28.03.1969
Efri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 5. þm. Sunnl. gat um það, að engin lán hefðu verið til vélakaupa áður en Stofnlánadeild landbúnaðarins fór að veita slík lán. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort lán hafi verið til, en eitt vil ég benda á í því sambandi, að á þeim árum var verðlag allt viðráðanlegra og mér er kunnugt um það hjá fjöldamörgum aðilum, að bændur gátu fengið lán, bæði í sparisjóðum og bönkum til 5, 6 og jafnvel 8 ára til vélakaupa. Og það var miklu betra að fá þessi lán, áður en farið var að lána 1/3 hluta í andvirði vélanna úr Stofnlánadeildinni, þannig að það varð ekki á þessu nein veruleg breyting til bóta, eins og maður skyldi annars hafa ætlað að mundi verða.

Þá vil ég minna á, og ég tek undir það með hv. 5. þm. Sunnl., að niðurstöðurnar, sem hafa komið út úr þeirri rannsókn, sem gerð hefur verið af harðærisnefnd á hag bændastéttarinnar, hafa sýnt betri útkomu heldur en almennt var reiknað með, ég tek undir það. En það, sem er það sorglega í þessu öllu saman, er þó það, að þrátt fyrir þessar góðu niðurstöður á efnahag bænda, sýnir það sig, að getan er engin. Og ef við höfum hlustað á raddir bændastéttarinnar núna í vetur, ekki sízt eftir að fór að líða á veturinn, þá höfum við glögg dæmi þess, að þeir treysta sér ekki allmargir og það jafnvel efnaðir bændur til þess að borga áburðinn í vor. Þrátt fyrir þessa góðu útkomu, sem þessi niðurstaða sýnir, þá er geta bændanna ákaflega lítil. Og þeim hrýs hugur við því að þurfa að kaupa áburðinn í vor með því háa verði, sem á honum er, bæði þeirri hækkun, sem gengisbreytingin olli á s.l. vetri, sem mun vera nálægt 40%, og enn fremur þeim erfðasyndum hæstv. ríkisstj., sem bændur eiga að borga á næstu 5 árum í áburðarverðinu, þar sem er erlenda lánið, sem Áburðareinkasala ríkisins tók á s.l. ári. En það lán var ekki búið að borga, þegar gengisbreytingin varð í nóvember í vetur. Á þetta vil ég minna. Um leið og við tölum um góðan hag bændastéttarinnar samkv. þessari rannsókn, þá blasir það eigi að síður við, að getan, rekstrargetan, er ákaflega lítil, og þar veldur mestu um sú óðaverðbólga, sem ríkt hefur á undanförnum árum.

Ég ætla mér engan veginn að gera þetta frv. tortryggilegt, því að ég ætla að fylgja því, enda þótt það náist ekki á því breytingar, í trausti þess, að framkvæmdin á málinu verði betri heldur en nú horfir með lögin og lagasetninguna sjálfa. En einkennilegt er það, ef þeir aðilar, sem standa á móti því, að það sé komið inn í þetta frv. ákvæði um kaupskyldu á bréfunum, ef þeir verða síðar meir til þess að greiða fyrir sölu bréfanna. Það slær mig illa með sölu á þessum bréfum, að það skuli ekki hafa fengizt ákvæði í frv. um kaupskyldu Seðlabankans á bréfunum eða annarra stofnana, sem hefðu ástæðu til að taka þau. Og mér finnst skyldan hvíla mest á Seðlabankanum, vegna þess að hann er með bundið sparifé, sem nemur 21/2 milljarði kr. Og mikið af þessu sparifé er komið frá landsbyggðinni, það er komið frá þeim aðilum, sem byggja sveitir þessa lands og þeim aðilum, sem eiga að verða aðnjótandi þessarar löggjafar, sem við ræðum hér um nú og kemur innan tíðar til framkvæmda. Þetta vil ég taka fram um leið og ég ræði þetta mál. Það er líka eftirtektarvert, og ég veit, að það hrýs mörgum hugur við því, sem hafa lánað peninga á undanförnum árum, að taka upp í slík lán eða skuldir bankavaxtabréf, ef litlir sölumöguleikar eru á þeim.

Ég vil líka minna á það, að árið 1962, þegar hliðstæð löggjöf var sett, fóru í hönd batnandi tímar. Sparifjáraukningin varð mikil í landinu á næstu árum á eftir og það var líka vaxandi verðlag í landinu þannig, að þær 60–70 millj., sem skuldabréfin öll hljóðuðu upp á á þeim tíma, urðu smám saman lítil upphæð miðað við vaxandi dýrtíð og auðvelt að losna við þau, þegar sparifjármyndunin í landinu fór vaxandi. Það væri óskandi, að slíkir tímar fari í hönd á næstunni, og þá geri ég ráð fyrir, að það rætist betur úr um þessi mál heldur en nú horfir, en því miður eru miklu fleiri blikur á lofti, sem gefa það til kynna, að svo muni ekki fara á næstu árum um sölu þessara bréfa, eins og raunin varð á eftir 1962.