22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. leyfir sér að flytja hér eina skrifl. brtt. við 1. gr. frv., þá að í gr. bætist í stafrófsröð: Christoffersen, Richard Örn Johnsen, nemi í Reykjavík, fæddur á Íslandi 15. júní 1946.

Þessi umsókn barst ekki fyrr en í gær til n., en þar sem frv. hefur ekki hlotið hér endanlega afgreiðslu, taldi n. rétt að verða við þeirri beiðni, þar sem umsækjandi uppfyllir öll skilyrði, sem n. hefur til hliðsjónar.

Enn fremur vil ég minna á það, sem ég kom hér inn á í gær, að ég gerði fsp. til hæstv. menntmrh. varðandi 2. gr. þessa frv. og lýsti því þá, að ég hefði ekki hugsað mér að flytja neina brtt. við hana nú á þessu þingi, en þar sem menntmrh. í umr. um ríkisborgararétt fyrir tveimur þingum boðaði það, að hann mundi skipa n. til þess að endurskoða mannanafnalögin, og lagði áherzlu á það, að sú n. hraðaði sinni endurskoðun, og taldi eðlilegt, að það yrði tekið upp á fyrsta þingi eftir kosningar, en þar sem þetta er nú annað þing og ekkert hefur bólað á þessu, þá leyfði ég mér að flytja þessa fsp. með ósk um það, að hann svaraði henni hér við 3. umr., en í þessari ræðu sinni lýsti hann yfir sem sinni persónulegu skoðun, að hér ætti að gera breytingu að sínum dómi, þannig að þeir, sem ríkisborgararétt fengju, fengju að halda sínu ættarnafni ævina á enda, en yrði aftur gert að skyldu að taka upp íslenzkt fornafn, og þá auðvitað yrðu afkomendur þeirra manna að halda sér við nafn föður síns, en hin gömlu ættarnöfn mundu hverfa um leið og þessir menn, sem ríkisborgararétt fá, eru allir, og ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég er sammála því og er mjög hlynntur, að þessi breyting verði gerð, því að mér er kunnugt um þó nokkra aðila, sem búsettir hafa verið hér á landi áratugum saman, en kæra sig alls ekki um að sækja um ríkisborgararétt á meðan þessi ströngu ákvæði eru, að menn verði gersamlega að skipta um nöfn, og það er þess vegna sem ég vakti máls á þessu hér í gær og ítreka þessa fsp. til hæstv. menntmrh., hvað líði endurskoðun þessa máls.