28.03.1969
Efri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um aðgerðir í atvinnumálum, 191. mál Nd., flutt að tilhlutan hæstv. ríkisstj., hefur verið afgreitt úr fjhn. Ed. eins og það var samþ. í Nd., en þar voru gerðar á því smábreytingar, eins og kemur fram í endurprentuðu frv. Meiri hl. mælir með frv. óbreyttu, en minni hl. n. hefur skilað séráliti, en mælir þó með samþykkt frv.

Lagafrv. þetta er fyrst og fremst staðfesting á samkomulagi frá 17. janúar, um ráðstafanir til að ráða bug á atvinnuleysi, milli ríkisstj. Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Fyrsti þáttur frv. staðfestir skipan 7 atvinnumálanefnda í kjördæmum landsins, svo og atvinnumálanefndar ríkisins. Annar aðaltilgangur frv. er að heimila ríkisstj. lántöku að upphæð kr. 300 millj. til atvinnuaukningar og eflingar atvinnulífsins í landinu. Sem fskj. með frv. er prentað samkomulag aðila, svo og starfsreglur, sem atvinnumálanefndirnar hafa sett sér, auk þess sem hæstv. forsrh., sem jafnframt er formaður atvinnumálanefndar ríkisins gefur hv. Alþ. ýtarlega skýrslu um störf nefndarinnar fram að þessu. Sem einum nefndarmanni í atvinnumálanefnd ríkisina er mér kunnugt um starfshætti atvinnumálanefndanna. Er ekki að efa, að nú þegar hafa þessi störf haft margháttuð bætandi áhrif á atvinnuástandið, ekki síður óbein en bein. Mér virðist nú að meiri bjartsýni gæti hjá aðilum vinnumarkaðarins um fulla atvinnu, svo fremi sem vinnufriður helzt í landinu, sem allir vona að sjálfsögðu, þótt nokkuð sé spáð í óvissu í bili. Fjármál atvinnuveganna hafa verið skert óviðunandi með tveimur gengisfellingum. En fyrir utan þær 300 millj., sem lagafrv. þetta gerir ráð fyrir að taka að láni, hefur atvinnumálanefndin haft forgöngu um margháttaða lánafyrirgreiðslu til atvinnuveganna, eins og hæstv. ráðh. tók fram í skýrslu sinni í Nd. í gær, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Lán Seðlabankans til húsnæðismála, 100 millj. kr. eða ríflega það, mun flýta húsbyggingum og hafa þegar verkað til þess að bæta úr atvinnuleysi hjá byggingarmönnum. Nefndin hefur einnig leitazt við að hafa áhrif á lánastofnanir, sjóði og banka um fyrirgreiðslu til atvinnurekstrarins og margt orðið ágengt að mínum dómi. Hæstv. forsrh. upplýsti, að nálega helmingi lánsfjár þess, sem atvinnumálanefnd fær til úthlutunar samkv. frv. þessu, hafi þegar verið ráðstafað. Upplýst er einnig, að stærstu upphæðirnar verða til uppbyggingar iðnaðar, sem þó einnig grípur oft inn í hina höfuðatvinnuvegi landsmanna. Iðnaðarlán 20 millj. til sútunarverksmiðju er að sjálfsögðu ekki síður til stuðnings íslenzkum landbúnaði. Lán til þess að koma af stað skipabyggingum hér innanlands er beint til stuðnings íslenzkum skipasmíðastöðvum, en að sjálfsögðu verður þessi stórkostlega fyrirgreiðsla einnig stuðningur við íslenzkan sjávarútveg. Gert er ráð fyrir, að þær 50 millj., sem fara til skipasmíðastöðva innanlands,nægi til þess að greiða 20% af byggingarkostnaði skipanna, sem ráðgert er að hefja smíði á, án þess að kaupendur séu fyrir hendi. Og eins og tekið var fram, verður leitazt við að skapa Fiskveiðasjóði lánsmöguleika, svo að hann geti einnig staðið við sinn hluta. Þannig komast 8 skipabyggingarstöðvar í fullan gang, og veita þær að sjálfsögðu fjölda manns atvinnu.

Nokkrar umr. fóru fram hér í hv. þd. við 1. umr., m.a. um 150 millj. króna lán til iðnaðar, sem Seðlabankinn hefur heitið, gegn sömu upphæð frá viðskiptabönkunum. Yfirlýsing hæstv. forsrh. við þetta tækifæri ætti að vera fullnægjandi. Ef viðskiptabankarnir ekki geta staðið við sinn hluta lánsloforðsins, verður Seðlabankinn að sjálfsögðu þar til að koma. Lánstíminn, sem Seðlabankinn ráðgerir, að lánin borgist upp á tveimur árum og byrji að borgast eftir 6 mánuði, þarf að lengjast. Hann þarf að lengjast í 5 ár og afborgun byrji ekki fyrr en eftir fyrsta árið. Þetta er alger nauðsyn til þess að þessi lán komist í kring og atvinnumálanefnd ríkisins mun eflaust ræða það nánar.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi nokkuð um skipun þessarar nefndar. Ég var aðili að þessu samkomulagi, sem varð milli Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, sem var grundvöllur að þessari nefnd, og þar kom ríkisstj. raunverulega inn í á síðasta stigi málsins, eftir að ákveðið hafði verið um skipan nefndar, m.a. um það, að ein nefnd yrði fyrir bæði Norðurlandskjördæmin. Og þetta var gert eingöngu vegna óska heiman frá úr héruðunum, og það voru allir sammála um það að verða við þessum óskum. Ég vildi aðeins upplýsa þetta út af þeim umr., sem fram fóru.

Það er varla von, að þessi fskj., sem fylgja frv., hafi verið lesin svo vandlega á stuttum tíma, en hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um það neitunarvald, sem er minnzt á í, held ég, 6. gr. frv., en það neitunarvald á eingöngu við um styrki og lánakjör. Um venjulegar lánsúthlutanir fer eftir venjulegri atkvgr. En eins og forsrh. upplýsti, hefur það aldrei komið til. Það hefur verið full samvinna í atvinnumálanefndinni.