30.04.1970
Efri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

12. mál, umferðarlög

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á umferðarlögum, 12. mál, hefur verið til athugunar hjá allshn. þessarar hv. þd. N. mælir samhljóða með þessu frv.

Frv. þetta kveður á um, að umferðarfræðslu verði komið á og í ákveðið horf undir forsjá umferðarráðs. Einnig komi hér inn ákvæði um umferðarnefndir í sveitarfélögum. Eins og segir í grg. með frv., er talið, að sú samræmda umferðarfræðsla, sem fram fór í sambandi við breytingu í hægri akstur, hafi reynzt svo vel og komið í veg fyrir svo mörg slys, að sjálfsagt sé að halda sem víðtækustu samstarfi áfram til að fyrirbyggja umferðarslys, eftir því sem frekast er unnt.

Borizt hafði n. erindi frá dómsmrn. um, að hún flytti brtt. við frv. Þessum till. hefur nú ekki verið útbýtt, en þær eru tiltölulega einfaldar. Ég skal skýra frá, hverjar þær eru. N. er sammála um að flytja þessar brtt. Það er við 77. gr. frv., a-liður, þar sem upp eru talin félagssamtök, sem að umferðarráði standa. Þessi upptalning er óbreytt síðan 1962, en þar eru inni tvö Reykjavíkurfélög, sem nú hafa verið gerð að landssamtökum. Það er Bandalag ísl. leigubifreiðastjóra og Landssamband vörubifreiðastjóra. Þetta voru áður Reykjavíkurfélög. Ég vænti þess, að allir geti verið sammála um að samþykkja þessa brtt. Hún er sem sagt orðin staðreynd nú þegar.

Svo er við sömu gr., 77. gr., b-liður. Aftan við 2. mgr. bætist ákvæði, þar sem endurskoðendum samtakanna er bannað að hafa með höndum önnur störf ósamrýmanleg endurskoðunarstarfi þessu. Í ljós hefur komið, telur rn., að ástæða sé til þess, að þessu ákvæði verði bætt í lögin.

Hv. Nd. gerði samkv. beiðni dómsmrn. einnig breyt. á þessu frv., m. a. um eðlilegar ákvarðanir á skyldutryggingu. Enn fremur breytti hún nafni á stofnuninni úr umferðarmálaráð í umferðarráð.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. N. varð sammála um, að þessar breyt. eigi rétt á sér, og mælir með þeim við hv. þd.