28.11.1968
Efri deild: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Löggjöfin, sem gildir um íslenzk söfn, er að sumu leyti orðin mjög gömul, þó að segja megi, að það komi ekki að verulegri sök efnislega séð. Samt þótti mér rétt á s.l. vori að efna til heildarendurskoðunar á gildandi löggjöf um íslenzk söfn, þ.e.a.s. Landsbókasafn, Listasafn, Handritastofnun og Þjóðminjasafn.

Þetta frv., sem hér kemur fyrir hv. Ed., hefur þegar verið samþ. samhlj. í hv. Nd. með einni smávægilegri orðalagsbreytingu.

Lögin um Landsbókasafn eru ekki meðal þeirra elztu í safnalöggjöfinni, frá 1949. 1 þessu frv. er í raun og veru aðeins ein efnisbreyting, sem máli skiptir. Hún er sú, að í gildandi l. er tala bókavarða við Landsbókasafn ákveðin. Það stendur, að þar skuli vera 6 bókaverðir. Í reynd hafa bókaverðir orðið 7. Fjölga varð um sjöunda bókavörðinn fyrir 9 eða 10 árum, ef ég man rétt, en vegna þessa lagaákvæðis hefur ekki verið hægt að skipa þann bókavörð til starfsins. Sú breyting er gerð á l. í þessu frv., að tala bókavarða skuli fara eftir fjárveitingu í fjárlögum hverju sinni. Í fjárlögum er gert ráð fyrir 7 bókavörðum við Landsbókasafnið, en ekki 6, svo að engin breyting mundi verða á í reynd við samþ. þessa frv. Að öðru leyti er aðeins um orðalagsbreytingar að ræða og samræmingu við aðra safnalöggjöf, sem sumpart er til meðferðar í hv. Nd. eða hefur nýlega verið lögð fyrir hana, og mun svo að sjálfsögðu koma til meðferðar hv. Ed. líka.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, herra forseti, að að lokinni þessari 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.