28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Við hv. 5. þm. Norðurl. e. höfum leyft okkur að flytja brtt. við frv., eins og það nú liggur fyrir, og eru þessar brtt. á þskj. 746 við 1. og 2. gr. frv. og við fyrirsögn þess. Eins og frv. er nú, þá hljóðar 1. gr. þess svo:

„Félmrn. skal í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga stuðla að eflingu sveitarfélaganna með því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga í eitt sveitarfélag, samkv. því, sem fyrir er mælt í lögum þessum.“

Þessi 1. gr. er óbreytt frá því, sem hún var, þegar það var lagt fram í öndverðu, þó að frv. hafi verið verulega breytt á eftir.

Og í 2. gr., eins og hún er nú, segir um þetta hlutverk, sem félmrn. er falið í 1. gr., að við framkvæmd þess skuli vera lögð sérstök áherzla á eftirfarandi, sem síðan er talið upp í 4 liðum, og í fyrsta lið eða a-lið er áherzla lögð á, að rn. eigi frumkvæði að því, að athuguð verði skilyrði fyrir sameiningu einstakra sveitarfélaga um allt land.

Það er þessi yfirlýsta stefna, sem fram kemur í frv. og lagt er til að gerð verði að lögum, að stuðla að því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga í eitt sveitarfélag og að félmrn. eigi frumkvæði að því, að athuguð verði skilyrði sameiningar. Þetta fellum við hv. 5. þm. Norðurl. e. okkur ekki við. Ég tel, að í sjálfu sér hafi ekki verið þörf á nýjum lögum um það, hversu með skuli fara, þegar sveitarfélög sameinast, því að skýr ákvæði um þetta eru í sveitarstjórnarlögum. En einnig eru í þeim lögum ákvæði um samstarf sveitarfélaga án sameiningar. Og það hefur verið stefna ríkisvaldsins til þessa að greiða fyrir samstarfi sveitarfélaganna, en ekki að sameina þau. Það hefur verið á valdi sveitarfélaganna sjálfra og ríkið ekkert frumkvæði haft, og þannig kysi ég að hafa það og við flytjum brtt. um, að þetta verði svo eftirleiðis.

En ef talin er þörf á að setja ný lög, virðist mér, að þau ættu eingöngu að vera um, hvers konar fyrirgreiðsla það skuli vera og með hvaða hætti, sem rn. veitir, þegar sveitarfélög kjósa að sameinast, en að rn. eigi ekki að hafa frumkvæðið, og það á alls ekki að lýsa yfir því í lögum sem stefnu ríkisvaldsins að hafa í frammi áróður við sveitarfélögin í þeim tilgangi að fá þau til að sameinast. Ef þau vilja sameinast, á ekki að standa gegn því, en það á ekki að hafa frammi af hálfu ríkisins áróður fyrir slíku.

Ekki verður annað sagt þrátt fyrir breyt., sem gerðar hafa verið á frv., og sumar þeirra eru til bóta, en að áfram haldist þessi áróðursblær á 1. og 2. gr. og á fyrirsögn frv., enda ætla ég, að það hafi komið fram hjá frsm. n. á síðasta fundi, að meginefni frv. sé þessi nýja yfirlýsta stefna, sem fram kæmi í því gagnvart sveitarfélögunum. Ef þm. vilja ekki breyta um stefnu gagnvart sveitarfélögunum að þessu leyti og láta þau algerlega sjálfráð um þetta, um það að hafa frumkvæði að sameiningunni, þá hygg ég, að menn ættu að greiða atkv. með þessum brtt., sem við hv. 5. þm. Norðurl. e. flytjum á þskj. 746.