10.04.1969
Neðri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál, sem mig langaði hér að segja. Ég álít, að það sé nú góðra gjalda vert, að fram hefur komið frv. frá ríkisstj. um að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Hins vegar hefði mér fundizt miklu skemmtilegri blær á því, að frv. það, sem framsóknarmenn báru fram um sama efni í Ed., hefði verið lögfest þá með einhverjum breytingum, sem ríkisstj. hefði viljað láta gera á frv., heldur en hún bæri fram annað frv. svo að segja eins. Þetta eru einkennileg vinnubrögð að mínum dómi hér á Alþ., að það skuli ekki vera hægt að láta mál, sem nokkurn veginn samstaða er um, ganga fram, þótt frá andstæðingum séu, mál sem ríkisstj. og ríkisstj.-flokkarnir eru að mestu leyti sammála um, en hafa þá í hendi sér að breyta að því leyti, sem þeim sýnist. Með því móti sýndist mér, að gangur mála gæti verið miklu hraðari hér á hinu háa Alþ. heldur en með þeim hætti, sem er á þessu hér.

Ég álít, að höfðingsskapurinn í þessu máli sé nú ekki eins mikill eins og hann hefði þurft að vera gagnvart bændunum. Það er ekki í frv. t.d. nein skylda fyrir Seðlabankann eða neina aðra peningastofnun að kaupa þau bréf, sem gert er ráð fyrir, að bændurnir gefi út, og þetta er að mínum dómi mjög mikill galli á frv. og getur farið þannig, að það komi að litlu gagni fyrir bragðið. Ráðh. vitnaði í það áðan í ræðu sinni hér, að þetta hefði ekki verið heldur í lögunum 1962, en þó hefðu þau lög komið að miklu gagni. Jafnframt upplýsti hann það, að það hefðu verið miklu færri bændur, sem notfærðu sér þau lög þá heldur en gert hefði verið ráð fyrir, svoleiðis að ég er ekki viss um, að það sé full skýring á því, sem hann sagði um það, að þetta hefði ekki komið að sök, að ekki var kaupskylda á bréfunum. Ég hygg, að einmitt færri bændur hafi reynt til að notfæra sér þau lög vegna þess, að það var ekki kaupskylda á bréfunum. Þeir hafi óttazt það, að þeir gætu ekki komið þeim í verð. Um þetta get ég þó ekkert fullyrt, en vil benda á þetta, að mig uggir það, að það hafi staðið þannig á því, hvað fáir notfærðu sér þetta. Og ég veit til þess, að margir bera nú sama ugg í brjósti, margir bændur a.m.k., ég hef talað við þó nokkuð marga bændur, sem telja sig hafa þörf á því að breyta lausaskuldum sínum í föst lán, en eru kvíðafullir yfir því, að bréfin verði hvergi keypt. Og enn fremur eru menn nokkuð svartsýnir í sambandi við vextina. Þeir eru hræddir við, að settir verði háir vextir á þessi lán. Það mun nú eiga að gerast með reglugerð, og ráðh. mun eiga þar um að ráða, og vil ég vænta þess, að hann hafi þar í huga hagsmuni bænda, þegar hann ákveður vextina. Ráðh. sagði, að honum hefði létt eftir að hafa lesið skýrslu frá harðærisnefndinni, hann hefði búizt við því, ac. staða bændanna væri öllu verri heldur en fram kemur af skýrslu harðærisnefndar. Mér þykir það nokkuð einkennilegt, að það skuli ekki hafa verið birt þessi skýrsla harðærisnefndar og vil nú mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann láti birta skýrsluna og afhenda hana alþm. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er ekki talnaglöggur maður, enda átti ég ákaflega erfitt með það áðan, þegar ég hlustaði á hæstv. ráðh., að festa hendur á þeim tölum, sem hann las upp úr þessari skýrslu. Allt annað mál væri það, ef maður hefði þetta plagg fyrir framan sig og gæti ályktað út frá því, sem maður sjálfur læsi. Mér finnst nauðsynlegt, að svona skýrslur, sem unnar eru af opinberum nefndum, sem skipaðar eru af stjórnvöldum, séu lagðar fyrir alþm. og þeir fái að hafa þær undir höndum, og ég vil mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann láti nú framkvæma þetta, því það getur ekki verið, að þar sé neitt að fela eða sem þurfi að fela eða sem eigi að fela. Þetta hlýtur að vera opinbert mál.

Hæstv. ráðh. sagði, að það sýndi sig af skýrslunni, að allur fjöldi bænda hefði sæmilega afkomu. Sem betur fer eru það náttúrlega margir bændur, sem hafa góða afkomu, allmargir bændur. En þegar tekið er meðaltal af þessu, sýnist manni, að útkoman sé í raun og veru harla slæm. Hæstv. ráðh. sagði, að samkv. skýrslunni, ef ég hef tekið rétt eftir, væru nettótekjur bændanna 129 þús. að meðaltali — þetta eru lágar nettótekjur — og meðalskuldin hjá bændum væri 262 þús. kr. Honum fannst þetta ekki, held ég, mjög hátt, en ég verð að segja það, að ég álít þetta ákaflega hátt miðað við nettótekjur, því að maður, sem skuldar 262 þús. kr., en hefur ekki nettótekjur til þess að lifa af nema 129 þús. kr., það er bersýnilegt hverjum manni, að hann getur ekkert borgað. Hann er alls ófær um það að borga vexti eða afborganir af skuldum. Hæstv. ráðh. sagði, ef ég hef tekið rétt eftir, að lausaskuldirnar væru að meðaltali 103 þús. kr. á bónda. Þær eru næstum því jafnháar, lausaskuldirnar, eins og meðalnettótekjurnar. Heil starfsstétt eins og bændastéttin, elzta stétt landsins og sú stétt í landinu, sem segja má, að vinni þau verk ýmis, sem gera landið í raun og veru byggilegt með því að halda við ræktun landsins og framleiða þær matvörur, sem við verðum að framleiða hér hjá okkur sjálfir, — við getum ekki sótt þessar matvörur annað — hún býr að mínum dómi við allt of slæm kjör, og það sýnir sig m.a. af þessari skýrslu. Skýrslan er samkv. því, sem hæstv. ráðh. las, órækt vitni um það, að þessi stétt býr við algerlega óviðunandi lífskjör, þó að það megi benda á einstaka bændur innan um, sem hafi það gott. Það hefur alla tíð verið, síðan sögur hófust, að á verstu harðæris- og harðindatímum voru einstaka menn, sem söfnuðu auði, og þar af leiðandi er ekkert að miða við slíkt, þó að einstakir bændur hafi góða afkomu, þegar allur fjöldinn býr við, ég vil segja, mjög skarðan hlut.

Þá vil ég aðeins víkja að ýmsum öðrum atriðum, sem ekki snertu nú beint þessa skýrslu. Ég vil t.d. benda á það, að bændastéttin býr við gerðardóm um sitt kaup og sín kjör og það er ekki nóg með það, heldur fær hún ekki greitt jafnharðan sitt kaup eða þann kostnað, sem hún hefur af rekstri við sinn atvinnuveg. Bóndi, sem byrjar að leggja inn mjólk 1. eða 2. janúar í ár, fær ekki endanlega greiðslu fyrir þessa vöru fyrr en svona í apríl, maí á næsta ári, og þá á hann á hættu að fá ekki nálægt því þann verðlagsgrundvöll, sem honum hefur verið ákvarðaður, og hefur oft skeð, að það hefur vantað á hann allverulega. Sama er að segja um sauðfjárafurðirnar. Það var núna fyrir fáeinum dögum, að bændum á Suðurlandi var að berast fjórða greiðsla fyrir sláturfjárafurðir, sem þeir lögðu inn á haustinu 1967 og það er talið, að 5. greiðsla muni vera eftir, nokkrar kr. í hvert skipti af hverri kind, sem lögð er inn. Það er verið að reyta þetta í marga mánuði, mörg misseri í hendur bændunum. Það sjá allir, hve gífurlegur skaði það er fyrir hvern einasta bónda að fá ekki afurðirnar sínar greiddar svona nokkurn veginn eftir hendinni. Það veldur því, að hann verður að hafa mikinn vaxtakostnað í sambandi við sinn búrekstur, af því að hann hefur ekki fengið afurðir sínar greiddar nokkurn veginn jafnharðan. Þetta gerir auðvitað fátæku bændunum, þeim sem verst eru staddir, enn þá verra lífið heldur en nokkurn tíma skýrsla harðærisnefndar gefur til kynna.

Þá er það um eignirnar, eins og hæstv. ráðh. gat um. Það er ekki um að ræða í raun og veru, að það sé hægt að vita, hvert raunverulegt verðgildi fasteigna er núna, því að þó að fasteign sé metin á þetta eða hitt, þá er óvíst um það, hvort það væri hægt að breyta henni í það peningaverð, sem matið fjallar um. Og það hefur verið a.m.k. á undanförnum árum ákaflega erfitt að selja jarðir á því verði, að bóndinn fengi út úr því nema sáralítið af því, sem hann raunverulega á í þessum eignum. Flestir hafa gengið svo að segja slyppir og snauðir frá þeim jörðum, sem þeir hafa yfirgefið. Þetta er þess vegna ákaflega erfið aðstaða að mínu viti, sem bændastéttin er í, og ég get ekki verið jafnbjartsýnn og hæstv. ráðh. Honum létti við að lesa skýrsluna, og það má kannske segja, að skýrslan komi betur út heldur en hann og aðrir hafa gert ráð fyrir. En mig uggir, að ástandið sé í raun og veru talsvert miklu verra heldur en skýrslan gefur til kynna, og þar hef ég m.a. bent á þetta, það stríð, sem bændur eiga í við það að sjá fyrir sér og sínum m.a. vegna þess, hvað þeir fá seint afurðir sínar greiddar. Enn fremur munar þá ekki lítið um þann skatt, sem lagður hefur verið á þá til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Þó að það kunni að vera gert í góðum tilgangi, þessi skattlagning, þá er hún einstök í sinni röð, að skattleggja fátæka stétt til bankastofnunar og ekkert kemur á móti. Og á sama tíma voru vextirnir stórkostlega hækkaðir af þeim lánum, sem þessir sömu fátæku bændur skulduðu hjá þessari sömu lánastofnun. Þetta, vitanlega allt þetta hjálpast að til þess að gera aðstöðu þessarar stéttar miklum mun verri heldur en hún annars kynni að hafa orðið. Og ég vildi láta þetta koma fram í sambandi við málið.

Auðvitað mun ég styðja þetta frv. og greiða atkv. með því, að það verði að lögum, en ég álít, að það nái ekki nógu langt, og ég vænti þess, að bornar verði hér fram til reynslu í hv. d. till. til að breyta málinu í það horf, sem ég tel æskilegra, að það væri í, þegar það er gert að lögum sem sagt um það, að lögð væri kaupskylda t.d. á Seðlabankann og að vextirnir væru ákveðnir hóflega. Það tel ég, að væri mjög nauðsynlegt, að slíkar till. væru samþykktar hér. Það mun nú hafa verið gerð einhver tilraun um það í Ed. að fá þessar breytingar o.fl., en ekki tekizt. En ég vil nú vona, að Nd. taki þeirri efri fram og breyti málinu í það horf, að það sé ugglaust, að það verði að verulegu gagni fyrir bændastéttina, því að ég veit, að það eru margir uggandi um, að þeir geti ekki látið sér verða þetta að því gagni, sem með þyrfti, þar sem kaupskyldu á bréfunum vantar.

Ég ætla þá ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni.