25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

192. mál, Landsvirkjun

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég ætti kannske ekki að eyða fleiri orðum í viðræður við hv. 6. þm. Reykv. um þau mál, sem hér hafa verið til umr. En þegar greindur maður tekur til máls og segir annað eins og hann sagði hér seinast, sem reyndar er það sama, sem hann hefur verið að skrifa, er auðvitað ágætt að fá það skjalfest hér í þinginu.

Hv. þm. segir hér áðan: Hvers vegna var barizt um vinnuaflið, áður en álsamningurinn var gerður? Þá var barizt um vinnuaflið, en eftir að álsamningurinn var gerður, þá bara datt þessi barátta niður, af því að þá vantaði vinnu. Og af hverju urðu umskiptin? spyr hv. þm. Vegna þess, að stjórnin dró saman vinnuaflið í öðrum greinum. Álsamningurinn er gerður 1966 um vorið. Vinna var mjög mikil allt það ár og framan af ári 1967. Það er svo síður en svo, að ríkisstj. hafi ekki gert neinar ráðstafanir til þess að efla atvinnulíf á öðrum sviðum. Ég get upplýst, af því að iðnaðurinn hefur sérstaklega blandazt inn í þessar umr., að það hefur aldrei verið önnur eins fjárfesting í iðnaði eins og á árunum 1966 og 1967 500 millj. kr. hvort árið um sig, eða 1000 millj. kr. á þessum tveimur árum — og það á árinu 1967, þegar gjaldeyristekjur okkar voru að ganga til þurrðar og mikið af innfluttum vélum og tækjum til iðnaðarins var flutt inn fyrir gjaldeyrisvarasjóðinn og hann þannig notaður til þess að fjárfesta í iðnaði. Þetta er helmingi meiri fjárfesting heldur en var fyrir um það bil 7–10 árum með sambærilegu verðlagi. Enda höfðu nú verið byggðir upp fjárfestingarsjóðir fyrir iðnaðinn á undanförnum árum af núv. ríkisstj. En að það skuli geta hent, að hv. þm. hér á Alþ. segi, að skortur á vinnu hér og atvinnuleysið hafi bata komið af því, að það var búið að skrifa undir álsamninginn, er meira en lítið furðulegt. En þetta er inntakið úr því, sem hann sagði. Það er ágætt að hafa þetta orðrétt skjalfest hérna í þingtíðindunum, og þegar menn tala þannig, þá má segja, að það sé ekki veruleg ástæða til þess að eyða miklum tíma í rökræður. En frá því að álsamningurinn var gerður, og það á þessum hv. þm. að vera kunnugt um, hafa útflutningstekjur okkar Íslendinga fallið um meira en 50%, og það kynni kannske að vera nokkur ástæða fyrir þeim erfiðleikum, sem við eigum í á atvinnumarkaðinum sem og annars staðar.

Hv. þm. minntist á, að það hafi heyrzt áður frá mér, að atvinna í álbræðslum og atvinna í efnaverksmiðjum skapaði vinnu fyrir fleiri og þetta væri sem sé ekkert nýtt, þetta væri svona, þegar togari væri gerður út o.s.frv. Og það er alveg rétt, á móti því hef ég aldrei mælt, en ég vildi vekja athygli manna á því, að varðandi atvinnumarkaðinn hefur stóriðjan miklu meiri þýðingu heldur en almennt hefur verið látið í veðri vaka.

Hv. þm. taldi, að það mundi ekki vera hagstæður samanburður fyrir álbræðsluna t.d. við togaraútgerðina. Ja, nú hef ég ekki við hendina tölur, sem ég þori að bera ábyrgð á, en mig langar þó til að hreyfa því, að ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, að hreinar gjaldeyristekjur af togara hafi á undanförnum árum verið svona 20 millj. kr., sem gætu þá legið einhvers staðar núna milli 20–40 millj. kr., hreinar gjaldeyristekjur. En þá þarf líka um 20 togara til þess að vega upp á móti þessari einu álbræðslu í öflun hreinna gjaldeyristekna. Og það er bara ekki svo lítið, að ég held, að samanburðurinn þarna sé ekkert sérstaklega óheppilegur fyrir álbræðsluna, þó að mér sé alveg fullljóst, eins og hverjum öðrum, að togaraútgerðin hefur verið ein af okkar sterku atvinnugreinum og verður það sjálfsagt í framtíðinni. En aðstaðan hefur breytzt á stuttum tíma fyrir togaraútgerð, og þess vegna dregst togaraútgerðin saman. Orsökin er m.a. hinn gífurlegi síldarafli, sem við nutum á árunum 1964, 1965 og 1966. Þá er byggður upp floti af allt annarri gerð skipa, fyrst og fremst miðaður við þessar fiskveiðar. Á þeim sama tíma eiga togararnir í vök að verjast og varla nokkur togari, sem gerður er út nema með stórkostlegu tapi. Það hefur verið unnið að því að undanförnu af hálfu ríkisstj. að kanna möguleikana fyrir því að efla togaraútgerð með nýtízku togurum af nýjustu gerðum og nefndir unnið að því og lagt fram grg. Það má segja, að það erfiðasta í því sé, hversu óarðbærir í rekstri þessir togarar virðast eftir öllum þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið um rekstur þeirra, þó að menn hefðu fjármuni til þess að leggja í kaup á nýjum togurum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en nenni ekki að eyða orðum að því, þegar hv. 6. þm. Reykv. er að tala um það, hvort ég hafi enga hugmynd um virkjanir Þjórsár o.s.frv. Ráðagerðir hafa verið uppi um margt, en það er ekki sama og að ákvarðanir séu teknar, eins og háttv. þm. vildi vera láta. Ég tek undir það með raforkumálaráðh., að því miður eru virkjunarrannsóknir okkar komnar allt of skammt, af því að við erum í sífelldu kapphlaupi við tímann, og þeir menn, sem bezt til þekkja og hafa mesta trú á framtíð landsins, bera hvað mestan kvíðboga fyrir því, að vatnsaflið okkar kunni e.t.v. ekki að nýtast nema að litlu leyti vegna seinagangs og vegna úrtölumanna eins og hv. 6. þm. Reykv. og annarra hans líka.