16.04.1970
Neðri deild: 75. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

12. mál, umferðarlög

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 583, ásamt meiri hl. hv. allshn., þeim hv. 9. landsk. þm., Braga Sigurjónssyni, hv. 8. landsk. þm., Steingrími Pálssyni, og hv. 1. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssyni. Þessi brtt. varð svo síðbúin hjá mér, að hún var aldrei rædd í allshn. Hins vegar sýndi ég öllum nm. till., og þeir, sem ekki eru flm. að henni, voru henni ekki mótfallnir, þótt þeir teldu hins vegar ekki fært að vera flm. að henni án frekari athugunar. Þessi brtt. er flutt að beiðni nokkurra ungmennafélaga og annarra æskulýðsfélaga og í samráði við dómsmrn., en að því kem ég betur síðar. Ég hef einnig rætt þetta mál við nokkra sýslumenn, og telja þeir, að þessi heimild sé mjög æskileg, en brtt. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undan 1. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Aftan við 1. málsgr. 65. gr.1. bætist:

Við samkomustaði, þar sem meiri háttar útisamkomur fara fram, getur lögreglustjóri sett ákvæði um takmörkun umferðar um vegi á samkomusvæðinu, sem hann telur nauðsyn á, m. a. vegna gjaldtöku á leyfðri samkomu, enda annist lögreglumenn eftirlit með framkvæmd slíkrar takmörkunar.“

Til þess að gera hv. þd. grein fyrir, hvers vegna þessi till. er flutt og hve þýðingarmikið það er, að slík heimild sé til í lögum og hún notuð, þegar við á, kemst ég ekki hjá að fara nokkrum orðum um starfsemi og starfsskilyrði þessara félaga, sem hér eiga hlut að máli, og hve þýðingarmikil starfsemi þeirra er að mínum dómi.

Fyrir rúmum áratug kom upp í okkar þjóðfélagi nýtt óþekkt vandamál, sem olli miklum áhyggjum foreldra og annarra ábyrgra þjóðfélagsþegna. Unglingar tóku upp á því að safnast saman í hundraða- og jafnvel þúsundatali á sögufrægum og fögrum stöðum hér og þar um landið og efna þar til drykkjumóta. Voru þessir staðir jafnan hart leiknir eftir slíkar samkomur og þó ekki síður stór hluti sjálfra gestanna. Þótt lögreglusveitir væru jafnan til staðar við slíkar aðstæður, varð oft ekki við neitt ráðið. Þótt unglingarnir væru teknir úr umferð jafnvel í tugatali, flestir ofurölvi, var fjöldinn svo mikill í slíku ástandi, að ekki sá högg á vatni. Hvítasunnan og verzlunarmannahelgin voru helzt valdar í þessu skyni, þótt fyrir kæmi, að aðrar helgar slyppu ekki heldur við þennan ófagnað. Í sumum héruðum var samkomuhald bannað af þessum sökum, a. m. k. um verzlunarmannahelgina, en slíkt bann kom þó ekki í veg fyrir, að unglingarnir söfnuðust saman og héldu uppteknum hætti. Foreldrar og opinberir aðilar stóðu úrræðalausir, á meðan unglingarnir nutu þessa ímyndaða frelsis, sem þeir töldu, að hefði fallið þeim í skaut á þessum fjöldamótum. Það var engu líkara en að það væri að verða almenn skoðun meðal æskunnar í landinu, allt frá fermingaraldri, að enginn væri hæfur til gleðifunda nema undir áhrifum áfengis, og til að sýna jafnöldrunum þroska sinn og sjálfstæði væri ekkert ráð óbrigðulla að hennar dómi en að neyta áfengra drykkja.

Ungmennafélögin og önnur æskulýðsfélög gerðu gagnráðstafanir til að hamla á móti þessari drykkjutízku. Þau mynduðu samtök og auglýstu vínlausar samkomur um þessar umræddu helgar á þeim stöðum, sem áður voru verst leiknir. Þessi starfsemi hefur víðast verið rekin með miklum glæsibrag, svo að alger umskipti hafa orðið. Þó er starfsaðstaða þessara félaga að mörgu leyti mjög erfið, þó sérstaklega ungmennafélaganna. Þau hafa fengið og fá enn mjög lítinn fjárhagslegan stuðning frá hinu opinbera, og engan veginn sambærilegan við hliðstæð félög. Stjórnarvöld hafa því ekki sýnt þeim þann skilning og viðurkenningu, sem vert væri, ekki sízt vegna þess, að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að það voru fyrst og fremst ungmennafélögin, sem komu þjóðinni út úr þeirri niðurlægingu, sem drykkja æskunnar hafði í för með sér á þessum fjöldamótum, og þetta forðaði mörgum foreldrum frá hugarkvöl og örvæntingu vegna barna sinna og bjargaði ráðþrota löggæzlu í starfi með því að vísa veginn, sem týnzt hafði. En þótt því miður vanti mikið á, að allir æskumenn fari þann veg, skulum við vera þess minnugir, að þeim fjölgar hlutfallslega, sem þann veg fara við aukna starfsemi þessara æskulýðsfélaga. Því er til mikils að vinna og ábyrgð þeirra mikil, sem ekki vilja styðja slíka starfsemi í orði sem á borði. Ungmennafélögin sönnuðu enn með þessu starfi tilverurétt sinn og nauðsyn, sýndu það í verki, að markmið þeirra er að gera mannlífið fegurra. Þau tóku sér aftur þá stöðu í þjóðfélaginu, sem þessi félagsmálahreyfing var búin að öðlast á öndverðri öldinni og hafði þá varanleg og víðtæk áhrif á allt félagslegt og menningarlegt líf þjóðarinnar og tryggði sér á þann hátt umtalsverðan kapítula í sögu þjóðarinnar.

Þrátt fyrir þessa staðreynd hefur starfsaðstaða þessara félaga versnað til muna síðustu árin. Það þarf töluvert til að mynda svo sterkan segul, að hann dragi til sín meginþorra æskunnar á stórum landssvæðum, að nógu almenn tilfinning myndist fyrir því, hvert fjöldinn muni sækja hverju sinni, því að um margt er að velja, en til þess þarf mikið starf, fjölbreytt skemmtiefni og hóflegan aðgangseyri. Það þarf mikla og góða skipulagningu, til að allir fari eftir settum reglum. Líta ekki allir hv. þdm. þannig á, að það væru alvarleg mistök, ef samkomuhald þessara félagasamtaka færi eitthvað úrskeiðis? Sé svo, sem ég vil ekki efast um að óreyndu, þá hljótum við að vera sammála um það, að hv. Alþ. verði að búa þannig í haginn, að það sé einhver grundvöllur fyrir því, að þessi starfsemi haldi áfram, bæði fjárhagslega og ekki síður þó það, sem að sjálfri framkvæmdinni snýr.

brtt., sem hér er til umr., er aðeins einn þáttur þessa máls, en þó mikilvægur þáttur, því að engin von er til þess, að hægt sé að halda þessum samkomum vínlausum, eins og stefnt er að, nema svæðinu sé lokað, sem samkoman er haldin á hverju sinni. Verði þessi heimild veitt, eins og hér er lagt til, er það undir mati lögreglustjórans á viðkomandi stað, hvort hann notar heimildina eða ekki, og þá sér lögreglan um alla framkvæmd með þeim, sem samkomuna heldur. Mér er það ekki grunlaust, að hv. alþm. hafi ekki kynnt sér, hvernig löggjafinn hefur búið að starfsemi þessara félaga, sem þó er að margra dómi mjög mikilvæg. Af allri vinnu sem félögin þurfa að borga, verða þau að greiða launaskatt og tryggingagjöld. Af aðgangseyri eru þau látin borga söluskatt og hálfan kostnað af allri löggæzlu á þessum stóru mótum. Hlutdeild ungmennafélaganna í löggæzlukostnaði á samkomum í félagsheimilum hefur margfaldazt á síðustu árum. En það er staðreynd, að allur kostnaður við stórmót, sem nokkur von er til, að nái tilgangi sínum, er orðinn svo geigvænlegur, að engin leið væri að láta þau bera sig, ef félagarnir legðu ekki fram meginhlutann af vinnunni án endurgjalds.

Er það sanngjarnt eða skynsamlegt að skattleggja slíka starfsemi, eins mikilvæg og hún er frá þjóðfélagslegu sjónarmiði? Þessi mót á alls ekki að skattleggja á neinn hátt að mínum dómi. Það væri nær að ýta undir þessa starfssemi, t. d. með því að ríkið legði til alla löggæzlu, eða styrkja þessi félög á annan hátt til að halda slík mót, sem draga mjög úr drykkju æskunnar, og er því mjög mikilvægt að auka þessa starfsemi, fjölga sem allra mest vínlausum samkomum í landinu og sérstaklega þeim, sem æskan sækir mest til. Það þarf að búa svo um, eftir því sem hægt er, að þessar samkomur nái tilgangi sínum. En til þess þarf æskan að sækja þær fremur en aðrar samkomur. Þær þurfa einnig að hafa meira að bjóða, en því fylgir mikill kostnaður. Það þarf að sjá um, að farið sé eftir settum reglum á þessum mótum, þegar svo háttar til, að vegur liggur í gegnum mótsstað, eins og t. d. í gegnum Vaglaskóg, og víðar hefur það valdið miklum erfiðleikum.

Í umferðarlögunum frá 23. apríl 1968 er engin ótvíræð heimild til að loka vegum vegna slíkra móta. Dómsmrn. hefur ekki talið sig hafa slíka heimild eða talið, að lögreglustjórar hefðu hana. Hins vegar telur dómsmrn. æskilegt að setja slíka heimild í lög, og þessi brtt. er samin í samráði við það. Reynslan hefur líka sýnt, að nauðsynlegt er að loka mótsstöðum, og það er næstum frumskilyrði þess, að hægt sé að halda þar öllu eftir tilskildum reglum, því að ótrúlega margir hafa tilhneigingu til þess að vilja spilla tilgangi þessara móta, eru undir áhrifum áfengis, krefjast að fá að fara inn á mótsstaðina undir því yfirskini, að þeir séu að fara inn í sveitina innan við mótsstaðinn og enginn geti bannað sér veginn. Á þennan hátt hafa ýmsir komizt inn á mótsstaðina og valdið erfiðleikum og leiðindum og sett blett á þessar samkomur. Fyrir það væri hægt að girða með því að samþykkja þessa heimildartillögu.

Ég skal svo ekki ræða þessi mál frekar að sinni, en vil þó undirstrika það að lokum, að hv. Alþ. ætti að sýna starfsemi ungmennafélaganna og annarra hliðstæðra æskulýðsfélaga meiri áhuga og skilning en hingað til og styrkja þeirra mikilvæga starf margfalt við það, sem nú er. Svo mikilvæg fyrir þjóðina tel ég þessi störf vera. Ég þekki það af eigin reynslu, og þá reynslu hafa margir aðrir átt, hv. alþm. einnig. Því eigum við að hefja þetta mál yfir aðrar deilur, athuga, eftir því sem hægt er, alla æskulýðsstarfsemi í landinu og styrkja og hlúa að því, sem við teljum mikilvægast, og þá fyrst og fremst þá starfsemi, sem eykur sjálfsvirðingu og reglusemi æskunnar. Vínlausu samkomurnar, ekki sízt héraðsmótin, eru áreiðanlega mikilvægur hlekkur í þeirri starfsemi ásamt þróttmiklu félagsstarfi, sem er undirbyggt af alhliða íþróttakennslu. Og forustumennirnir séu fyrirmynd í reglusemi. Það er mikilvægt atriði, sem enginn ætti að gleyma.

Ég vona, að að athuguðu máli muni hv. þd. taka jákvæða afstöðu til þessarar heimildartill. og sýna með þeim hætti hug sinn til þeirrar mikilvægu starfsemi, sem ungmennafélögin inna af hendi og ég hefi reynt að lýsa hér að nokkru.