28.03.1969
Efri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kemur af nál., varð nefndin ekki sammála um afgreiðslu málsins, enda þótt hvorir tveggja nefndarhlutar telji nauðsynlegt, að lausaskuldum bænda verði breytt í föst lán. Og brtt. okkar, sem erum í minni hl. nefndarinnar, eru á þskj. 408. Þó að hv. frsm. meiri hl., 5. þm. Sunnl., hafi að nokkru lýst þeim brtt., sem við berum fram við frv. þetta, ætla ég samt sem áður að fara um þær nokkrum orðum.

Varðandi 1. brtt., sem er um það, að allar lausaskuldir frá og með 1960 til og með 1968 verði teknar með, þegar meta skal lausaskuldir þær, sem sótt verður um að breyta í föst lán. Þetta tekur jafnt yfir þær skuldir, sem hafa myndazt vegna framkvæmda, vélakaupa og fóðurkaupa hjá bændum og einnig nær þessi breyting til lausaskulda hjá fyrirtækjum bænda, sem flest hafa staðið í miklum framkvæmdum við að koma upp og byggja vinnslustöðvar landbúnaðarins, mjólkurbú, sláturhús o.fl. og hafa því allmiklar skuldir. Hv. frsm. sagði í sinni ræðu, að það þætti ekki ástæða til að taka lausaskuldir fyrirtækja inn í þetta frv., þar sem ekki væri vitað hversu miklar þær væru og rannsókn málsins hefði ekki náð til fyrirtækja bænda. Það er að vísu rétt, að sú rannsókn, sem gerð hefur verið, nær eingöngu til þeirra skulda, sem bændum tilheyra beinlínis eða tilheyra bændum sem einstaklingum, en ekki yfir þær félagslegu skuldir, sem bændur verða að rísa undir. En hins vegar er það vitað mál, að mörg þessi fyrirtæki eru í fjárhagserfiðleikum og því mjög skynsamlegt, að um leið og greitt er úr fyrir bændum og þeirra skuldamálum, verði þeirra félagslegu skuldir einnig teknar með í reikninginn. Og því er það, að við í minni hl. leggjum til, að lausaskuldum fyrirtækja bænda verði einnig breytt í föst lán, og þá leiðir það af sjálfu sér, að þá þarf að taka veð í fleira en fasteignum, því að mörgum þessum fyrirtækjum bænda tilheyra stórvirkar vélar og einnig er vélvæðing heima hjá bændunum sjálfum allmikil, en lánin aftur, sem þeir hafa fengið, af mjög skornum skammti.

Það leiðir af sjálfu sér, breytingin á 2. gr., sem fjallar um, hvaða veð skuli nota, því að ég tel, að það sé ekki nauðsynlegt, og það stendur heldur ekki í þessu frv., að öll lán skuli vera til 20 ára. Mig minnir, að í 2. gr. standi, að lánstími skuli vera allt að 20 ár, þannig að það gefur til kynna, að lánstíminn geti verið misjafnlega langur eftir því, til hvers er lánað, og svo getur það líka skeð, að einstaka bændur kæri sig ekki um að taka lausaskuldalán til 20 ára, en mundu taka það til skemmri tíma, ef um viðráðanlegar skuldir er að ræða, sem þeir treysta sér til að borga á skemmri tíma.

Lán út á vélar í landbúnaði hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins eru ekki nema til 5 ára og aðeins miðuð við þriðjung af verði aflvéla, þannig að þau vélakaup, sem bændur hafa staðið í á undanförnum árum, eru veruleg orsök í þeim lausaskuldum, sem safnazt hafa. Og margir þessara bænda hafa staðið í það miklum framkvæmdum, að það er mikil nauðsyn að taka veð í vélum, vegna þess að jarðirnar eru það áhlaðnar með veð. Því er það, að við leggjum til, að það verði einnig tekið veð í vélum sem og fasteignum, enda þótt fasteignirnar verði undirstaðan undir því veði, sem gefið verður.

Þá er það varðandi vextina, að við teljum eðlilegt, að vaxtakjör þessara lausaskuldabréfa séu bundin í lögum og vextir séu eigi yfir 61/2%, eins og gert var á sínum tíma í sjávarútvegi, en þessir tveir atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, búa báðir við 61/2% ársvexti af stofnlánum sínum. Ég sé í frv. ríkisstj., að stjórn veðdeildarinnar á að ráða vaxtakjörum að höfðu samráði við ráðh. En þar stendur ekkert um það, hvaða ráðh. það sé, sem á að ráða vaxtakjörum. Þess vegna spyr ég, er það bankamálaráðh., fjmrh. eða landbrh.? Þetta óska ég eftir, að fáist upplýst við þessar umr.

Þá er það 3. brtt. okkar, að lánin, sem veitt verða megi nema 80% af matsverði veðsins, heildarlán, sem hvíla á hlutaðeigandi veði, nemi 80% af matsverði veðsins. Og skal það ákveðið af dómkvöddum mönnum. Ekki skal ég um það þræta hér, hvort lánið nemi 75% eða 80% og ég tel það til bóta, eins og hv. frsm. gat um, að það er þó gert ráð fyrir því í þessu frv., að lánið megi nema hærri hluta af matsverði veðsins en var síðast, þegar lausaskuldum bænda var breytt í föst lán. En það er annað, sem ég vil spyrja um í þessu sambandi. Það er við 4. gr. frv. En þar stendur, að lán samkv. lögum þessum að viðbættum veðskuldum þeim, sem hvíla á fyrri veðréttum, skuli ekki nema hærri fjárhæð en 75% af matsverði veðsins. Hverjir eiga að meta veðið? Eru það dómkvaddir menn eða er það einhver annar, eða aðrir, eða er það ráðh., sem á að ákveða vextina? Þetta vil ég fá upplýsingar um við þessar umr. málsins. Ég minnist þess, að þegar lausaskuldum bænda síðast var breytt í föst lán, þá voru það dómkvaddir menn, sem virtu fasteignir þær, sem um var að ræða. Ekki reikna ég með því, að nýja fasteignamatið öðlist lagagildi áður en lausaskuldum bænda verður breytt í föst lán. Því fer víst víðs fjarri, þótt búið sé að eyða tugum millj. kr. í það fasteignamat, sem staðið hefur yfir undanfarandi ár og enn þá er verið að vinna að.

Þá kem ég að 4. brtt. okkar, en hún fjallar um kaupskyldu Seðlabankans á bankavaxtabréfum. Á það vil ég benda, að bæði stjórn Búnaðarfélags Íslands og sá aðilinn í harðærisnefnd, sem skilar áliti, Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri, báðir þessir aðilar leggja mikla áherzlu á það, að sparisjóðir, verzlunarfélög, kaupfélög og aðrir, sem bréfin taka, geti losnað við þau á viðunandi hátt. Mér er ljóst, að þótt kaupskylda hvíli á Seðlabankanum, þarf hann nokkur ár til þess að geta veitt bréfunum móttöku. Ef þessi bankavaxtabréf eiga að koma bændum að notum, verða þeir og þeirra fyrirtæki að eygja möguleika á að losna við bréfin á skömmum tíma. Annars vofir sú hætta yfir, að sá, sem hefur lánað eða skuld myndazt hjá, neiti að taka við bankavaxtabréfi nema þar sem hann reiknar með, að skuldin sé að öðrum kosti glötuð, lánið sé að öðrum kosti glatað. Því er það, að ef hæstv. ríkisstj. vill vel og meinar eitthvað með þessu frv., þá ber henni skylda til að tryggja affallalausa sölu bréfanna með einhverjum hætti. Og yfirlýsingar einar, eins og fram hafa komið, hrökkva skammt í þessum efnum, ef ekki fara í hönd góðæristímar og vaxandi sparifjáreign landsmanna, eins og var á árunum eftir 1962, því að þá fór spariféð vaxandi, og það var af þeim sökum miklu þægilegra að losna við bankavaxtabréfin heldur en annars hefði verið. Ég skil ekki, hvers vegna það er útilokað að hafa ákvæði í lögunum um sölu og kaup bréfanna. Seðlabankanum er heimilt að binda hjá sér fjórða hlutann af öllu sparifé landsmanna og þessi upphæð, sem er bundin nú í Seðlabankanum, ætla ég, að sé nálægt hálfum þriðja milljarði kr. Og ég vil benda á það, að í þessu sambandi eru lausaskuldir bænda, sem vitað er um í árslok 1967, um 500 millj. kr. og því 1/5 hlutinn af því bundna sparifé, sem er í Seðlabankanum. Það er líka vitað mál, að þótt komi til þess að breyta lausaskuldum bænda í föst lán, þá er það ekki nema nokkur hluti af lausaskuldaupphæðinni, sem þannig verður með farið. Ég ætla, að nokkur hópur bænda hafi það lítið fjármagn bundið í lausaskuldum, að þeir kæri sig ekki um að breyta þeim í föst lán, svo að sú upphæð, sem kemur til með að bindast á þennan hátt, verður mun minni heldur en heildarlausaskuldirnar eru. Það er mikil blóðtaka fyrir landsbyggðina að mega ekki ráðstafa eigin sparifé, því bundna sparifé, sem hefur myndazt úti á landsbyggðinni á síðustu árum og hefði orðið til þess að velta þeim þungu böggum, sem bændastéttin verður að velta nú um þessar mundir og fyrirtæki bændanna. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að Seðlabankinn sé skyldaður til þess að kaupa þessi bréf á nafnverði. Það má hafa það með margvíslegum hætti að taka þetta inn á nokkrum árum og einnig í bili skylda ýmsar aðrar stofnanir til þess að taka á móti bankavaxtabréfunum sem greiðslu upp í skuldir, og það er jafnvel hugsanlegt, að Stofnlánadeild landbúnaðarins gæti tekið hluta af þessum bréfum í bili og Búnaðarbankinn haft þau í sinni vörzlu um tíma og smám saman greitt með því sparifjárbindingu þá, sem kann að lenda í Seðlabankanum að síðustu. Yfirlýsingar eru að sjálfsögðu góðar, og það er gott að hafa yfirlýsingu um, að það sé búið að tala við bankana og það verði greitt fyrir sölu lausaskuldabréfanna. En ég bendi á það, að hitt er miklu tryggara, að kaupskyldan sé lögbundin, og þá veit hver og einn að hverju hann gengur í þeim efnum um leið og hann tekur á móti bréfi upp í það, sem hann hefur áður lánað, eða þar sem skuldir hafa myndazt. Ég skal játa, að það veltur á miklu um framkvæmdina. Það verður þannig til að takast í þessum málum, ef vel á að fara, að til þessara starfa komi menn, sem hafa ríkan skilning á þessum málum og vilja vel — þá geta þeir fengið miklu um þokað. En hitt er öllu tryggara fyrir allan almenning, að það sé lögbundið, að Seðlabankinn kaupi bankavaxtabréfin. Því vænti ég þess, að þeir hv. þm., sem standa að frv. þessu, endurskoði afstöðu sína í þessu efni og taki ákvæði inn í frv. um það, að Seðlabankinn kaupi bréfin eftir þar til settum reglum.

Þá kem ég að 5. brtt., sem minni hl. nefndarinnar flytur. Hún var ekki í því frv., sem við framsóknarmenn fluttum hér í vetur, það var þá ekki heldur vitað um það, hvernig skuldirnar skiptust á bændur landsins. En það, sem hefur komið í ljós við þá rannsókn, sem fyrir liggur, er það, að það eru allmargir bændur í landinu, sem skulda verulega mikið. Og þeim bændum verður ekki bjargað nema til komi sérstakar ráðstafanir. Og harðærisnefnd telur, að viss hópur bænda fái enga lausn lausaskulda sinna samkv. þessu frv. Ég hygg, að þó að það hafi ekki komið skriflega frá öllum nm., sé það sameiginlegt álit þeirra eigi að síður. En því er það, að við höfum flutt þá brtt., 5. brtt., það verður 6. gr. frv. og hljóðar þannig:

„Heimilt er að veita bændum sérstaka fjárhagsfyrirgreiðslu sakir harðæris eða annarra stóráfalla í búskap, svo og frumbýlingum, er staðið hafa í nauðsynlegum framkvæmdum, en skortir veð samkv. 4. gr.

Það eru allmargir bændur, sem skortir veð, eða um 200–300 bændur að því er búnaðarmálastjóri upplýsir í þeirri umsögn, er hann hefur sent Alþ. Mér er ljóst, að fyrirgreiðsla til þessara bænda getur verið margvísleg, og fyrst ber að athuga það og gera það upp við sig, hvernig ástatt er með jarðnæði þessara bænda, rekstraraðstöðu þeirra og framkvæmdir á jörðunum. Hugsanlegt er, að aðstaða öll sé þannig, að útilokað sé fyrir viðkomandi bónda að halda áfram búrekstri, og þá er það fyrirgreiðsla út af fyrir sig að útvega hlutaðeigandi aðila vinnu, sem hann getur lifað af. Og það er líka hugsanlegt þá, að Jarðakaupasjóður ríkisins, sem myndaður hefur verið, geti hlaupið undir bagga með að kaupa jörð samhliða því, sem vélar og bú yrði selt, ef hlutaðeigandi bóndi fær ekki jarðnæði við sitt hæfi annars staðar. Þar sem búrekstur er góður, framkvæmdir miklar og jarðir vel í sveit settar, er nauðsynlegt að veita hjálp í einhverju formi umfram það, sem frv. gerir ráð fyrir. Það getur í vissum tilfellum nægt að fá lægri vexti af skuldum en annars er ráð fyrir gert eða lán til lengri tíma og taka veð í vélum og búfénaði. Sums staðar mun þurfa skuldaskil, en þetta allt vegur og metur sú nefnd, sem við leggjum til, að fjalli um þessi mál. Það er útilokað að láta þá bændur, sem eru verst settir, vera án allrar fyrirgreiðslu, þar sem starfsorka þeirra og fjármunamyndun notast illa og því er um annaðhvort að ræða að gera þeim kleift að halda áfram búskap eða hjálpa þeim til að komast í aðra vinnu, sem veitir þeim betri lífsskilyrði en eilífðarskuldabasl og vandræði, eins og blasir við hjá mörgum hverjum þessara aðila.

Í tillögum okkar er gert ráð fyrir því, að aukafyrirgreiðslu fái þeir bændur einir, sem hafa orðið illa úti sakir harðinda eða stóráfalla í búrekstri og svo frumbýlingar, sem staðið hafa í nauðsynlegum framkvæmdum og orðið að stofna til mikilla skulda á mjög skömmum tíma. Það kann einhver að spyrja, hvað sé átt við með frumbýling. Því vil ég svara á þann hátt, að frv. þetta nær til áranna frá og með 1961 til og með 1968, og ég tel, að þessi breyting, ef að lögum verður, nái til bæði harðinda, stóráfalla í búskap og þeirra, sem byrjað hafa búskap á þessu sama tímabili, þ.e.a.s. frá og með 1961. Ég tók eftir því, að hv. 5. þm. Sunnl. gat þess í sinni ræðu, að hæstv. landbrh. hefði sagt við 1. umr. þessa máls, að hann hygði á fyrirgreiðslu þessum mönnum til handa síðar, og að vísu er ekki nema gott eitt um það að segja. En ég held allra hluta vegna, að það sé nauðsynlegt og ekki sízt fyrir þessa bændur, sem sjá ekki fram úr sínum vandræðum, hvernig greitt verður úr fyrir þeim á næstunni og því þeim mun nauðsynlegra, þegar svo stendur á, að þeir viti strax, að hverju þeir eiga að ganga og það sé tekið ákvæði inn í lögin líkt og 6. gr. brtt. okkar felur í sér. Og ég vænti því, að hv. meiri hl. .nefndarinnar og þeir, sem að þeim meiri hl. standa hér á hv. Alþ., taki þessa till. einnig til yfirvegunar og endurskoðunar og sjái sér fært að koma svipuðu ákvæði inn í frv. nú, áður en málið verður afgreitt frá Alþ.

Ég tel mig hafa gert hér grein fyrir brtt. minni hl. landbn. og vænti þess, að hv. alþm. samþykki þessar brtt., en að öðru leyti læt ég nægja að minna á og vísa til þess nál., sem er á þskj. 413, og þar er margvíslegar upplýsingar að fá, sem ég sé ekki ástæðu til að vera að endurtaka hér í minni ræðu, því að þm. gefst kostur á að kynna sér það nál.