17.03.1969
Efri deild: 59. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil leiðrétta sumt af því, sem hæstv. ráðh. sagði, því að hann hefur ekki farið þar rétt með. Hann sagði m.a., að ég hefði haft eftir formanni Búnaðarfélags Íslands, að bændum væri hrint á erlendan lánamarkað eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki. Ég sagði, að hann hefði sagt, að bændum hefði verið skákað á erlendan lánamarkað með gengisfellingu yfir höfði sér, — skákað.

Fleira var það nú, sem hæstv. ráðh. hafði ekki rétt eftir, og ég lái honum það nú ekkert, þó að hann hafi ekki tekið rétt eftir öllu, því að slíkt kemur nú fyrir. En hann sagði, að ég hefði sagt, að Stofnlánadeild landbúnaðarins væri gjaldþrota. Þetta er ekki rétt, því að ég sagði, að með áframhaldandi sömu stefnu í lánamálum Stofnlánadeildarinnar miðað við undanfarandi ár, mundi það leiða til gjaldþrota hjá henni. Og það sér nú hæstv. ráðh. ákaflega vel, ef hann vill kíkja á varasjóð deildarinnar núna fyrir nokkrum árum og varasjóð deildarinnar í ár, því að hann er mun lægri nú en í fyrra og hann er mun lægri en í hitteðfyrra. Þannig hefur það gengið til núna 2 s.l. ár. En þegar hæstv. ráðh. var að minna á það, að ég ætti ekki að vera að ræða um þessa hluti og við framsóknarmenn, því að okkar hlutur í þessum málum hefði ekki verið svo góður á sínum tíma. En hvað átti Stofnlánadeild landbúnaðarins eða sjóðir Búnaðarbankans, þegar þessi hæstv. ráðh. komst til valda? Hver var eignin? Eignin var á annað hundrað millj. kr., en er þó ekki nema 85 millj. núna. Þrátt fyrir alla viðleitni hæstv. ráðh. til að vera að bjarga þessu núna s.l. 8–10 ár, þá er eign sjóðanna minni og þó hafa bændur verið skattlagðir um tugi þúsunda á þessu árabili, frá því að Stofnlánadeildin tók til starfa. En þrátt fyrir það vegur það ekki upp á móti þeim kjörum, sem hæstv. ráðh. býður Stofnlánadeildinni upp á. Þetta er sannleikur málsins, að deildin á minna nú, eftir að hæstv. ráðh. fór að stjórna henni, heldur en hún átti, þegar hann tók við henni 1959 í ársbyrjun.

Þá sagði hæstv. ráðh. það, að hann hefði aldrei heyrt það, að það vantaði jafnmikið upp á, að bændurnir næðu sínu verðlagi út af verðlagsgrundvelli á undanförnum árum eins og ég hefði sagt, eða 120 millj. kr. Og þó sagði hann og hafði varnagla á því, að þetta dæmi væri ekki reiknað til enda. Og það skal ég viðurkenna, að þetta dæmi er ekki reiknað til enda, en ég held þó skoðun minni. Og þarf ekki að vera að spyrja kunnuga menn um það, sem eru í innsta hring, sem fer með þessi mál, bændurnir finna þetta sjálfir, þegar þeir skoða reikningana fyrir sínar afurðir. Það mun láta nærri, að það vanti inn í verðlagið — það má vel vera, að þetta komi í uppbótum síðar — en eins og þetta stendur í dag, held ég, að það sé mjög nálægt sanni, að það vanti um 120 millj. kr. á að verðlagið skili sér frá árinu 1965 til ársloka 1968, því að ég tel ekki, að það skili sér verðlag, þegar veiður að halda eftir rúmum 2 kr. af hverju kjötkílói og 28 aurum, minnir mig, af mjólkurlítra. Ég tel ekki; þó að það sé myndaður sjóður með því til að hafa til vara eftir því, hvernig verðlagið kemur út, að það verðlag skili sér, þar sem ekki miðast við verðlagsgrundvöllinn, eins og hann er uppbyggður. En það mun vera staðreyndin, að sá sjóður, sem myndaðist á þennan hátt árið sem leið, var milli 40–50 millj., auk þess sem hæstv. landbrh. mun hafa greitt fyrir því, að greiddur var fyrirfram hluti af útflutningsuppbótum, sem eiga að koma til greiðslu.1969. Þær voru borgaðar fyrir áramót

til þess að firra vandræðum, sem þá stóðu fyrir dyrum. En ég hygg nú þó, að þegar búið er að gera þessum málum full skil og reikna þetta dæmi til enda, eins og ráðh. sagði, sé ekki mjög fjarri lagi, að það vanti þessa upphæð á, að verðlagið skili sér.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að landbnm. í það minnsta og þeim öðrum, sem áhuga hafa á þessum málum og eru hér á hv. Alþ., gefst kostur á að fá að sjá þá skýrslu og grg. um lausaskuldamálin, sem harðærisnefndin hefur sent hæstv. ráðh. En ég tel það ekki fullnægjandi. Ég tel það eitt fullnægjandi, að skýrslunni sé útbýtt á meðal allra alþm. hér í hv. Alþ., og ég tel, að það sé ekki það kostnaðarsamt, að það sé ekki yfirstíganlegt fyrir hæstv. ráðh. að framkvæma það. Og ég vænti þess, að við fáum þessa skýrslu prentaða á borðið, áður en langir tímar líða.

Það er ýmislegt fleira, sem væri ástæða til að ræða af því, sem hæstv. ráðh. minntist á. En ég ætla ekki að fara inn á það nú, því að vafalaust gefst tækifæri á því síðar, og þáttur í þessum málum er líka, að þáð má um þau deila endalaust. En ég tek undir það, að þegar litið er á bændastéttina sem heild, þá er hún ekki óskaplega illa á vegi stödd, þar sem meðaleignin er á 8. hundrað þús. kr. og meðalskuldin 262 þús. kr., þegar miðað er við meðalbóndann, sem þessar rannsóknir ná til. En á hitt vil ég benda, að nær helmingur bænda eða rúmlega 2000 bændur, sem þessi rannsókn nær til, skulda meira en tvöfaldar nettótekjur, þ.e.a.s. 42.4% bændanna skulda meira en tvöfaldar nettótekjur. Og stór hópur á meðal þessara bænda er verulega illa settur, þannig að þessar lausaskuldir, 1 milljarður 250 millj., sem ég held, að ráðh. hafi getið um, að væru heildarskuldir bænda, koma af fullum þunga á tiltölulega fámennan hóp innan bændastéttarinnar. Og það er þeim mun erfiðara, þar sem það eru færri, sem verða að rísa undir þessum böggum. Og því hagfelldari og betri verður sú fyrirgreiðsla að vera, ef hún á að koma að notum fyrir þá menn, sem verst eru settir. Og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. taki fyllilega tillit til þeirra bænda í landinu, með fyrirgreiðslur, sem koma þeim að notum, því að það er sýnilegt, að þeir bændur eru mun fleiri heldur en ég hélt, að þeir myndu vera, því að ég gæti trúað, að þeir væru allt að því 500.