17.02.1969
Efri deild: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

142. mál, lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þykir aðeins ástæða til að segja hér örfá orð, þó að þau lengi umræður lítils háttar. Ég vildi aðeins benda á þá staðreynd, að á föstudagskvöldið kom framkvæmdastjóri Farmanna- og fiskimannasambandsins í sjónvarpið, og hann var spurður af fréttamanni sjónvarpsins, ég held ég muni það rétt, um það, hvernig hann liti á stöðu samninganna, eftir að till. var felld. Hann sagði, ég verð þá leiðréttur með það: „Dæmið er komið á það stig, að það hefst að nýju.“ Þetta þýðir auðvitað það, að samningarnir eru ekki á lausnarstigi frá þeirra sjónarmiði, eins og sáttatill. lá fyrir. Það verður að byrja að prika niður stigann aftur. Við vitum ekkert, hvað það hefði tekið langan tíma, ekki á nokkurn hátt. Við vitum það líka, að þeir aðilar, sem hafa staðið í samningum undanfarna daga, hafa ekki rækt þá skyldu sína samvizkusamlega, og ég átel báða hópana. Mér er kunnugt um, að tilnefndir fulltrúar frá launþegunum virtu sína útnefningu ekki meira en það, að þeir mættu ekki á fundum, heldur hringdu í kunningja sína úti í bæ og báðu þá um að mæta á fundum. Þetta eru alvarlegir hlutir, og þetta er álitshnekkir fyrir verkalýðshreyfinguna í landinu, því miður. Mín skoðun var því sú, þegar hv. 5. þm. Reykn. talaði um það, að við ættum að kalla hér saman í sjútvn. Ed. samningsaðila til þess að ná samstöðu um svo lítið atriði, sem 500–600 kr. væru, að ekki lægi fyrir, að við kæmumst að niðurstöðu í því efni. Það er hvergi bókað, og því miður lýsti þessi fulltrúi yfirmannanna yfir því, að þeir mundu byrja frá upphafi. Hvað þær kröfur voru háar skal ég ekki leggja dóm á en maður heyrði, að þær tölur næmu mjög mörgum tugum prósenta frá því sem verið hefði. Dæmið er því ekki eins einfalt og það leit út fyrir, þegar sáttatillagan var lögð fram, að um lítinn mismun væri að ræða eftir langar samningaumræður. Þetta mótar mína afstöðu, því að við höfum þá skyldu við þjóðina að reyna að leysa svo alvarlega deilu, sem hér er um að ræða, því að deilan bakar þúsundum manna atvinnuleysi, og það er skylda Alþ. að bægja frá atvinnuleysi eftir mætti.