31.10.1968
Efri deild: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

39. mál, fyrirmæli Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Sameinuðu þjóðirnar hafa við ýmis vandamál að glíma í framkvæmd sinna mála og sinna áhugamála, og eitt af þeim og kannske eitt af þeim stærri er það, hversu litla möguleika þessi samtök hafa til að fylgja eftir þeim samþykktum, sem gerðar eru. Þessi samtök hafa enga möguleika til þess að beita valdi á neinn hátt, hernaðarvaldi, enda ekki til þess ætlazt, að það sé gert, því að ágreiningsmál á að leysa þar með friðsamlegum hætti, ef upp kunna að koma, en það reynist oft ærið vandasamt að gera þetta á þann hátt, og þá er ekki eiginlega um nema eitt ráð að ræða til þess að koma ályktunum í framkvæmd, ef ekki er hægt að gera það öðruvísi, og það er að beita refsiaðgerðum með einhverjum hætti. Til þessara aðgerða er þó mjög sjaldan gripið, og ég ætla. að það hafi ekki verið gert nema einu sinni, þegar 1966 var ákveðið af Öryggisráðinu að beita þessum aðgerðum gegn Suður-Rhodesíu vegna þeirrar hættu, sem þar vofði yfir af valdmisbeitingu, vil ég segja, minni hluta þjóðarinnar, hvítu mannanna, gegn þeim þeldökku.

Þegar Öryggisráðið samþykkir slíka ákvörðun, er það skylda allra aðildarríkjanna að fylgja þeim, eins og fyrir er lagt í samþykktum Öryggisráðsins. Þessi ákvörðun 1966 um að beita þessari aðferð gegn Suður-Rhodesíu felur í sér, að meðlimaþjóðunum er bannað að kaupa vissar vörutegundir á einn eða annan hátt, og í öðru lagi að flytja þangað vörur, sem nánar eru tilgreindar í þessari samþykkt. Þessar ráðstafanir voru Íslendingar náttúrlega skyldir til þess að framkvæma, eins og aðrar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna, en svo vel vildi til, vil ég segja, að engin af þessum vörutegundum hefur undir venjulegum kringumstæðum verið flutt frá Suður-Rhodesíu til Íslands og ekki heldur hafa þær vörutegundir, sem bannaður er á innflutningur þangað, verið fluttar frá okkur til þeirra, þannig að í þessu tilfelli var þetta ákaflega auðvelt fyrir okkur. Þó kom fyrir einu sinni, að við vorum grunaðir um flutning þangað, en sem betur fór reyndist það ekki á rökum reist, en þessi hætta er alltaf yfirvofandi, að einstaklingar annist þessar fyrirgreiðslur, ef ekki eru ákvæði til, sem beinlínis geta komið í veg fyrir það.

Þess vegna er þetta frv., sem hér liggur fyrir. lagt fram. en í því er heimilað, að ríkisstj. geri þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar kunna að vera, til þess að framfylgja þessum ákvörðunum Öryggisráðsins. Því þó að þetta hafi ekki komið fyrir nema í þetta skipti, getur alltaf komið fyrir, að það verði gert aftur og þá verði fyrir hendi kannske kringumstæður, sem erfiðara er fyrir okkur að framfylgja þessum ákvörðunum í sambandi við, nema því aðeins að í lögum sé heimild handa ríkisstj. til þess að gera þær ráðstafanir, sem þarf í því skyni. Þessar ráðstafanir eða heimild til ráðstafana fyrir ríkisstjórnirnar hafa verið samþykktar í nokkrum af Norðurlöndunum og eru í bígerð hjá öðrum, þannig að það er farið hér að fordæmi hinna Norðurlandaþjóðanna.

Ég held ekki, að um þetta þurfi að hafa mörg fleiri orð. Málið er ákaflega einfalt, og í þessu felst ekkert annað en það að heimila ríkisstj. að gera þær ráðstafanir. sem þarf, til þess að geta uppfyllt þau fyrirmæli vildi ég segja, sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkir í þessu sambandi.