10.04.1969
Neðri deild: 75. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það var auðheyrt á ræðu hæstv. landbrh., að það er engin uppgerð hjá honum bjartsýnin, því að hann var gamansamur, sló á ýmsa strengi í ræðu sinni og ræddi þetta mál í léttum tón, svo að það er auðfundið, að hann segir satt, hann er bjartsýnn. Mér þykir nú í raun og veru vænt um það, því að ég veit, að bjartsýnum manni líður vel. Ég man vel eftir hæstv. núv. landbrh., þegar honum leið ekki vel, þegar hann var svartsýnn og horfði þungbúnum svip til framtíðarinnar, en það var á þeim árum, þegar svokölluð vinstri stjórn sat að völdum. Þá var nokkuð annað uppi á teningnum hjá hæstv. ráðh. En ég er feginn því, að honum hefur batnað það og nú er hann orðinn bjartsýnn. Ég játa það, að ég vil gjarnan geta verið bjartsýnn og er það oft. En ég álít, að það sé rangt af manni að ala með sér óraunhæfa bjartsýni, því að þá er maður til í að gera hluti, sem getur hefnt sín síðar að hafa gert. Við verðum alltaf að meta ástandið frá raunhæfu sjónarmiði og reyna að vinna samkvæmt því. Þetta veit ég nú, að hæstv. landbrh. vill gera, ég efast ekkert um það, því að maðurinn er þannig gerður, að hann er enginn flysjungur, og hann vill reyna að vinna á raunhæfum grundvelli. Það efast ég ekkert um, þó að það auðvitað takist ekki hjá honum frekar en öðrum, ekki alltaf. Hann sagði, að ég mundi nú vera tiltölulega rólegur, mér mundi líða allvel, og þetta er alveg rétt. Mér hefur eiginlega alltaf liðið vel, og ég hef ekki yfir neinu að kvarta persónulega sjálfur, og ég er ekki að kvarta neitt fyrir sjálfan mig. En mér þykir vænt um bændastéttina, og mér finnst, að mér þyki vænt um íslenzku þjóðina, og ég er sannfærður um það, að íslenzku þjóðinni getur ekki liðið vel, nema hún búi sæmilega að bændastéttinni.

Hæstv. ráðh. sagði: stéttirnar eiga að búa við jafnrétti. — Þetta er auðvitað alveg hárrétt. Stéttirnar eiga að búa við jafnrétti. Allir borgarar þjóðfélagsins eiga sama rétt til lífsins og lífsgæðanna. En ég neita því algerlega, að það hafi tekizt fram á þennan dag að láta alla búa við það réttlæti, sem við auðvitað allir viljum keppa að, að stéttirnar búi hér við jafnrétti. Það hefur ekki tekizt hjá núv. hæstv. ríkisstj., og það hefur ekki heldur tekizt áður hjá öðrum ríkisstj. Það er þetta, sem flestir eru að berjast við, flestir stjórnmálamenn vilja nú gera, að búa vel að þegnum landsins. Það fer eftir því, hvaða stefna er á hverjum tíma rekin af stjórnvöldum landsins í þjóðmálunum. Það fer eftir því, hvernig hún er, hvað vel þetta tekst, hvort það tekst að meira eða minna leyti. Mér finnst, eins og núna standa sakir, að þá sé stjórnarstefnan þannig, að það hafi aukizt bilið á milli stéttanna, þannig að það hafi fjölgað þeim auðugu, en á kostnað þeirra, sem eiga að vinna hin erfiðari störf í þjóðfélaginu. Ég held, að það verði allir að viðurkenna það, og ég heyrði, að hæstv. landbrh. gerði það áðan í ræðu sinni, að það væri í raun og veru ekki hægt að lifa af tekjum verkamanns núna, eins og þær eru; af 8 stunda vinnudegi með verkamannskaupi væri ekki hægt að lifa. Þetta er alveg rétt, það er ekki hægt. Það er ekki heldur hægt að lifa neinu mannsæmandi lífi, sem við getum kallað, af þessum meðaltekjum bændanna. Hæstv. ráðh. segir, að þessar meðaltekjur séu svona lágar vegna þess, að í sumum héruðum séu bændurnir svona tekjulágir. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hann hafi sagt, að í skýrsluna hefðu ekki verið teknir þeir, sem höfðu 80 þúsund og þaðan af minna. Tók ég rangt eftir því? (Landbrh.: Já, já.) Nú, er það rangt hjá mér. (Gripið fram í.) Já, já, það er einmitt það, þá hef ég tekið rangt eftir. En sem sagt, ég álít, að þessar meðaltekjur, 129 þús., séu allt of lágar, til þess að hægt sé að láta sér líða sæmilega við nútímakröfur af svo lágum launum. Og ég hygg, að þeir séu svo fáir tiltölulega, sem hafa það háar tekjur, að þetta sé nokkurn veginn raunverulegt að byggja á þessum tölum.

Hæstv. ráðh. segir, að 77.7% séu vel settir, 12.8% sæmilega settir, þ.e.a.s. það má gera ráð fyrir, að það séu menn, sem þyrftu kannske eitthvað að bæta hag sinn, en 6.1% eigi í erfiðleikum, og 3.4% eru illa settir, segir hæstv. ráðh., og spurning um, hvort það bezta, sem fyrir þá væri gert, væri það að koma þeim burt frá búskapnum og að öðrum störfum. Ég ætla ekki að leggja neinn dóm á þetta, en ég hygg, að það sé erfitt núna að koma mönnum að öðrum störfum. Ég sá seinast í morgun í blaði, að enn þá væru tvö þúsund manns á atvinnuleysisskrá. Og nú er hávertíð, blómatíminn í atvinnulífi þjóðarinnar á þessum tíma og tvö þúsund manns á atvinnuleysisskrá, svo að það er ákaflega hæpið, að það sé nú auðvelt að koma þessum, þó að það sé ekki nema þrjú til fjögur hundruð bændum og þeirra skylduliði til starfa annars staðar en við landbúnað. Enda hygg ég, að við þurfum á þessu fólki að halda við landbúnað. Það eru nú ekki nema eitthvað 12–13% af vinnuafli þjóðarinnar, sem vinna við landbúnaðinn. Og ég held, að það sé orðin lægri tala en í sumum Evrópulöndum, a.m.k. ekki miklu hærri og líklega lægri en sums staðar, svoleiðis að við erum komnir á það stig að vera jafnokar annarra að þessu leyti í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna. Við höfum flutt út dálítið af landbúnaðarvörum, afganginn af því, sem þjóðin hefur ekki þurft að nota. Ég geri ráð fyrir, að það verði keppt að því að koma upp iðnaði, t.d. í sambandi við ull og skinn, og að sá hluti landbúnaðarvörunnar, sem við notum ekki, verði þannig í útfluttum iðnaðarvörum. Þessu ber auðvitað að keppa að og stefna að því að auka þannig atvinnu fyrir fólk í bæjum. Það er geysimargt fólk í bæjunum hér, sem hefur lífsframfæri sitt af störfum í sambandi við landbúnaðinn, af iðnaði og vörudreifingu og öðru slíku, og þess vegna eigum við að reyna að halda allri landsbyggðinni í byggð, hafa bændur um allt landið, norðan og vestan og austan og sunnan, alls staðar eigum við að hafa bændur. Það er röng stefna, ef við ætlum að eyða einhver svæði landsins að allri byggð, og hygg ég, að hæstv. landbrh. sé mér nú sammála í því.

Hæstv. landbrh. minntist. á það, þegar kjötið var hækkað 1942 um 100%. Hann sagði: Þá var ekki Framsókn við völd. Og mjólkin hefði svo hækkað rétt á eftir. Hann var nú svo hógvær og lítillátur, að hann nefndi ekki sitt eigið nafn, en þess hefur nú oft verið getið samt á síðum Morgunblaðsins, að það hafi verið hann, sem hækkaði kjötið 1942, því að hann var þá formaður kjötverðlagsnefndar og á vissulega sinn heiður af því, sem þá var gert. Ég vil síður en svo hafa það af honum. En þess má líka geta í sambandi við þann atburð, að þá stóð styrjöldin í algleymingi og vörur allar hækkuðu. Allar matvörur voru eftirsóttar, hvort heldur það var kjöt eða fiskur eða aðrar matvörur, þær voru eftirsóttar vegna stríðsins og það var mjög gott tækifæri þarna til þess að hækka þessar vörur mikið, og hæstv. landbrh. núv. var svo heppinn að vera þá nýlega orðinn þingmaður, hafa verið settur formaður í þessa virðulegu kjötverðlagsnefnd og eiga sinn þátt í því að hækka kjötið, og ég skal síður en svo vera að hafa það af honum. En það voru fyrst og fremst utanaðkomandi skilyrði, sem gerðu þetta mögulegt, en ekki einhver sérstök vísindi eða sérstakur vilji af hendi þess flokks, sem hann tilheyrði, eða þeirrar stjórnar, sem þá sat að völdum. Það voru fyrst og fremst utanaðkomandi aðstæður, sem sköpuðu þessi skilyrði, að hægt var að gera þetta. Og síðan hækkuðu vörur á eftir.

Hann sagði, hæstv. ráðh., að ég hefði verið að klaga upp á Sláturfélag Suðurlands. Þetta er hinn mesti misskilningur. Ég var ekki að klaga upp á einn eða neinn annan en þá ríkisstj. Ég var auðvitað í minni ræðu að kvarta undan hennar stefnu, og það er vitanlega afleiðing af stjórnarstefnunni, að afurðasölufélög bænda eiga erfitt með að skila verði afurðanna fyrr en eftir dúk og disk. Það er ekki verið að kenna það stjórn Sláturfélags Suðurlands, að verðið kemur svo seint. Ég veit, að þar er hverri krónu skilað jafnharðan og hún fellur til. Ég efast ekkert um það. Eins má segja um Mjólkurbú Flóamanna, sem hæstv. ráðh. var nú í raun og veru að klaga upp á, að borgaði ekki mjólkina eins og það ætti að geta nú, en sannleikurinn er sá — mér er kunnugt um það, þar sem ég á sæti þar í stjórn — að það er ævinlega hækkuð útborgunin um leið og nokkur hækkun kemur á afurðirnar. Og fram að þessu hefur Mjólkurbúið setið með svo miklar birgðir, að það hefur ekki getað borgað meira út heldur en gert hefur verið. Ég skal þó játa það, að Mjólkurbúið hefur notið ágætrar fyrirgreiðslu í bönkum, í Landsbankanum t.d. Ég hef ekkert út á það að setja. Og Mjólkurbúið hefur fengið þau afurðalán, sem það hefur átt rétt á, og ég skal líka játa það, að hæstv. landbrh. hefur gert það, sem í hans valdi hefur staðið, til þess að rétta fram hjálparhönd, þegar með hefur þurft í sambandi við þessa stofnun, svoleiðis að þar er ekkert upp á að klaga. En það hafa safnazt birgðir á undanförnum árum, og útflutningurinn á þessum mjólkurvörum hefur orðið það mikill og á kjötvörum raunar líka, að útflutningsuppbæturnar hafa ekki nægt núna síðustu árin og bændurnir hafa orðið að taka á sjálfa sig nokkuð af þeim halla, sem orðið hefur vegna útflutningsins. Og nokkru af þeim vanda hefur auðvitað verið ýtt á undan sér, og það veit hæstv. ráðh. vel og ber ekki sízt ábyrgð á því, að það hefur verið gert og nú kemur auðvitað að því, að menn standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að það hefur verið ýtt á undan sér vandanum að einhverju leyti. Og þess vegna er það nú, að það hefur sigið á ógæfuhlið hjá mjólkuriðnaðinum. Það varð að taka 28 aura verðjöfnunargjald af mjólkinni á s.l. ári til þess að mæta þessum vanda, og þeir peningar koma aldrei til útborgunar framar, hvorki hjá Mjólkurbúi Flóamanna né öðrum. Núna horfum við að vísu fram á það, að hægt verði að auka útborgun, þegar að því kemur, að birgðirnar eru þrotnar.

Hæstv. ráðh. sagði það um gagnrýni mína á frv., þar sem ég var að gagnrýna, að ekki væri kaupskylda á bréfunum, engin stofnun væri skyldug til að taka þau, þá sagði hann: „Er ekki eðlilegra að nota frjálsu leiðina?“ Það er náttúrlega ákaflega gott að vera frjáls, en það er líka, að þegar frelsið er, þá hafa þessar stofnanir líka frelsi til þess að neita um það að taka þessi bréf. Og ég vil spyrja hver var það, hvaða aðili var það, sem bannaði það, að það yrði sett í þetta frv. hæstv. ríkisstj. kaupskylda á bréfin? Hver var það? Ég þykist þekkja hæstv. landbrh. það mikið, að ég er sannfærður um það, að hann hefði viljað velja þann kostinn að hafa kaupskyldu á bréfunum, því hann veit það sjálfur, að þá fyrst er það tryggt, að þetta komi þeim að gagni, sem það á að hjálpa. En ég hef grun um það, að það hafi einhver aðili verið þar að verki, sem hafi komið í veg fyrir það, að það yrði sett þessi kaupskylda á bréfin. Og þess vegna getur svo farið, að þetta frv., þegar það er orðið að lögum, það verði meira sýndarmál heldur en annars hefði orðið. Ég vil vona, að það verði ekki, en ég óttast það, að það kunni að verða, því að það er vitanlega hægt að koma í veg fyrir það, að bréfin verði tekin, úr því að engin skylda er fyrir hendi í lögunum um það, að þau verði keypt.

Ég ætla þá ekki að segja fleira um þetta að svo stöddu.