv. utanrrh.:

l. Hve mikil er sú upphæð í dollurum, sem tapazt hefur vegna síðustu tveggja gengislækkana í sambandi við starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli:

a) Vegna starfa íslenzkra verktaka,

b) Vegna íslenzkra starfsmanna hjá varnarliðinu,

c) Vegna raforkukaupa varnarliðsins,

d) Vegna þjónustu og vörusölu til varnarliðsins?

2. Hverjar voru gjaldeyristekjur af ofangreindri starfsemi fyrir tímabilið 1. júlí 1966 til 30. júní 1967?

3. Hver voru meðallaun íslenzkra starfsmanna hjá varnarliðinu í dollurum sumarið 1967 og hver eru þau nú?

4. Hver er fjöldi íslenzkra starfsmanna á vegum varnarliðsins annars vegar og erlendra starfsmanna hins vegar árið 1966 og hver er hann nú?

Í þessari þingræðu minni, sem ég vitnaði í áðan, tók ég dæmi af manni, sem hafði 347.600 kr. í laun 1967 eða 8.100 dollara á ári þá. Þessi maður hefur sama kaup í dag í íslenzkum krónum, en gjaldeyristekjur af honum í ár eru ekki nema 3.850 dollarar, þær hafa sem sé lækkað um meira en helming. Margt bendir til þess, að það sé ekki langt frá því, að þessi viðmiðun sé um meðalkaup á umræddum stöðum, þó að ég vilji ekki fullyrða neitt um það, en vitað er, að sumir hafa helmingi meira kaup, en þetta. Nú er mjög tilfinnanlegt atvinnuleysi í okkar landi og er ekki annað sýnna, en hreint neyðarástand skapist, þegar skólarnir ljúka sinni starfsemi. Í því sambandi kemur í hugann, hvað margir amerískir menn, sem ekki eru hermenn, vinna á Keflavíkurflugvelli og hvort ekki sé mögulegt að koma Íslendingum í þeirra störf samkvæmt reglugerð þar að lútandi frá 1954.

Í sambandi við það gjaldeyristjón, sem þjóðin varð fyrir vegna umræddrar starfsemi, þá er mér tjáð, að Íslenzkir aðalverktakar og Keflavíkurverktakar hafi orðið að borga til baka vegna umsamdra verka, sem ekki var að fullu lokið, er gengisfellingarnar voru gerðar, í fyrra skiptið um fimm hundruð þúsund dollara, en í hið síðara 1 millj. dollara. Sé þetta rétt, sést bezt, að þarna hefur ekki verið um neinar smáupphæðir að tefla.