11.11.1969
Efri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur legið tvisvar áður fyrir hinu háa Alþ. og nú síðast á síðasta þingi. Þá var það til meðferðar í þessari hv. deild og fékk hér þá allrækilega athugun í n. Leitað var umsagnar margra aðila, og fram komu margar ábendingar frá ýmsum stofnunum og umsagnaraðilum, sem voru athyglisverðar. Allt þetta leiðir til þess, að ég mun ekki ræða þetta mál í einstökum atriðum, af því að það er hv. þdm. svo kunnugt, þannig að ég mun aðeins drepa á meginatriði málsins í þessari framsögu, ef tilefni gefst ekki til frekari umr.

Eins og í grg. frv. segir, var sett á laggirnar n. 1965 til þess að undirbúa þessi mál, og var henni fyrst og fremst ætlað að kynna sér rækilega, með hverjum hætti væri hægt að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu þess fjármagns, sem á hverjum tíma er varið til opinberra framkvæmda. Mér var það vel ljóst, þegar þessi n. var sett á laggirnar, bæði af yngri og eldri kynnum af þessum málum, að það vantaði mjög mikið á það, að hið takmarkaða fjármagn, sem við höfum til umráða hér hverju sinni á Íslandi í sambandi við opinberar framkvæmdir, væri notað eins vel og skyldi. Bar þar margt til, sem ég skal ekki rekja hér, bæði slæmur undirbúningur verka, áður en í þau var ráðizt, skortur á könnun á því, hvaða úrræði væru heppilegust til að leysa tiltekin vandamál, vinna við verkið sjálft, hvernig það væri af hendi leyst, og loks eftirlit með því og úttekt, hvernig árangur hefði orðið af hinu tiltekna verki, og heildarskoðun kostnaðarliða, sem gæti þá leitt til meira aðhalds, þegar skylt væri að leggja slíkar grg. fram.

Þetta varð niðurstaðan, enda var þetta staðfest af þessari umræddu n., og frv. var lagt þá fram á Alþ. 1966, þá aðeins til að sýna málið, þar sem hér var um svo miklar nýjungar að ræða, að ég gerði aldrei ráð fyrir því, að það fengi endanlega afgreiðslu. Það var síðan endurskoðað af mþn., þar sem í ljós kom, að á því voru ýmsir vankantar, og var m. a. höfð náin samvinna við Samband ísl. sveitarfélaga, Efnahagsstofnunina og fleiri aðila til þess að kanna ýmsar hliðar málsins. Einnig var málið kynnt aðalráðgjafa Alþjóðabankans um framkvæmdaáætlanir, og hann taldi að hér væri um mjög mikilvægt mál að ræða og frv. tvímælalaust spor í rétta átt til að fá æskilega skipan þessara mála. Eftir að síðasta þingi lauk, hefur frv. síðan enn verið tekið til athugunar á grundvelli þeirra umsagna, sem ég gat um áðan, að fram hefðu komið, og ýmsar voru mjög athyglisverðar, og hefur frv. í nokkrum atriðum verið breytt í samræmi við þær ábendingar, sem fram komu í þessum umsögnum.

Um frv. er alger samstaða milli allra þeirra aðila, sem það varðar og hafa haft með það að gera, og sérstaklega snertir það að sjálfsögðu sveitarfélögin, vegna þess að þau eru víðast hvar samaðili með ríkinu að margvíslegum framkvæmdum, en að öðru leyti er að sjálfsögðu hér einnig um beinar ríkisframkvæmdir að ræða.

Ég skal taka það fram, til þess að það valdi ekki misskilningi, að það er ekki ætlunin með þessu frv. að raska því, að hinar stóru framkvæmdastofnanir ríkisins hafi áfram með höndum framkvæmd verka, svo sem verið hefur, þ. e. a. s. vitamálastjórn og vegamálastjórn. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að vinnubrögð varðandi undirbúning framkvæmda hjá þessum aðilum séu með svipuðum hætti. Það er, eins og frv. ber með sér, gert ráð fyrir alveg sérstökum reglum varðandi það, hvernig undirbúa skuli opinbera framkvæmd.

Það er í fyrsta lagi gengið út frá því, að það fari fram könnun á hinum ýmsu valkostum, þ. e. a. s. svokölluð frumathugun í sambandi við það, hvernig æskilegast verði leyst sú tiltekna þörf, sem talið er nauðsynlegt að leysa. En þetta, eins og ég áðan sagði, hefur ákaflega oft verið vanrækt og alls ekki skoðað ofan í kjölinn, hvort ekki væru til önnur og heppilegri úrræði til þess að leysa tiltekna framkvæmdaþörf en valin hafa verið.

Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir því, eftir að menn hafa komizt að niðurstöðu um, hvaða valkostur sé heppilegastur, að þá verði gerð rækileg áætlun um hina tilteknu framkvæmd, ekki aðeins um stofnkostnað, heldur jafnframt, — sem því miður hefur hingað til að mestu leyti verið vanrækt og jafnvel öllu leyti, — áætlun til nokkurra ára um reksturskostnað hins umrædda mannvirkis.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir tiltekinni skipan mála, þegar komið er að framkvæmdastigi. Í fyrsta lagi er ákveðið, að í framkvæmd verði ekki ráðizt, nema séð sé fyrir fjármagni til framkvæmdarinnar, en það er í samræmi við þá reglu, sem t. d. hefur verið sett í skólakostnaðarlögum, og þau lög eru í rauninni að verulegu leyti byggð á því sjónarmiði, sem hér er rætt um, og gert ráð fyrir, að ekki þurfi að breyta þeim að neinu ráði, þó að þessi nýja skipan verði tekin upp, enda voru þau samin, eftir að frumtill. um gerð þessa frv. lágu fyrir, en í skólakostnaðarlögum er gert ráð fyrir, að ekki verði ráðizt í skólabyggingu nema því aðeins að séð verði, hvernig henni verði lokið á skömmum tíma, þannig að hún þurfi ekki að stöðvast sökum fjárskorts. En margar byggingar hafa einmitt af þeim sökum orðið miklum mun dýrari en ella hefði orðið. Hið sama er gert ráð fyrir að gildi í sambandi við verklegar framkvæmdir almennt.

Þá er gert ráð fyrir því, að meginreglan verði sú, að opinber framkvæmd verði unnin eftir útboði og Innkaupastofnun ríkisins annist útboð og eftirlit með því, hvernig framkvæmdum sé hagað. Loks er gert ráð fyrir því, að eftir að framkvæmd sé lokið fari fram svokallað skilamat, þ. e. a. s. að mannvirki verði tekið út og borið saman við upphaflegar áætlanir og kannað til hlítar, að hve miklu leyti þær áætlanir hafi brugðizt og hvaða ástæður hafi legið því til grundvallar, ef svo hefur verið.

Ég vil taka það skýrt fram, að með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að taka neitt vald úr höndum neins þess aðila, sem það hefur nú, hvorki úr höndum Alþ., sem tekur lokaákvörðun um það, hvort það veitir fjárveitingu eða ekki, né heldur úr höndum viðkomandi rn. hvað snertir till. um það, hvort út í framkvæmd skuli farið eða ekki. Hins vegar er hið fjármálalega eftirlit með framkvæmdinni fengið í hendur fjmrn. eða fjárlaga- og hagsýslustofnuninni, þ. e. hið endanlega mat á áætlunargerðinni og frumathuguninni, en Innkaupastofnun ríkisins hefur með höndum útboðin og eftirlit með framkvæmdinni sjálfri.

Það er meginregla, sem er gegnumgangandi í þessu frv. og var talin grundvallaratriði af hálfu þeirra, sem það undirbjuggu, að reynt var að tryggja, að ábyrgðin á verkunum, þ. e. a. s. undirbúningi, framkvæmd og loks úttekt þeirra, væri ekki í höndum sama aðila, til þess að tryggja það, að fram kæmi fullkomin gagnrýni og hlutlægt mat á öllum aðstæðum, og tel ég, að eftir atvikum hafi tekizt að finna úrræði til þess að tryggja, að svo verði.

Það er gert ráð fyrir því, að sett verði á laggirnar við Innkaupastofnun ríkisins sérstök framkvæmdadeild, sem hafi með höndum það verkefni, sem frv. felur Innkaupastofnuninni, en jafnhliða gengið út frá því, að byggingaeftirlitsdeild húsameistara ríkisins, sem á auðvitað á engan hátt þar að vinna, skuli lögð niður. Jafnframt verði lögð niður byggingadeild menntmrn., og starfsmenn hennar færist þá yfir í þessa nýju allsherjareftirlitsstofnun. Með þessu móti ætti ekki að þurfa að gera ráð fyrir því, að um stóraukin útgjöld yrði að ræða með þessu frv., og ég er ekki í neinum vafa um það, a. m. k. ef vel tekst til um framkvæmdina, að þau útgjöld munu margfaldlega geta skilað sér í betri undirbúningi framkvæmda og betri hagnýtingu þess fjár, sem ríkið hverju sinni hefur yfir að ráða til þess að vinna að hinum margþættu opinberu framkvæmdum, en eins og hv. þdm. er kunnugt, og þeir hafa oft lagt áherzlu á það við ýmis tækifæri, er allt of lítið fé fyrir hendi til þess að fullnægja þeim mörgu þörfum, sem þjóðfélagið þarf að leysa hverju sinni í sambandi við margháttaðar byggingarframkvæmdir í þágu þjóðfélagsins.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið, nema tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og ég vil mjög mega mælast til þess, þar sem málið hefur fengið svo rækilegan undirbúning og athugun hvað eftir annað og allar umsagnir hafa þegar legið fyrir, að hv. n. reyndi nú að afgreiða málið sem fyrst frá sér, því að ég sé ekki ástæðu til þess, að hún þurfi að undirbúa eða leita margra umsagna, eins og gert var á síðasta þingi, því að þá komu fram svo rækileg gögn í málinu, að það ætti ekki að þurfa að endurtaka þá hringferð aftur, ef svo má segja, því hringferð er það vissulega orðin, þar sem það er komið aftur til okkar í rn., og öll þau gögn verið skoðuð rækilega og athugað, að hve miklu leyti væri talið eðlilegt að taka til greina þær ábendingar og aths., sem þar eru fram settar, og vissulega virðast þær allar fram settar af fullum skilningi á eðli vandamálsins og með mjög jákvæðu hugarfari til þeirra hugmynda, sem liggja að baki frv.