28.03.1969
Efri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl., mælir fjhn. öll með samþykkt frv., en við tveir, ég og hv. 3. þm. Vestf., höfum leyft okkur að gefa út sérstakt nál. Þetta nál. kom nokkuð seint fram, vegna þess að okkur var ætlaður skammur tími til athugunar, og þess vegna hefur því enn ekki verið útbýtt, en við erum því sammála, að engu að síður verði málið tekið fyrir. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að lesa þetta nál., sem er örstutt, en það er þá svona:

„Frv. þetta er byggt á samkomulagi, sem ríkisstj. gerði við vinnuveitendur og verkalýðssamtökin í janúarmánuði s.l. í því skyni að ráða nokkra bót á því mikla atvinnuleysi, sem hér hefur verið á þessum vetri. Með hliðsjón af því leggjum við til, að frv. verði samþ., enda þótt við hefðum kosið, að ýmis ákvæði þess væru á annan veg. Fram hefur komið, að til atvinnumálanefndar ríkisins hafa þegar borizt umsóknir um lán og aðra fyrirgreiðslu samtals að fjárhæð röskar 700 millj. kr. Er því ljóst, að fjármagn það, sem fyrir hendi verður á þessu ári, fullnægir ekki nema að litlu leyti þörfinni, og því sýnilegt, að frekari aðgerðir þurfa til að koma. Þá bendum við á brýna nauðsyn þess, að skólafólki verði séð fyrir viðunandi atvinnu yfir sumarmánuðina, þar sem margt af því mun ekki geta haldið áfram námi að öðrum kosti.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fyrir þessu nál. neina framsögu. Þau atriði, sem við eigum við, að við hefðum kosið á annan hátt, hafa þegar verið rakin hér við 1. umr. málsins, og ég ætla ekki að endurtaka neitt af því. En það er sem sagt niðurstaða okkar, að við leggjum til, að frv. verði samþ.