27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég viðurkenni fúslega, að hv. þm. hefur frá sínu sjónarmiði talað hér af rökum og það er ekkert við því að segja, þótt menn hafi mismunandi skoðanir. Sjónarmiðin eru ólík og viðhorf manna. En ég vildi einungis taka það fram, að sú styrktarstarfsemi, ef svo má segja, sem var við atvinnuvegina á því árabili, sem hann nú taldi upp. kom af því, hversu þeir eru ákaflega misjafnlega arðbærir. Vegna þess, hversu síldveiðarnar voru miklu arðbærari á þessu tímabili, var óhjákvæmilegt að styðja hinar greinar sjávarútvegsins, til þess að þar hallaðist ekki allt of mikið á. Þar var einmitt verið að reyna að forða því misræmi, sem aftur á móti hv. 6. þm. Reykv. var að ásaka stjórnina fyrir, að hún hefði látið afskiptalaust, sem ekki var.